Flug Hörður Guðmundsson og Ögmundur Jónasson á góðri stund.
Flug Hörður Guðmundsson og Ögmundur Jónasson á góðri stund.
„Þetta var góður og jákvæður fundur og Ögmundur hefur fullan skilning á nauðsyn þessa flugs.

„Þetta var góður og jákvæður fundur og Ögmundur hefur fullan skilning á nauðsyn þessa flugs. Hann ætlaði að skoða málið nánar,“ segir Hörður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Flugfélagsins Ernis, um fund sem félagið átti í gær með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra vegna áætlunarflugs til Sauðárkróks, sem félagið hætti um áramótin. Heimamenn hafa þrýst á að flugið fari í gang á ný, en Hörður segir málið ekki svo einfalt.

Ernir gerði samning við ríkið árið 2007 um áætlunarflug til Sauðárkróks, sem hljóðaði upp á 37 milljóna króna styrk á ári. Árið 2010 var þessi styrkur afnuminn en fluginu var framhaldið 2011 vegna framlags frá Vegagerðinni upp á 10 milljónir. Hörður segir félagið í raun hafa borgað með fluginu á síðasta ári, og það hafi verið tilkynnt sl. sumar að fluginu yrði ekki haldið áfram að óbreyttu. „Þetta flug stendur ekki lengur undir sér og við tilkynntum öllum aðilum það. En menn voru væntanlega að vonast til að það myndi birta til einhvers staðar,“ segir Hörður og telur viðbótarframlag upp á 10 milljónir duga skammt. „Ég er með lítið fyrirtæki sem getur ekki haldið uppi almenningssamgöngum fyrir eigin reikning. Í ofanálag hefur ríkið verið að hækka eða setja á ný gjöld í innanlandsfluginu sem hækkar okkar rekstrarkostnað,“ segir Hörður. Um það var rætt á fundi með ráðherra að þetta sé að gerast á sama tíma og niðurskurður sé í heilbrigðisþjónustu í Skagafirði. Einnig var horft til þess að nokkur ríkisfyrirtæki eru starfandi á svæðinu, eins og Hólaskóli, Byggðastofnun og Íbúðalánasjóður, sem hafa notað flugið mikið. bjb@mbl.is