Gróa á Leiti er ein frægasta söguhetja Jóns Thoroddsens, skálds og sýslumanns. „Aldrei trúði hún meir en einum í senn fyrir trúnaðarmálum, og svo var hún orðvör, að aldrei greindi hún sögumann.

Gróa á Leiti er ein frægasta söguhetja Jóns Thoroddsens, skálds og sýslumanns. „Aldrei trúði hún meir en einum í senn fyrir trúnaðarmálum, og svo var hún orðvör, að aldrei greindi hún sögumann. Var það jafnan orðtæki hennar, er hún sagði frá einhverju: „Ólyginn sagði mér, en hafðu mig samt ekki fyrir því, blessuð.“ Ávallt vissi hún að haga svo orðum sínum, við hvern sem hún talaði, að hverjum fyrir sig virtist sem Gróa ætti engan betri vin hér á jörðu en sig og að hún væri engum trú nema sér einum.“

Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra var sonarsonur Jóns. Þegar hann var eitt sinn spurður í sjónvarpi um nýútkomna bók Hreins Loftssonar, þá blaðamanns, vildi hann engu svara um bókina, en minnti hógværlega á, að föðurafi sinn hefði nú búið til Gróu á Leiti. Þegar roskin kona úti í bæ heyrði þetta, sló hún sér á læri og sagði við stallsystur sína: „Ekki vissi ég, að hún Gróa á Leiti væri föðursystir Gunnars Thoroddsens.“

Gróa á Leiti hefur líka látið um sig kveða. Sigurbjörn Jóhannsson frá Fótaskinni, sem fluttist til Bandaríkjanna, faðir skáldkonunnar Jakobínu Johnson, orti:

Vondra róg ei varast má,

varúð þó menn beiti.

Mörg er Gróa málug á

mannorðsþjófa Leiti.

Þórarinn Eldjárn skáld skírskotar í vísu til þess, að Ríkisútvarpið er til húsa á Efstaleiti, en sumir starfsmenn þess láta sér ekki nægja að kynna þaðan hugðarefni sín:

Þegar hún Gróa á Efstaleiti lýgur

er ljósvakinn varla nægur

og orðrómurinn um allar jarðir flýgur,

svo óhlutdrægur.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is