Einar Falur Ingólfsson
efi@mbl.is
Forseti Íslands afhenti Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir árið 2011 á Bessastöðum í gær. Í flokki fagurbókmennta hlaut Guðrún Eva Mínervudóttir verðlaunin fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur , sem gefin var út hjá JPV-útgáfu, og Páll Björnsson sagnfræðingur hlaut verðlaun í flokki fræðirita og bóka almenns efnis, fyrir bókina Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar . Sögufélagið gaf út. Þetta er tuttugasta og þriðja skipti sem verðlaunin eru afhent en fyrst var tilnefnt til þeirra árið 1989.
Höfundarnir hljóta eina milljón króna hvor í verðlaun og einnig verðlaunagripi sem hannaðir eru af Jóni Snorra Sigurðssyni á gullsmíðaverkstæði Jens. Sýna þeir opna bók á granítstöpli með nafni höfundarins og heiti verðlaunaverksins.
Leyfði mér að vona
„Ég hef verið tilnefnd nokkrum sinnum en í þetta skipti leyfði ég mér að vona að nú væri komið að mér,“ segir Guðrún Eva. Hún var fyrst tilnefnd árið 2000 fyrir skáldsöguna Fyrirlestur um hamingjuna og aftur árið 2008, fyrir skáldsöguna Skaparann .Í Allt með kossi vekur segir frá fjölskylduföður í Reykjavík sem finnur hjá sér löngun til að skoða atburð í lífi móður sinnar. Gagnrýnandi Morgunblaðsins sagði þetta „seiðmagnað skáldverk“ sem félli seint í gleymsku.
Guðrún Eva segist ekkert hafa orðið „standandi hissa“ þegar henni var tilkynnt að hún hlyti bókmenntaverðlaunin að þessu sinni. „Síðustu árin hef ég reynt að temja mér að verða ekki of uppveðruð yfir viðbrögðum og taka þau ekki mikið inn á mig, hvort sem það er slæmur dómur eða góður,“ segir hún. „Til að halda sönsum er hollt að halda ró sinni.
Þetta er samt ótrúlega gleðilegt!“ bætti hún svo við. „Það er líka svo gott fyrir bókina að fá verðlaunin, ég held hún hljóti nú að fara víðar en hún hefði annars gert.“ Fólk sem hefði annars ekki vitað að bókin sé til muni nú mögulega lesa. „Það er svo mikilvægt við svona verðlaun, að þau varpa oft kastljósi á bækur sem annars hefði ekki farið mikið fyrir,“ segir hún.
Vissulega mjög ánægður
„Ég átti ekki von á þessu, margar góðar bækur voru tilnefndar. En ég er vissulega mjög ánægður,“ segir Páll Björnsson. Í bókinni fjallar Páll um það með hve ólíkum hætti arfleifð Jóns Sigurðssonar hefur verið notuð síðan hann lést árið 1879. Lýst er hvernig minningarnar um hann hafa gengið í endurnýjun lífdaga, til dæmis með hátíðarhöldum, minjagripum og hvers kyns útgáfu. Jón Sigurðsson hefur einnig iðulega verið dreginn inn í ágreiningsmál og þá hafa stjórnmálamenn, félagasamtök og fyrirtæki nýtt sér ímynd hans á ólíkan hátt. Páll birtir líka niðurstöður skoðanakönnunar á viðhorfum almennings til Jóns og á þekkingu fólks á honum.„Jú, enda tekur það yfirleitt nokkur ár að skrifa fræðilegt verk sem þetta,“ svarar Páll þegar spurt er hvort ekki sé ánægjulegt að fá klapp á bakið með verðlaunum sem þessum. „Ég byrjaði að vinna bókina fyrir sjö, átta árum en hef ekki náð að vinna stöðugt að henni. En síðustu tvö árin reyndi ég að einbeita mér að verkinu. Það er vissulega ánægjulegt að eftir þessu er tekið; verðlaun skipta máli. En ég er ekki alveg búinn að átta mig á þessu ennþá.“
Kastljósið var á Jóni Sigurðssyni í fyrra og studdi Afmælisnefnd Jóns Sigurðssonar við útgáfu verksins. „Að því leyti má segja að verið sé að verðlauna nefndina líka, og fleiri sem komu að verkinu,“ segir Páll.
„Efnið, það hvernig fólk hefur notað Jón forseta, býður upp á spennandi nálgun. Þegar ég var farin af stað var erfiðast að meta hverju ætti að sleppa, því svo margt kræsilegt mátti nota í bókina. Ég sá fljótt að það mætti vinna góða bók úr þessu efni. En þetta er álit þriggja manna nefndar.“
Val þriggja manna nefndar
Þriggja manna lokadómnefnd, skipuð þeim Þorgerði Jennýjardóttur Einarsdóttur, prófessor við Háskóla Íslands, Árna Matthíassyni blaðamanni og Þorsteini Gunnarssyni, sérfræðingi hjá RANNÍS og fyrrverandi rektor Háskólans á Akureyri, sem var formaður, valdi verðlaunaverkin úr þeim tíu bókum sem voru tilnefndar til verðlaunanna í desember. Þau Þorgerður Jenný og Árni leiddu forvalsnefndirnar sem völdu bækurnar tíu.Íslensku bókmenntaverðlaununum var komið á fót í tilefni 100 ára afmælis Félags íslenskra bókaútgefenda en það var stofnað árið 1889. Fyrsta árið var ekki skipt í flokka en tíu bækur tilnefndar og var Stefán Hörður Grímsson ljóðskáld fyrsti handhafi verðlaunanna. Hreppti hann þau fyrir bókina Yfir heiðan morgun . Árið eftir var tilhöguninni breytt og tilnefndum bókum skipt í tvo flokka eins og nú er gert.
Allir sem gefa út bækur á Íslandi geta lagt fram bækur til verðlaunanna og greiða fyrir ákveðið gjald.
TÍU VERK VORU TILNEFND SAMKVÆMT VENJU
Ólíkar bækur
Þessar bækur voru tilnefndar til verðlauna í flokki fagurbókmennta: Guðrún Eva Mínervudóttir: Allt með kossi vekur . JPV útgáfa; Hallgrímur Helgason: Konan við 1000° . JPV útgáfa; Jón Kalman Stefánsson: Hjarta mannsins . Bjartur; Oddný Eir Ævarsdóttir: Jarðnæði. Bjartur; Steinunn Sigurðardóttir: Jójó . Bjartur.Þessar voru tilnefndar til verðlauna í flokki fræðirita og bóka almenns efnis: Ármann Jakobsson og Þórður Ingi Guðjónsson: Morkinskinna I. og II. bindi . Hið íslenzka fornritafélag; Inga Elsa Bergþórsdóttir og Gísli Egill Hrafnsson: Góður matur, gott líf – í takt við árstíðirnar . Vaka-Helgafell; Jón Yngvi Jóhannsson: Landnám – ævisaga Gunnars Gunnarssonar . Mál og menning; Páll Björnsson: Jón forseti allur? Táknmyndir þjóðhetju frá andláti til samtíðar . Sögufélag; Sigríður Víðis Jónsdóttir: Ríkisfang: Ekkert – Flóttinn frá Írak til Akraness . Mál og menning.