Heiðar Prúður á vellinum.
Heiðar Prúður á vellinum. — Morgunblaðið/Eggert
Kjör íþróttamanns ársins var kynnt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Heiðar Helguson vann og hann er sjálfsagt ágætur jafnvel þótt ég hafi aldrei séð neitt til hans. En ég fylgist heldur ekkert sérlega vel með íþróttum, nema þegar mikið drama er í gangi.

Kjör íþróttamanns ársins var kynnt í beinni útsendingu í sjónvarpi. Heiðar Helguson vann og hann er sjálfsagt ágætur jafnvel þótt ég hafi aldrei séð neitt til hans. En ég fylgist heldur ekkert sérlega vel með íþróttum, nema þegar mikið drama er í gangi. Ég tek til dæmis alltaf eftir fréttum af því þegar knattspyrnumenn fara í leikbann, sem gerist mjög oft. „Mikið eru þetta nú illa siðaðir menn,“ hugsa ég þá. En um daginn fór ég að endurskoða þetta mat mitt. Ég setti mig í spor knattspyrnumanns og komst skuggalega fljótt að þeirri niðurstöðu að á vellinum myndi ég ekki verða til fyrirmyndar í prúðmennsku. Ég veit að í hita leiksins myndi ég hreyta út úr mér við dómarann: „Það er engin furða að þú dæmir eins og þú gerir, sá landsfrægi idjót sem þú nú ert!“ Og þegar hann drægi upp rauða spjaldið myndi ég fórna höndum og kvaka: „Láttu ekki svona! Hvað er eiginlega að þér! Reyndu að slappa af!“ Og þegar ég yrði sett í tveggja leikja leikbann fyrir kjafthátt myndi ég líta svo á að ég hefði verið beitt svívirðilegum órétti.

Þannig hefur viðhorf mitt til knattspyrnumanna í leikbanni gjörbreyst. Ég hef samúð með þeim og skilning á brotum þeirra.

Kolbrún Bergþórsdóttir