FRÉTTASKÝRING Kristján Jónsson kris@mbl.

FRÉTTASKÝRING

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Tilkynnt var á blaðamannafundi í húsakynnum Íþróttasambands Íslands í gær að úthlutað yrði 83,1 milljón króna á árinu úr Afrekssjóði ÍSÍ, sjóði Ólympíufjölskyldu ÍSÍ, Styrktarsjóði ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna og Ólympíusamhjálpinni. Stjórn afrekssjóðs ÍSÍ og Styrktarsjóðs ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna lagði fram tillöguna og var hún samþykkt af framkvæmdastjórn Íþrótta- og ólympíusambands Íslands á miðvikudaginn. 67,6 milljónir tilheyra afrekssjóði og koma tæplega 35 milljónir koma frá ríkinu og 32 skila sér í gegnum tekjur af starfsemi íslenskrar getspár. Fimm milljónir koma frá fyrirtækjunum sem mynda Ólympíufjölskyldu ÍSÍ og þá renna 10,5 milljónir úr styrktarsjóði til ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna í mörgum greinum.

Ásdís í sérflokki

Einn íþróttamaður fær A-styrk og er það óbreytt frá því í fyrra en um er að ræða Ásdísi Hjálmsdóttur spjótkastara. A-styrkurinn nemur 2,2 milljónum fyrir árið og hækkar um 280 þúsund krónur á milli ára. B-styrkurinn hækkar einnig en hann fer úr 960 þúsundum á ári í 1.240 þúsund. Ellefu íþróttamenn fá slíkan styrk: Ásgeir Sigurgeirsson skotfimi, Bergur Ingi Pétursson sleggjukast, Helga Margrét Þorsteinsdóttir sjöþraut, Jakob Jóhann Sveinsson sund, Jón Margeir Sverrisson sund fatlaðra, Kári Steinn Karlsson hlaup, Óðinn Björn Þorsteinsson kúluvarp, Ragna Ingólfsdóttir badminton, Ragnheiður Ragnarsdóttir sund, Þorbjörg Ágústsdóttir skylmingar og Þormóður Árni Jónsson júdó.

Auðunn Jónsson kraftlyftingamaður og Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur eru einnig á B-styrk en hljóta lægri upphæð eða 960 þúsund, líklega þar sem þeir eru ekki í ólympíugreinum. Sjö hljóta C-styrk sem hljóðar upp á 760 þúsund á ári en það eru Anton Sveinn McKee sund, Eygló Ósk Gústafsdóttir sund, Eyþór Þrastarson sund fatlaðra, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sund, Jóhann Rúnar Kristjánsson borðtennis fatlaðra, María Guðsteinsdóttir kraftlyftingar og Örn Valdimarsson skotfimi.

HSÍ fékk mest sérsambanda

Auk úthlutana til einstaklinga fengu mörg landslið styrki. Hæsti styrkurinn er eyrnamerktur A-landsliði karla í handknattleik sem fær sjö milljónir. HSÍ fær einnig mest sérsambandanna eða alls 11,8 milljónir en næst kemur Frjálsíþróttasambandið með 9,8 milljónir og Sundsambandið fær 8,7 milljónir.