Í bíómynd Clints Eastwoods um J. Edgar Hoover, sem var yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar í tæplega hálfa öld, er látið að því liggja að hann hafi verið potturinn og pannan í að fylgjast með blökkumannaleiðtoganum Martin Luther King.

Í bíómynd Clints Eastwoods um J. Edgar Hoover, sem var yfirmaður bandarísku alríkislögreglunnar í tæplega hálfa öld, er látið að því liggja að hann hafi verið potturinn og pannan í að fylgjast með blökkumannaleiðtoganum Martin Luther King. Í grein um málið í tímaritinu Atlantic Monthly kemur fram að John F. Kennedy Bandaríkjaforseti og Robert Kennedy, bróðir hans og dómsmálaráðherra, hafi einnig verið uppteknir af King vegna þess að tveir nánir samstarfsmenn hans voru leynilegir útsendarar bandaríska kommúnistaflokksins, sem laut Sovétlínunni. Töldu þeir að það myndi hafa hrikalegar afleiðingar fyrir baráttu Kings ef í ljós kæmi að þeir tengdust Kreml.

Robert Kennedy fyrirskipaði FBI að hlera King í október 1963. Í ljós kom að hann hélt fram hjá konu sinni og í myndinni sést Hoover hlusta á upptökur af ástarfundi Kings. Lyndon B. Johnson, sem varð forseti eftir að Kennedy var myrtur, mun hafa hlustað á upptökur þar sem heyrðist í gormunum í rúmdýnunni og haft á orði: „Fjárinn, þú ættir að heyra hvað þessi hræsnisfulli predikari gerir kynferðislega.“

Hoover sárnaði þegar King viðhafði niðrandi orð um FBI. King sagði að orð sín hefðu verið mistúlkuð. Þegar ríkisstjórarnir Ross Barnett í Mississippi og George Wallace í Alabama fóru í rógsherferð gegn King og sögðu að hann tilheyrði fleiri kommúnistasamtökum en nokkur annar í Bandaríkjunum veitti FBI upplýsingar til að hrekja lygarnar. Árið 1964 fékk Hoover upplýsingar um að samtök hvítra kynþáttasamtaka hygðust ráða King af dögum lét hann lífverði fylgja King um suðrið án þess að hann vissi af því. Þá kom fram í sovéskum skjalasöfnum eftir hrun Sovétríkjanna að KGB breiddi áratugum saman út róg um Hoover og kann að vera að sumt af því sé enn á kreiki.