Hafsteinn Birgir Sigurðsson fæddist í Vetleifsholti 12. október 1957. Hann lést á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu 26. desember sl.

Foreldrar hans voru Guðrún Jónsdóttir frá Núpi undir Eyjafjöllum, fædd 5. apríl 1930, og Sigurður Þorsteinsson frá Götu í Ásahreppi, fæddur 10. desember 1921, látinn 20. júlí 2001. Systkini Hafsteins eru: Jón Björgvin fæddur 1950, Sigrún Steinunn fædd 1955, gift Garðari Sigurðssyni, Auðbjörg Jónína fædd 1960, gift Valsteini Stefánssyni, Hafdís Dóra fædd 1963, Sigurður Rúnar fæddur 1968, kvæntur Margréti Ýri Sigurgeirsdóttur, Eiður Ingi fæddur 1970, kvæntur Lindu Rut Larsen og Sigríður Magnea fædd 1973. Hafsteinn kvæntist Margréti Katrínu Erlingsdóttur 3. apríl 1983, þau skildu. Sonur þeirra er Erlingur Örn, fæddur 18. júlí 1982, unnusta hans er Ingibjörg Aðalheiður Gestsdóttir. Hafsteinn ólst upp í Vetleifholti á Rangárvöllum, síðar bjó hann á Selfossi og í Kópavogi. Hann fór ungur að vinna við virkjanir á hálendinu, sömuleiðis í Sláturhúsinu bæði á Hellu og Selfossi. Rúmlega tvítugur tók hann meirapróf og vann hjá Guðmundi Tyrfingssyni. Hann var góður bílstjóri og naut þess að ferðast um landið og þjónusta farþega sína enda jákvæður og duglegur. Á yngri árum starfaði hann með Ungmennafélagi Ásahrepps og var um tíma formaður þess. Hann starfaði sömuleiðis fyrir HSK, sat í stjórn þess og var virkur í margvíslegum félagsstörfum. Rétt fyrir þrítugt greindist hann með MS-sjúkdóminn og vegna þess hrakaði heilsu hans hratt. Fyrir um tíu árum fluttist hann að Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Lundi á Hellu.

Útför Hafsteins verður gerð frá Oddakirkju í dag, 7. janúar 2012, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku Hafsteinn.

Það er alltaf sárt að kveðja en það er huggun að við erum fullviss þess að þér líður betur núna.

Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:

yfir þínum luktu hvörmum skína

sólir þær er sálu þinni frá

sínum geislum stráðu veginn á.

Myrkur dauðans megnar ekki að hylja

mannlund þína, tryggð og fórnarvilja

- eftir því sem hryggðin harðar slær

hjarta þitt er brjóstum okkar nær.

Innstu sveiflur óskastunda þinna

ennþá má í húsi þínu finna –

þangað mun hann sækja sálarró

sá er lengst af fegurð þeirra bjó.

Börnin sem þú blessun vafðir þinni

búa þér nú stað í vitund sinni:

alla sína ævi geyma þar

auðlegðina sem þeim gefin var.

Þú ert áfram líf af okkar lífi:

líkt og morgunblær um hugann svífi

ilmi og svölun andar minning hver

- athvarfið var stórt og bjart hjá þér.

Allir sem þér unnu þakkir gjalda.

Ástúð þinni handan blárra tjalda

opið standi ódauðleikans svið.

Andinn mikli gefi þér sinn frið.

(Jóhannes úr Kötlum)

Kveðja,

Sólrún, Karl, Sigurður og Agnar Bjarki.

Ein fyrsta minning mín af Hafsteini er þegar við yngstu systkinin vorum að „hjálpa“ honum að losa stíflu úr haugsugunni ... sem endaði ekki vel fyrir okkur, en hann skemmti sér örugglega vel yfir því, blessaður kallinn.

Alltaf var hann á ótrúlega flottum bílum og ég tala nú ekki um þann sem var með flottu flautunni, ég man ekki hvaða tegund, hann var grænn og flautan spilaði lag, hrikalega flott!

Hafsteinn vann alltaf mikið, var hörkuduglegur og mikils metinn allsstaðar. Ófáar sögur sem ég hef heyrt af ferðum hans um landið með hóp af fólki, helst hefði hann þurft að vera í nokkrum ferðum á sama tíma því allir vildu hann sem bílstjóra, aldrei nein lognmolla í kringum hann.

Við frænkurnar skruppum stundum helgarferð til Reykjavíkur og þá var nú lítið mál að fá að gista hjá honum og stundum fór hann bara í sveitina ef við vorum að koma og lánaði okkur slotið sitt, alveg endalaust góður við okkur. Eins og hann var við alla, lipur og þægilegur í umgengni. Og vildi allt fyrir alla gera. Alltaf kátur og kvartaði lítið þó svo að hann væri orðinn mikið veikur.

Ís með jarðaberjasósu eða jarðaberjasjeik var eitt af hans uppáhaldi og mikið var nú gaman að koma með það til hans og gefa honum. Góðar stundir sem ég geymi.

Það er meira lagt á suma, Hafsteinn var ekki gamall þegar hann greinist með MS, hann ætlaði svo að sigrast á þessu en ... nú er ég þess fullviss að hann sé kátur og hress, dansandi við allar þær sem vilja dansa við hann.

Hvíl í friði, kæri bróðir.

Þegar ég leystur verð þrautunum frá,

þegar ég sólfagra landinu á

lifi og verð mínum lausnara hjá –

það verður dásamleg dýrð handa mér.

Dásöm það er, dýrð handa mér,

dýrð handa mér, dýrð handa mér,

er ég skal fá Jesú auglit að sjá,

það verður dýrð, verður dýrð handa mér.

Og þegar hann, er mig elskar svo heitt,

indælan stað mér á himni' hefur veitt,

svo að hans ásjónu' ég augum fæ leitt –

það verður dásamleg dýrð handa mér.

Ástvini sé ég, sem unni ég hér,

árstraumar fagnaðar berast að mér,

blessaði frelsari, brosið frá þér,

það verður dásamleg dýrð handa mér.

(Þýð. Lárus Halldórsson)

Þín systir,

Sigríður (Sigga).

Við kveðjum í dag hann Hafstein mág minn sem barist hefur við MS-sjúkdóm um árabil. Það er með ólíkindum hversu ósanngjarnt lífið getur verið þegar fólk í blóma lífsins, duglegt og reglusamt, fær slíka sjúkdóma. Hafsteinn var alla tíð einstaklega duglegur, hress og jákvæður og vel liðinn hvar sem hann kom.

Ég kynntist Hafsteini sem góða rútubílstjóranum þegar ég var í grunnskóla en hann keyrði rútu hjá Guðmundi Tyrfingssyni og fór í ófáar rútuferðir með okkur. Ég var heppinn að síðar varð hann mágur minn þegar leiðir okkar Rúnars bróður hans lágu saman, þá kynntumst við betur en þá höfðu veikindin gert vart við sig. Þrátt fyrir veikindi hans var alltaf stutt í húmorinn og bjartsýnina og lækning var alltaf handan við hornið. Hafsteinn var mikill fjölskyldumaður en um tíma þegar hann hafði getu til stóð hann árlega fyrir dagsferð í rútu með alla fjölskylduna þar sem hann sýndi okkur landið. Þessar ferðir eru ógleymanlegar þar sem hann var kunnugur öllum stöðum vegna reynslu sinnar sem rútubílstjóri.

Á Hjúkrunarheimilinu Lundi hittumst við daglega þar sem Hafsteinn bjó síðustu ár og ég vann. Það var ógleymanlegt og lærdómsríkt að fylgjast með æðruleysi hans og þakklæti fyrir allt sem gert var. Á Lundi var oft á tíðum kátt á hjalla í kringum Hafstein, það var mikið fíflast og alltaf var fylgst með íslenska handboltalandsliðinu af miklum áhuga. Ég og annað starfsfólk Lundar munum geyma minningu um góðan mann og það verður ekki eins á Lundi án Hafsteins okkar. Stórt skarð er nú í hópi systkina hans og fjölskyldunnar allrar sem við reynum að fylla með góðum minningum og þakklæti. Við Rúnar og börnin okkar munum varðveita minningu Hafsteins um ókomna tíð og huggum okkur á því að hann eru nú laus undan fjötrum veikinda sinna.

Margrét Ýrr

Sigurgeirsdóttir.

Þegar við kynntumst Hafsteini Birgi Sigurðssyni var hann vaxandi víkingur, ljóshærður, bláeygur og brosmildur. Hann var heilbrigður sveitastrákur, virkur í ungmennastarfi og íþróttum. Þegar hann og Maddý systir okkar fóru að vera saman var hann um tvítugt og þá kynntumst við honum betur. Hafsteinn var tryggur og heill og ávallt reiðubúinn að vera með og taka þátt í gamninu. Hann var heiðursmaður og dugnaðarforkur. Hjálparhöndin hans var bæði stór og sterk og tilbúin til verka, stórra og smárra, hvenær sem þurfti. Hafsteinn var mikill ungmennafélagsmaður og ævinlega bindindismaður á tóbak og vín.

Hafsteinn Birgir og Margrét Katrín hófu ung búskap á Hellu, giftust og byggðu sér hús á Selfossi. Sonurinn Erlingur Örn fæddist 1982. Hann er nú í blóma lífsins og kveður föður sinn tæplega þrítugur. Hafsteinn var óendanlega stoltur af syni sínum og fylgdist af athygli með lífi hans og afrekum, til hinsta dags. Hafsteinn og Margrét skildu fyrir um aldarfjórðungi. En Hafsteinn var áfram sem einn af fjölskyldunni og í miklum samskiptum við okkur, þó samverustundirnar yrðu færri eftir að hann fluttist á Dvalarheimilið Lund á Hellu.

Hafsteinn var búinn að koma sér vel fyrir í Kópavogi þegar hann veiktist af hinum illræmda MS-sjúkdómi fyrir rúmum 20 árum. Þetta var mikið áfall fyrir rúmlega þrítugan mann. Sjúkdómurinn var óvæginn og setti fljótt mark sitt á hann. Síðustu tveir áratugir hafa tekið á. Hafsteini þótti erfitt að geta ekki vegna veikinda og fötlunar tekið virkari þátt í lífi Erlings Arnar sonar síns. En hann fylgdist stoltur með drengnum sínum ljúka stúdentsprófi, námi við Háskólann í Reykjavík og loks meistaraprófi í verkfræði frá Tækniháskólanum í Kaupmannahöfn síðastliðið sumar.

Hvíldin er kærkomin þegar grýtt lífsbraut er gengin á enda. Hafsteinn er nú á nýjum stað. Við sjáum hann þar fyrir okkur á grasi vöxnum bala, hnarreistan, ljóshærðan og bláeygan víking. Hann er léttur í spori með bros á vör og réttir hjálparhönd hverjum sem þarf. Far vel, kæri vinur, takk fyrir allt og allt.

Samúel Örn, Anna Kristín,

Hólmfríður og Ingibjörg.

Nú hefur þú kvatt þennan heim, kæri frændi. Oft hefur maður spurt sig: Hver er tilgangurinn með þessu þegar sjúkdómar taka ungt fólk úr umferð? En það er mín reynsla að allt hefur þetta tilgang, þín veikindi voru svo alvarleg og það minnti mann á að vera þakklátur fyrir allt sem maður hefur og á, og að vera ekki að kvarta yfir einhverjum smámunum.

Við systkinin vorum að rifja upp skemmtilegar minningar um þig, við litum alltaf upp til þín þegar við vorum krakkar, þú reyktir ekki, áfengi fór ekki inn fyrir þínar varir, varst góður í íþróttum, góður í að dansa og áttir flotta Mözdu, og alltaf geðgóður, það var nú aldeilis hægt að vera stoltur af að eiga svona frænda!

Bergur var að segja mér að þegar hann var í sveit í Vetleifsholti þá gistu þið í sama herbergi og þið töluðuð svo mikið og lengi að þið voruð næstum óvinnufærir daginn eftir.

Svo voru það ökuferðirnar okkar sem við fórum saman austur og göntuðumst með það, að það yrði nú ljótt ef bíllinn bilaði uppi á Hellisheiði með okkur tvo öryrkjana innanborðs, en það gerðist sem betur fer aldrei.

Við kveðjum með söknuði góðan frænda, það er skarð hoggið í stóra hópinn frá Núpi sem verður ekki fyllt upp í. En minning þín lifir, kæri Hafsteinn.

Elsku Rúna og aðrir ástvinir, okkar hugheilar samúðarkveðjur til ykkar allra. Við biðjum guð að gefa ykkur styrk, ljós og frið á erfiðum stundum.

Aðalbjörg og Bergur.

Við kveðjum nú vin okkar og æskufélaga, Hafstein frá Vetleifsholti. Hugurinn hverfur til æskuáranna, þegar tími og annríki höfðu enn engin áhrif á tilvist okkar. Það voru bjartir dagar, dagar brosandi barnsandlita sem könnuðu ævinýraheima sveitarinnar. Við áttum okkur leynistaði með fjársjóðum smáhluta, við rákum saman bú í hólum og hömrum og fórum í ótal leiki sem héldu okkur vakandi langt fram á sumarkvöldið.

Við fundum saman hreiður smáfugla og tíndum saman ber í krukkur. Í minningunni var alltaf sólskin á þessum tíma. Hafsteinn var einstakur vinur, hann var glaðlyndur og gamansamur og hafði góðan húmor. Glettnin var alltaf stutt undan og alltaf tókst honum að fá okkur til að hlæja saman.

Hafsteinn var harðduglegur og ósérhlífinn. Hann hjálpaði til í sveitinni og var með pabba sínum við bústörfin frá því að við munum fyrst eftir okkur.

Þegar við komumst á unglingsaldurinn fórum við saman á íþróttaæfingar þar sem stundaðar voru frjálsar íþróttir eða körfubolti. Eftir einvígi Spasskís og Fischers lifnaði mikill skákáhugi og skákæfingar voru iðkaðar vikulega. Um tíma æfðum við borðtennis og eitt árið voru æfðir þjóðdansar sem við sýndum á Landsmóti UMFÍ. Hafsteinn var formaður Ungmennafélags Ásahrepps í nokkur ár. Á þeim tíma var unglingastarfið líflegt og átti hann stóran þátt þar í. Hann fór snemma að vinna fyrir sér, keyrði um á fallegum bílum og var hugljúfi þeim sem honum kynntust. Hann var rútubílstjóri í mörg ár og eftirsóttur af þeim sem þjónustuna nýttu.

Okkur er efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að eiga Hafstein fyrir vin og að eiga góðar minningar um hann sem ungan, myndarlegan og glettinn félaga. Örlög okkar eru misjöfn og stundum finnst manni að ekki sé jafnt skipt. Það var erfitt að horfa upp á hvernig Hafsteinn þurfti að láta undan ágengum sjúkdómi en um leið yndislegt að lesa glettnina úr augum hans og skynja hvernig hann vildi létta öðrum lundina og lífið. Við biðjum þess, að nú gangi hann heill og glaður um grænar grundir í næstu tilvist. Móðir okkar og við systkinin frá Kastalabrekku sendum aðstandendum innilegar samúðarkveðjur. Elsku Rúna, Sigrún, Auðbjörg, Dóra, Sigga, Rúnar og Eiður, góður Guð styrki ykkur og fjölskyldur ykkar í sorginni.

Blessuð sé minning frábærs manns.

Sigurveig Þóra og

Hildur Sigurðardætur frá Kastalabrekku.