Tæknin Andri Már Kristinsson segir að íslensk fyrirtæki eigi enn nokkuð í land með að nýta markaðsmöguleika netsins til fullnustu. Netið sé auglýsingavettvangur framtíðarinnar.
Tæknin Andri Már Kristinsson segir að íslensk fyrirtæki eigi enn nokkuð í land með að nýta markaðsmöguleika netsins til fullnustu. Netið sé auglýsingavettvangur framtíðarinnar. — Morgunblaðið/Sigurgeir S.
Á dögunum tók til starfa í Kaaberhúsinu nýtt markaðsfyrirtæki, Kansas, sérhæft í markaðsmálum á netinu.

Á dögunum tók til starfa í Kaaberhúsinu nýtt markaðsfyrirtæki, Kansas, sérhæft í markaðsmálum á netinu. Andri Már Kristinsson er framkvæmdastjóri fyrirtækisins en til að gera reksturinn að veruleika þurfti hann að kveðja það sem margir hefðu talið algjört draumastarf. Andri er nýkominn til landsins frá Írlandi þar sem hann stýrði teymi hjá óskavinnustaðnum Google. „Við fjölskyldan flúðum land vegna kreppunnar, og höfum síðustu tvö árin verið hjá Google í Dyflinni. Teymið sem ég stýrði þar hafði umsjón með starfi Google AdWords á Noregsmarkaði,“ útskýrir hann. „En svo fór heimþráin að gera vart við sig hjá mér, konunni og börnunum. Okkur langaði að fara aftur á klakann. Ég hafði svo frétt það gegnum kunningja í geiranum að til stæði að setja saman mjög áhugavert batterí hér í Kaaberhúsinu, og Kansas yrði hluti af þessum markaðsmálakjarna sem hér er að verða til.“

Auk Kansas koma saman i Kaaberhúsinu auglýsingastofan Fíton, birtingahúsið Auglýsingamiðlun og netstofan Skapalón. „Ég held þetta geti vel verið fyrsta miðstöðin sinnar tegundar á Norðurlöndunum, en hér munu auglýsendur geta komið inn og unnið á einum stað með mörgum fremstu fyrirtækjum landsins á auglýsingasviði.“

Netið skipar æ mikivægari sess í markaðsstarfi og segir Andri það ekki síst hafa dregið hann að Kansas hve mikið land er ónumið á þessu sviði hérlendis. „Íslenskir netnotendur eru í fremstu röð, með góðar tölvur, öflugar nettengingar og mjög mikla og almenna netnotkun. En þegar kemur að fyrirtækjunum finst mér vera lengra í land, áhuginn á markaðssetningu á netinu gengur í hálfgerðum bólum og oft er netið ekki nýtt á nógu skipulegan og agaðan hátt. Það vantar langtíma- og heildarhugsun þar sem auglýsingastarf á netinu er skýr hlekkur í markaðsmálum og herferðum.“

Netið segir Andri vera auglýsingavettvang framtíðarinnar. Þar séu neytendurnir, hægt að fá mikinn sýnileika á góðu verði og tæknin geri kleift að ná því besta út úr herferðum. „Ein allra sterkasta hlið netsins er þó getan til að mæla með skýrum hætti árangur markaðsstarfsins. Hægt er að sjá með óvenjuskýrum hætti hvað virkar til að beinlínis skila fleiri krónum í kassann.“ ai@mbl.is