[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Umferð á 16 völdum talningarstöðum Vegagerðarinnar á hringveginum dróst saman um 5,3 prósent í fyrra 2011 miðað við árið 2010.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Umferð á 16 völdum talningarstöðum Vegagerðarinnar á hringveginum dróst saman um 5,3 prósent í fyrra 2011 miðað við árið 2010. Vegagerðin segir að þetta sé mesta samdráttarárið síðan 2005, eða frá því að samantekt af þessu tagi hófst. Til samanburðar dróst umferðin saman um 2,3% árið 2010 og um 1,7% árið 2008 en jókst um 6,8% árið 2007, að sögn Vegagerðarinnar.

Akstur á vegunum jókst nánast á hverju ári að minnsta kosti allt frá árinu 1975 og til ársins 2008. Áberandi mikið dró úr umferð í desember síðastliðnum frá í desember 2010 og dróst umferðin saman um 9,5% á milli ára. Fara þarf aftur fyrir árið 2005 til að finna jafnlitla umferð í desember og hún var í fyrra. Sömuleiðist dróst akstur einnig mikið saman. Þess ber að geta að Vegagerðin gerir greinarmun á umferð og akstri. Umferð merkir fjölda bíla á sólarhring en akstur fjölda ekinna kílómetra.

Umferðin dróst saman á öllum landsvæðum milli desembermánaða 2010 og 2011. Mest dróst hún saman við teljara á Suðurlandi eða samtals um rúmlega 21%, á Austurlandi dróst umferðin saman um 19%. Á og við höfuðborgarsvæðið var samdrátturinn 6,1%.

Uppsöfnuð umferð í lok ársins 2011 hafði dregist saman um 5,3%. Á einstökum svæðum dróst hún mest saman á Suðurlandi eða um 9,5% en minnst á og við höfuðborgarsvæðið eða um 3,9%. Af einstökum stöðum var mestur samdráttur uppsafnaðrar umferðar á Hellisheiði eða um 10,7% en aukning um 0,4% varð á Mývatnsöræfum. Umferð um Hvalfjarðargöng dróst saman um 5,7%.

Vegagerðin segir að að teknu tilliti til allra breytinga séu vísbendingar um að árið 2011 verði sögulegt samdráttarár allt frá 1975.