Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Þó að stóru sjúkrahúsunum sé gert að skera niður í sinni þjónustu hefur gerviliðaaðgerðum vegna hnjá- og mjaðmaliða fjölgað á síðustu árum. Alls voru 1.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Þó að stóru sjúkrahúsunum sé gert að skera niður í sinni þjónustu hefur gerviliðaaðgerðum vegna hnjá- og mjaðmaliða fjölgað á síðustu árum. Alls voru 1.055 svona aðgerðir framkvæmdar á síðasta ári, sem er aukning um tæp 10% frá árinu 2010 og um 19% frá árinu 2008. Aðgerðirnar eru gerðar á Landspítalanum, Sjúkrahúsinu á Akureyri og sjúkrahúsi Heilbrigðisstofnunar Vesturlands á Akranesi, HVE.

Niðurskurðurinn hefur hins vegar haft þau áhrif að biðtími hefur lengst, mismikið eftir stofnunum. Lengstur er hann á Akranesi, eða 12-15 mánuðir, en þar eru um 150 manns á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum. Að sögn Guðjóns Brjánssonar, forstjóra HVE, voru á árum áður gerðar um 130 svona aðgerðir ár hvert en vegna mikils kostnaðar varð að draga úr þeim og biðlistar því lengst á sama tíma.

Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, segir um 40 sjúklinga bíða eftir gervilið í mjöðm og um 45 í hné. Hann segir biðlistann núna óvenjustuttan þar sem vegna manneklu hafi orðið að draga úr móttöku bæklunarskurðlækna undanfarna mánuði. Bið eftir aðgerð sé mismunandi eftir sérfræðingum en almennt sé hún þrír til sex mánuðir.

Á Landspítalanum fengust þær upplýsingar í gær að bið eftir liðskiptum væri fjórir til sex mánuðir, gæti þó verið styttri eða lengri.