Rokkstjarnan Lífsleiður en ríkur.
Rokkstjarnan Lífsleiður en ríkur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Paolo Sorrentiono Leikarar: Sean Penn, Frances McDormand, Judd Hirsch

Kvikmyndin This must be the place eða Staðurinn og stundin í íslenskri þýðingu var frumsýnd á Íslandi um jólin. Undirritaður sá frumsýningu hennar í Cannes síðasta vor og hafði valið á milli þess að sjá þessa mynd eða Drive í leikstjórn Nicolas Winding Refn. Undirritaður sleppti frumsýningunni á Drive fyrir þessa og það voru gríðarleg vonbrigði. Ekki aðeins kom seinna í ljós að Drive var hreint afbragð mynda heldur reyndist This must be the place afspyrnu leiðinleg mynd.

Myndin fjallar um Cheyenne (leikinn af Sean Penn) sem er vellríkur en lífsleiður fyrrverandi rokkari. Lífsleiði hans smitast til áhorfenda þannig að maður þjáðist af leiðindum við að horfa á myndina. Við lát föður Cheyenne ákveður hann að hafa uppi á kvalara föður síns, nasistaböðli sem felur sig í Ameríku. Cheyenne leggst í ferðalög um landið í leit sinni og kynnist mörgu fólki á ferðalagi sínu sem hefur áhrif á hann.

Það er mikið af skrítnum andstæðum í myndinni þar sem þessi lífsleiða gothic-stjarna er sett í umhverfi sem hún á ekki heima í. Sumt af því náði jafnvel að vera svolítið sætt, en flest af því var bara tilgerðarlegt og leiðinlegt, þótt augljóslega hafi einhverjum gáfumönnum í Cannes þótt það voða flott því hún var valin í keppnina á hátíðinni. Það læðist samt að manni sá grunur að það hafi hjálpað til við snobb í kringum myndina að þátt í henni tóku töffarar einsog David Byrne, Sean Penn og Paolo Sorrentiono. En leikstjórinn Sorrentino er óneitanlega orðinn mjög vel tengdur í Cannes.

Aðalpersóna verksins er ekkert svo slæm hugmynd; svona fullorðin rokkstjarna sem klæðir sig og hegðar sér einsog unglingur þannig að það fyrsta sem mann langar til að segja við hana þegar maður sér hana er: „Hættu að haga þér einsog krakki!“

En það er ójafnvægi milli persónu- og þroskasögu Cheyenne annarsvegar og helfararinnar hinsvegar. Sem hefði verið hægt að horfa framhjá ef myndin hefði náð að heilla mann með einhverju öðru, en því var ekki fyrir að fara. Myndin er tilgerðarleg. Þetta er þvinguð tilraun til að vera frumlegur.

Börkur Gunnarsson