Séra Björn Jónsson fæddist á Þverá í Blönduhlíð í Skagafirði 7. október 1927. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 20. desember 2011.

Útför sr. Björns fór fram frá Akraneskirkju 29. desember 2011.

Ferðalög. Pabbi hafði gaman af því að ferðast. Það var þó ekki svo að hann vildi liggja í sólinni á útlendum ströndum, en hann var gríðarlega forvitinn um fólk og menningu, bæði forna og nýja og þessi forvitni dró hann stundum fjarlægra heimshorna.

En það eru til annars konar ferðalög og annars konar ferðamáti og ég er, og mun ávallt verða, óendanlega þakklátur fyrir öll þau ferðalög sem við tveir fórum saman. Þessi ferðalög sem við fórum voru oft svo svakaleg, svo spennandi, að núna rúmum fjörutíu árum síðar eru þau jafn eftirminnileg og ljóslifandi fyrir mínum hugskotssjónum eins og þau hefðu verið farin í gær.

Við heimsóttum staði sem hétu undarlegum nöfnum eins og höllina Soríu Moríu, við príluðum upp snarbrattar hlíðar Einmannafjalla, slógumst í lið með hinum blinda Frekó sem leitaði að Lífsvatninu, heimsóttum skrítna stjörnufræðinga sem dvöldust í Stjörnuathuganarstöð fjarri mannabyggðum, fundum yfirgefinn vita á lítilli eyju úti á reginhafi, hlupum um laufskóga í Hollandi, skriðum upp í gauksklukku, inní músarholur og nutum söngs þakklátra býflugna. Við töluðum við ketti og krákur og deildum við Bísamrottu sem þóttist vera heimspekingur.

Og allt þetta gerðum við á svo ótrúlega einfaldan hátt, pabbi sat á stól með bók, ég lá upp í rúmi og hlustaði.

Ég held líka að hann hafi haft gaman af þessum ferðalögum, því næstu áratugina var hann alltaf að spyrja mig hvort ég myndi eftir þessu, og þá sló hann oftast fram einhverri setningu sem hafði verið sögð í einu að þessum ferðalögum, „Manstu eftir þessu Palli?“ spurði hann glottandi og ég kinkaði alltaf kolli því ég mundi það vel. Hvernig gat ég gleymt því? Þetta voru skemmtilegustu stundir barnæskunnar.

Ég vildi þakka pabba fyrir þetta, þakka honum umhyggjuna, þolinmæðina og gleðina, fyrir það að hafa gert lífið að ævintýri.

Jón Páll.

Hinsta kveðja til Björns mágs míns og ævivinar. Þakkir fyrir góða samfylgd og trausta vináttu. Friður Guðs þig blessi.

Í morgun sastu hér

undir meiði sólarinnar

og hlustaðir á fuglana

hátt uppí geislunum

minn gamli vinur

en veist nú í kvöld

hvernig vegirnir enda

hvernig orðin nema staðar

og stjörnurnar slokkna

(Hannes Pétursson.)

Elsku Sjöfn, fjölskylda og ástvinir, ég votta ykkur öllum innilega samúð mína.

Inga Ingólfsdóttir

frá Grænumýri.

Okkur systurnar langar að minnast með nokkrum orðum Björns föðurbróður okkar sem lést 20. desember sl. eftir erfið veikindi.

Björn var eldri bróðir föður okkar og heimsóknir þeirra Sjafnar, konu hans, og barnanna í sveitina í Blönduhlíð voru árlegur viðburður og tilhlökkunarefni okkar systra. Þeim fylgdi ávallt glens og gaman og oft var farið í bílferðir eða göngutúra upp í fjall. Björn hafði gaman af því að segja sögur og fræða og þessar ferðir voru gjarnan kryddaðar frásögnum og fróðleik, stundum um æskuminningar eða um örnefni í sveitinni og kynlega kvisti. Sjöfn sló á létta strengi og lífgaði enn frekar upp á selskapinn með söng og skrýtnum þulum.

Á fullorðinsárum hefur Björn reynst okkur alveg einstaklega vel; traustur og umhyggjusamur. Alltaf var hann reiðubúinn og greiðvikinn ef við leituðum til hans og m.a. skírði hann bæði börn Gunnhildar. Minnisstætt er hve hlýlega og fallega hann talaði til þeirra og hvað hann framkvæmdi þessi prestsverk af mikilli alúð. Sömuleiðis fundum við ávallt að hann lét sér annt um fjölskyldur okkar og fylgdist ætíð vel með. Nú síðast í vor komu Björn og Sjöfn, ásamt börnum og fjölskyldum þeirra í fermingu yngsta sonar Elinborgar og eins og endranær talaði Björn gott orð til hans eins og til hinna barna okkar. Ræður Björns snérust aldrei um orðlistina eingöngu þótt hann væri meistari orðanna heldur lýstu þær af umhyggju og kærleika gagnvart þeim sem hann talaði til.

Aldrei líður okkur heldur úr minni hjálpsemi Björns, nærgætni og hluttekning þegar faðir okkar dó fyrir nokkrum árum; hann átti til orðin sem hugguðu og sefuðu sorgina. Að auki hann lagði á sig ferðalög um miðjan vetur í vályndu veðri til að annast prestsstörf vegna andláts föður okkar.

Í haust heimsóttum við þau Björn og Sjöfn og voru þá veikindin farin að ganga nærri Birni. Að vanda spurði hann frétta af fjölskyldunni og börnunum og rifjaði upp liðna tíð. Elsti sonur Gunnhildar hefur verið við nám í Tübingen í Þýskalandi og sýndi Björn því mikinn áhuga en þar var hann einnig við nám og hafði sérstakt dálæti á þeim fagra bæ. Hann var stálminnugur og gæddur þeirri gáfu að kunna ljóð og texta utan að. Þar sem við sátum hóf hann að fara með ljóð eftir þýska skáldið Hölderlin er lengi bjó í Tübingen og Björn hafði mætur á. Hér í lokin fara lokalínur úr kvæði hans „Til upphiminsins“ og með þeim kveðjum við okkar mæta, kæra frænda, Björn Jónsson. Hans minning lifir með okkur.

Við vottum ykkur öllum Sjöfn, Sossa, Imba, Palli, Gunnhildur og fjölskyldur okkar dýpstu samúð og biðjum guð að styrkja ykkur í sorginni.

En burt meðan hugurinn ber mig í bláleita fjarlægðar móðu.

Þar lykur þú líttkunna strönd með ljóstærum himneskum bylgjum.

Þá brunar þú blaktandi niður úr blómlegum aldinmeiðs toppi.

Upphiminn! ástríki faðir! og óðlæti hjarta míns sefar.

Svo ánægður una eg mun sem áður hjá blómunum jarðar.

(Hölderlin, þýð. Stgr. Thorsteinss.)

Elinborg og Gunnhildur

Stefánsdætur frá Grænumýri.

Með fáeinum orðum langar undirritaðan að kveðja góðan frænda og vin, einn hinn bezta er hann hefur eignast á lífsleiðinni utan nánustu fjölskyldu sinnar, sr. Björn Jónsson á Akranesi. Segja má að kynni okkar hafi hafist er foreldrar hans voru um skeið til húsa að heimili mínu, Miklabæ í Blönduhlíð, vorum við þá báðir börn að aldri. Björn kunni margar skemmtilegar sögur frá þessum tíma, en það var í meiri þoku hjá undirrituðum. Síðar hófu foreldrar hans Jón Stefánsson og Gunnhildur Björnsdóttir, búskap í Hjaltastaðakoti (síðar Grænumýri) í Út-Blönduhlíð. Þar dvaldi hann svo í foreldrahúsum ásamt yngri bróður sínum, Stefáni, miklum sómamanni, sem látinn er fyrir nokkrum árum.

Það var ætíð tilhlökkunarefni hjá undirrituðum þegar til stóð að fara út í Hjaltastaðakot til að heimsækja frændfólkið þar, einkum þó Björn. Á þessum árum var hesturinn aðalfarkosturinn. Síðar kom reiðhjólið til sögunnar. Þessar ferðir voru undirrituðum töluvert ævintýri að ekki sé sagt hátíðarstund og gestrisnin ósvikin.

Síðar lágu leiðir okkar Björns frænda saman í Menntaskólanum á Akureyri. Hann var þar einum bekk á undan, varð stúdent 1949. Að menntaskólanámi loknu völdum við frændurnir að fara í guðfræðinám, og að því námi loknu var hann kjörinn sóknarprestur í Keflavíkurprestakalli. Þar þjónaði hann í röska tvo áratugi og síðan á Akranesi nokkru lengur eða til starfsloka 1997. Á þessum árum var það oftast sem við frændurnir hittumst á synodus (prestastefnu). Var þá margt spjallað bæði um veraldleg og andleg málefni. Hjá Birni kom þá jafnan í ljós óbilandi trú á Guð föður fyrir náð frelsara vors Jesú Krists.

Þessi guðstrú frænda míns bilaði ekki þrátt fyrir ýmislegt persónulegt mótlæti. Guðstrúin var honum kraftur til mikils starfs á vettvangi kirkjunnar. Síðustu árin eftir að embættistíma okkar lauk urðu samvistir okkar frændanna stopulli.

Ég tel mig vera í þakkarskuld við frænda minn við þessi stóru vegaskil. M.a. þá jarðsöng hann föður minn og bróður, Björn Stefán. Af mörgum mun sr. Björn hafa verið talinn góður predikari í guðsþjónustum og nærfærinn í minningarorðum sínum á kveðjustundum.

Hin síðari árin höfum við Björn frændi hist sjaldnar.

Við þessi vegaskil biðjum við Ólöf eiginkonu sr. Björns, börnum þeirra og fjölskyldum blessunar Guðs á ókominni tíð. Loks færi ég frænda mínum sr. Birni Jónssyni alúðarþakkir fyrir öll góðu kynnin. Veri hann ávallt Guði falinn.

Stefán Lárusson.

Orkumikill, eldhugi, hugsjónamaður, trúmaður. Þessi orð koma í hugann er ég minnist sr. Björns Jónssonar. Ég kynntist honum á háskólaárum mínum er ég tók að mér barnastarf í Akraneskirkju árið 1993. Auk þess aðstoðaði ég hann nokkur skipti í ferðalögum með fermingarbörn. Eldmóðurinn og gleðin sem geislaði frá þessum manni var mikil hvatning og sterk fyrirmynd fyrir líf og starf sem prestur. Á kvöldvökum með fermingarbörnum brá hann ætíð á leik með þvílíkum tilþrifum að ég sá ástæðu til að rifja upp símanúmer neyðarlínunnar ef sækja þyrfti tæplega sjötugan manninn. En aldur segir ekkert þegar orkan er slík. Alltaf gaf hann mikið af sér og sáði kærleika í kringum sig. Í mínum huga hafði hann sterka sjálfsmynd sem prestur og hvatti yngri menn til dáða. Af heilindum var hann eftirmanni sínum til aðstoðar af einlægni og þjónustulund í annasömu prestakalli. Þjóðkirkjan á honum mikið að þakka. Ég minnist hans með þakklæti og virðingu. Guð blessi minningu hans og styrki Sjöfn og fjölskylduna alla við þessi kaflaskil.

Sigurður Grétar Sigurðsson.

HINSTA KVEÐJA

Ég fel í forsjá þína,
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson.)

Klara og Hekla Kaðlín.