Ingibjörg Jónasdóttir fæddist á Nefsstöðum í Stíflu í Fljótum 2. september 1920. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar 29. desember 2011.

Foreldrar hennar voru Jóhanna Jónsdóttir, f. 4. júlí 1889, d. 10. feb. 1942 og Jónas Jónasson, f. 3. mars 1892, d. 6. jan. 1962. Ingibjörg átti fjögur systkini. Þau eru: Kári Jónsson, f. 17. okt. 1913, d. 4. feb. 1982, Gísli Þorlákur Jónasson, f. 25. sept. 1917, d. 7. jan. 1950, Valtýr Jónasson, f. 9. sept. 1925, d. 21. sept. 2009 og Valey Jónasdóttir, f. 21. nóv. 1931.

Hinn 17. maí 1941 giftist Ingibjörg Jóni Þorsteinssyni, f. 27. apríl 1921, d. 10. apríl 1993. Foreldrar hans voru Jóna Aðalbjörnsdóttir, f. 17. ágúst 1900, d. 22. ágúst 1983 og Þorsteinn Gottskálksson, f. 2. des. 1896, d. 6. mars 1985. Börn Ingibjargar og Jóns eru: 1) Jónas Jónsson, f. 23. apríl 1940, fyrri eiginkona Sigríður Stefánsdóttir, f. 30. des 1941, d. 1. ágúst 1971, börn þeirra eru Gunnar Stefán Jónasson, f. 11. júní 1962, Jón Ingvar Jónasson, f. 31. maí 1965 og Ingibjörg Jónasdóttir, f. 4. des. 1967, barnabörnin eru 9. Seinni eiginkona Jónasar er Ólöf Steingrímsdóttir, f. 10. okt. 1945, börn þeirra eru Viðar Jónasson, f. 24. maí 1973 og Kári Jónasson, f. 28. ágúst 1979, barnabörnin eru fjögur. 2) Jónsteinn Jónsson, f. 12. okt. 1945, maki Þóranna Sigríður Jósafatsdóttir, f. 23. des. 1947, d. 2010, börn þeirra eru Elvar Freyr Jónsteinsson, f. 12. ágúst 1966, Grétar Jósafat Jónsteinsson, f. 25. mars 1971, Jón Ingiberg Jónsteinsson, f. 17. febr. 1982, barnabörnin eru fimm. 3) Ari Heiðberg Jónsson, f. 16. feb. 1953, maki Lilja Jónsdóttir, f. 14. sept. 1959, börn þeirra eru Jón Helgi Arason, f. 8. apríl 1976 og Alexander Arason, f. 6. sept. 1994, barnabarn er eitt. 4) Jóhanna Jónsdóttir, f. 13. sept. 1960, maki Hjörtur Hjartarson, f. 28. mars 1961, börn þeirra eru Ingibjörg Sigríður Hjartardóttir, f. 23. ágúst 1984, Hjörtur Hjartarson, f. 16. mars 1988 og Hrafnhildur Jóna Hjartardóttir, f. 27. maí 1995, barnabarn er eitt.

Ingibjörg fluttist fjögurra ára gömul með foreldrum sínum til Siglufjarðar, að Lindargötu 21 þar sem faðir hennar byggði húsið Nefstaði. Alla sína búskapartíð bjó hún ásamt eiginmanni sínum að Hverfisgötu 3, Siglufirði. Ingibjörg hóf atvinnuþátttöku sína ung að árum, vann við síldarsöltun á Skaftaplaninu hjá Skafta Stefánssyni, við afgreiðslustörf í Kaupfélagi Siglfirðinga, hjá Sigló Síld og frystihúsinu Ísafold. Lengst af starfsferli sínum vann hún í frystihúsi Þormóðs ramma. Ingibjörg var félagi í Kvenfélagi Sjúkrahúss Siglufjarðar, félagi Sjálfsbjargarfélagi Siglufjarðar og í Félagi eldri borgara á Siglufirði. Síðustu æviár sín dvaldist hún á Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar á Siglufirði.

Ingibjörg verður jarðsungin frá Siglufjarðarkirkju í dag, 7. janúar 2012, og hefst athöfnin kl. 14.

Í dag kveðjum við þig, yndislega tengdamamma, með sorg og söknuð í hjarta. Loksins fékkstu þá hvíld sem þú þráðir. Yndislegt að þú varst umvafin ást og kærleika á þessari stundu. Börnin þín, barnabörnin og barnabarnabörnin voru alltaf líf þitt og yndi, þú geislaðir alltaf af gleði og hamingju þegar þau komu og föðmuðu þig. Gestrisnari konu með allri þinni ást og hlýju er erfitt að finna.

Elsku Abba mín, þú varst okkur alltaf svo miklu meira en tengdamóðir, þú varst okkar besta vinkona sem alltaf var gaman að tala við um alla hluti, því betri hlustanda er vart hægt að hugsa sér en þig. Það er sama hvar litið er í minningunum, þær enda allar á einn og sama veginn, yndislegri, kærleikshlýrri, jákvæðari og hjartahlýrri konu er vart hægt að finna, elsku vina, þú ert og verður alltaf einstök í hjarta okkar.

Elsku yndislega tengdamóðir, við erum svo óendanlega þakklátar að hafa fengið þann heiður að kynnast þér og eyða öllum þessum fallegu og dýrmætu stundum með þér þar sem mikið var hlegið og spjallað, þetta er okkur ákaflega mikill fjársjóður og það besta og yndislegasta veganesti út í lífið með allri þinni hjartahlýju og góðum ráðleggingum sem er ómetanlegt.

Ég hef aldrei lofað að brautin sé bein,

og gullskrýddir blómstígar alla leið heim.

Ég get ekki lofað þér gleði án sorgar

á göngunni löngu til himins borgar.

En lofað ég get þér aðstoð og styrk

og alltaf þér ljósi þó að leiðin sé myrk.

Mundu svo barnið mitt að lofað ég hef

að leiða þig sjálfur hvert einasta skref

(Höfundur ók.)

Að endingu viljum við senda fjölskyldunni og öðrum vandamönnum okkar samúðarkveðjur.

Hvíl í friðarfaðmi.

Þínar tengdadætur, elsku Abba mín,

Ólöf og Lilja.

Margar minningar um góðar samverustundir með Öbbu ömmu eru okkur efst í huga þegar hún hefur verið kvödd burt úr þessum heimi.

Fyrsta minningin sem kemur upp í hugann um ömmu er þar sem hún stendur á tröppunum á Hverfisgötunni með útbreiddan faðminn með bros á vör að taka á móti okkur til dvalar á Sigló á sumrin.

Á hverju vori vorum við borgarbörnin full tilhlökkunar að komast í sæluna til ömmu og afa. Þar var hver einasti dagur eins og ævintýri fyrir okkur þar sem alltaf var eitthvað nýtt að gerast og Abba hafði alltaf næg verkefni fyrir okkur sem höfðuðu til áhugamála hvers og eins.

Við minnumst ömmu sem dugnaðarkonu með góðan húmor fyrir lífinu og sjálfri sér. Með sínu jafnaðargeði og umburðarlyndi bar hún hag okkar barnabarnana ávallt fyrir brjósti og setti þarfir okkar framar sínum. Hún var falleg og yndisleg manneskja sem gott var að tala við og eigum við góðar minningar um samtöl við hana. Í bréfum sem hún skrifaði okkur þegar við vorum börn hvatti hún okkur áfram í námi og hverju því sem við vorum að takast á við hverju sinni og var dugleg að hrósa okkur.

Þegar móðir Gunna, Jonna og Ingu féll frá opnuðu amma og afi heimilið sitt fyrir þau og dvöldu Jonni og Inga hjá þeim í rúmt ár. Á viðkvæmum tíma hjá okkur systkinum var amma kletturinn sem hlúði að okkur með hlýju sinni og góðri nærveru. Nokkrum árum síðar fengu Viðar og Kári einnig að kynnast þessum góðu kostum sem hún hafði yfir að búa. Hún var okkur, mökum og börnunum okkar góð fyrirmynd sem hafði mótandi áhrif á okkur öll til frambúðar sem við erum afar þakklát fyrir.

Að leiðarlokum kveðjum við ástkæra ömmu og langömmu með hennar eigin orðum, „Mundu að þú ert aldrei ein, Guð er alltaf hjá þér og við biðjum hann að passa þig.“

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

Margs er að minnast,

margt er hér að þakka.

Guði sé lof fyrir liðna tíð.

Margs er að minnast,

margs er að sakna.

Guð þerri tregatárin stríð.

(Vald. Briem.)

Gunnar Stefán, Jón Ingvar,

Ingibjörg, Viðar og Kári

Jónasarbörn.

Í dag kveð ég kæra vinkonu og mágkonu mömmu minnar, hana Ingibjörgu Jónasdóttur eða Öbbu eins og hún var kölluð og margs er að minnast. Ég ólst upp á Hverfisgötu 3 þar sem Abba og Nonni frændi minn bjuggu líka. Það var líf og fjör í þessu húsi enda fólkið margt og það var gott að vera hjá Öbbu; hún hafði alltaf tíma til að spjalla og ráðleggja og alltaf var hún eitthvað að sýsla, sat aldrei auðum höndum, prjónaði og saumaði allt sem hana langaði til og það sem hún var flink. Það var ekki sjaldan sem ég var í útprjónaðri peysu frá Öbbu, sérstaklega eftir að hún fékk prjónavélina. „Þú nýtur þess að ég á ekki stelpu ennþá,“ sagði hún og það var satt.

Abba var sérlega létt í lund og átti margar vinkonur og það var því margt um manninn uppi á lofti hjá henni og veislurnar hennar voru sko flottar; terturnar skreyttar eins og hjá fínasta bakara og bragðið eftir því.

Elsku Abba mín, ég á þér svo margt að þakka. Þú hvattir mig áfram í lífinu eins og börnin þín og fyrir það er ég ævinlega þakklát. Hvíl í friði, elsku Abba.

Jóna.