[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar hefur framlengt samning sinn við landsliðsmanninn Jóhann Berg Guðmundsson til vorsins 2014 en hann átti að renna út næsta vor.

Hollenska knattspyrnufélagið AZ Alkmaar hefur framlengt samning sinn við landsliðsmanninn Jóhann Berg Guðmundsson til vorsins 2014 en hann átti að renna út næsta vor. Frá þessu var skýrt á vef AZ í gær og þar kemur fram að félagið hafi nýtt sér ákvæði í samningnum til framlengingar. „Við erum mjög ánægðir með þróun Jóhanns. Hann hefur vissulega ekki átt fast sæti í byrjunarliðinu á þessu tímabili en hann er mjög nálægt því. Við teljum að Jóhann eigi mikið inni og sé AZ mjög dýrmætur,“ sagði framkvæmdastjórinn Earnest Stewart á vef félagsins. Jóhann, sem er 21 árs, hefur spilað 53 leiki með aðalliði AZ og skorað í þeim sjö mörk.

ÍR-ingar hafa fengið tvo frjálsíþróttamenn í sínar raðir á síðustu dögum. Sigurður Lúðvík Stefánsson, 24 ára spretthlaupari úr Fjölni, og Tómas Zoëga , 18 ára millivegalengda- og langhlaupari úr Breiðabliki, hafa gengið frá félagaskiptum yfir í Breiðholtsfélagið. Þeir hafa báðir æft af krafti með ÍR-ingum í vetur. Nokkuð hefur verið um félagaskipti í frjálsíþróttum síðustu daga.

S tefán Gíslason knattspyrnumaður er á reynslu þessa dagana hjá belgíska fyrstudeildarliðinu Oud-Heverlee Leuven sem er í 12. sæti efstu deildarinnar í Belgíu. Stefán er samningslaus eftir nokkurra mánaða veru hjá Lilleström í Noregi og það gæti skýrst á allra næstu dögum hvort hann semur við félagið.

Skautafélag Reykjavíkur hefur endurheimt landsliðsmanninn Pétur Maack frá Svíþjóð. Pétur var lykilmaður hjá SR á síðasta keppnistímabili en spilaði í haust með Osby í Svíþjóð. Hann er nú kominn heim í Laugardalinn á nýjan leik og mun að líkindum ljúka tímabilinu með SR. Hann lék sinn fyrsta leik með SR á tímabilinu á fimmtudagskvöldið þegar liðið tapaði fyrir SA Jötnum eftir framlengdan leik. Pétur skoraði í leiknum og gaf tvær stoðsendingar.

Oddur Gretarsson , hornamaður frá Akureyri, og Aron Rafn Eðvarðsson , markvörður úr Haukum, voru á meðal áhorfenda á leik Íslendinga og Pólverja á alþjóðlega æfingamótinu í handknattleik í Danmörku í gær. Hinir 16 leikmennirnir sem Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðþjálfari valdi til þess að taka þátt í leikjum mótsins voru á leikskýrslu í gær. Ólafur Bjarki Ragnarsson, leikmaður HK, og Ólafur Andrés Guðmundsson, leikmaður Nordsjælland, voru þeir einu af 16 manna hópnum sem voru á skýrslu sem komu ekkert inn á leikvöllinn.