Frábær Guðjón Valur Sigurðsson lék framúrskarandi vel gegn Pólverjum og sýndi að hann er í 0fínu leikformi fyrir EM.
Frábær Guðjón Valur Sigurðsson lék framúrskarandi vel gegn Pólverjum og sýndi að hann er í 0fínu leikformi fyrir EM. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HANDBOLTI Ívar Benediktsson iben@mbl.is Guðjón Valur Sigurðsson fór á kostum og skoraði 13 mörk þegar íslenska landsliðið í handknattleik gerði jafntefli við Pólverja, 31:31, í fyrstu umferð á æfingamóti í Kolding í Danmörku síðdegis í gær.

HANDBOLTI

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Guðjón Valur Sigurðsson fór á kostum og skoraði 13 mörk þegar íslenska landsliðið í handknattleik gerði jafntefli við Pólverja, 31:31, í fyrstu umferð á æfingamóti í Kolding í Danmörku síðdegis í gær. Guðjóni Val héldu engin bönd í leiknum og áttu Pólverjar í mestu vandræðum með að halda aftur af honum. Fjögur af mörkunum skoraði Guðjón Valur úr vítakasti.

Pólverjar voru sterkari lengst af leiknum og höfðu m.a. sex marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 17:11. Leikur íslenska liðsins batnaði mjög í síðari hálfleik, jafnt í vörn sem sókn þar sem Ísland skoraði 20 mörk. Þegar fimm mínútur voru eftir voru Pólverjar með þriggja marka forskot, 29:26.

Kári Kristján Kristjánsson tryggði íslenska landsliðinu jafntefli þegar hann jafnaði metin, 31:31, þegar 20 sekúndur voru til leiksloka. Pólverjar geystust í sókn og höfðu nærri því tryggt sér sigur í lokin. Stórskyttan Karol Bielecki, lærisveinn Guðmundar Þ. Guðmundssonar landsliðsþjálfara hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen, átti þrumuskot beint úr aukakasti í markslá Íslands þegar leiktíminn var runninn út.

„Fyrri hálfleikur var alls ekki nógu góður hjá okkur. Varnarleikurinn var slakur, markvarslan ekkert sérstök og síðan vantaði alla ákefð í sóknarleikinn þar sem menn voru t.d. alltof mikið að reyna ótímabærar línusendingar sem misheppnuðust og Pólverjar náðu mörgum hraðaupphlaupum á okkur fyrir vikið,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi.

„Síðari hálfleikur var miklu betri. Meiri ákefð var í varnarleiknum og sóknarleikurinn gekk afar vel og það sést meðal annars vel á því að við skoruðum 20 mörk,“ sagði Guðmundur. Hann bætti við að þrátt fyrir góðan síðari hálfleik ætti íslenska liðið mikið verk eftir en ljósu punktarnir væru m.a. að liðið hefði sem heild rifið sig vel upp eftir að hafa komið sér í slæma stöðu í fyrri hálfleik.

Arnór Atlason og Aron Pálmarsson skiptu með sér leikstjórnandahlutverkinu í leiknum í gær í fjarveru Snorra Steins Guðjónssonar sem enn bíður fæðingar barns í Kaupmannahöfn.

Markverðirnir Björgvin Páll Gústavsson og Hreiðar Levy Guðmundsson skiptu leiknum bóðurlega á milli sín. Björgvin Páll stóð á milli stanganna í fyrri hálfleik en Hreiðar Levý í þeim síðari.

Danir máttu síðan þakka fyrir jafntefli við Slóvena í síðari leik mótsins í gær, 29:29. Eftir að hafa verið 16:12 undir í hálfleik jöfnuðu Slóvenar metin um miðjan síðari hálfleik. Eftir það var jafnt á öllum tölum til loka. Marcus Cleverly, samherji Þóris Ólafssonar hjá Vive Kielce í Póllandi, tryggði danska liðinu jafntefli með því að verja afar vel á síðustu mínútum, m.a. tvö skot í síðustu sókn Slóvena.

Ísland mætir Slóvenum á mótinu í dag. Þá verður leikið í Herning á Jótlandi. Slóvenar verða með Íslendingum í riðli á Evrópumeistaramótinu sem hefst í Serbíu eftir rúma viku. Lokaleikur Íslands á mótinu verður við Dani í Árósum á morgun.

*Reynt verður eftir mætti að fylgjast með leikjunum á mbl.is í dag og á morgun.

Pólland – Ísland 31:31

Kolding, vináttulandsleikur karla, föstudag 6. janúar 2012.

Gangur leiksins : 3:3, 8:5, 10:6, 12:6, 13:8, 17:11 , 19:16, 22:17, 23:20, 26:24, 29:26, 31:30, 31:31 .

Mörk Póllands : Krzysztof Lijewski 7, Karol Bielecki 5, Patryk Kuchczynski 4, Adam Wisniewski 4, Tomasz Tłuczyñski 3, Michal Jurecki 3, Bartloomiej Jaszka 1, Mariusz Jurkiewicz 1, Kamil Syprzak 1, Mateusz Zaremba 1, Robert Orzechowski 1.

Utan vallar : 8 mínútur.

Mörk Íslands : Guðjón Valur Sigurðsson 13, Aron Pálmarsson 5, Alexander Petersson 4, Kári Kristján Kristjánsson 4, Arnór Atlason 2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 1, Ingimundur Ingimundarson 1, Róbert Gunnarsson 1 .

Varin skot

: Björgvin Páll Gústavsson 6, Hreiðar Levý Guðmundsson 7.

Utan vallar : 8 mínútur.

Dómarar : Olesen og Pedersen frá Danmörku.

Áhorfendur : 1.500.