Eirný Guðmunda Sæmundsdóttir fæddist í Ytri Hjarðardal í Önundarfirði í Vestur-Ísafjarðarsýslu 25. nóvember 1928. Hún lést á Landspítala í Fossvogi 11. janúar 2012.

Útför Eirnýjar fór fram frá Fella- og Hólakirkju 20. janúar 2012.

Ferjan hefur festar losað.

Farþegi er einn um borð.

Mér er ljúft - af mætti veikum

mæla nokkur kveðjuorð.

Þakkir fyrir hlýjan huga,

handtak þétt og gleðibrag,

þakkir fyrir þúsund hlátra,

þakkir fyrir liðinn dag.

(J. Har.)

Þessar línur lýsa góðum félaga Eirnýu Guðmundu Sæmundsdóttur, leið okkar lá saman í Sundlaug Breiðholts. Eftir morgunsund myndaðist sú venja að við sundfélagarnir spjölluðum saman yfir kaffibolla. Fljótlega fór Eirný að koma með glóðvolga ástarpunga fyrir okkur sund- og kaffifélagana, fannst henni lítið mál að hræra upp í einn skammt og steikja, svona rétt sí svona í morgunsárið. Hún var hvatamaður ásamt öðrum sundfélögum að farið var í berja- og skemmtiferðir síðsumars og urðu það hinar sögulegustu ferðir, t.d. í Hvalfjörðinn, Snæfellsnes og þá var gist á sveitasetri Önnu og Stefáns.

Með lengri ferðum var farið í Önundarfjörðinn, hennar fjörð, og gist að Sólbakka á Flateyri í húsi Önfirðingfélagsins, einnig í Þorvaldsdal við Eyjafjörð og þá var gist í húsi okkar á Hjalteyri.

Eirný var höfðingi heim að sækja, eftirminnileg eru morgunverðaraðventuboðin hennar. Þar sem Eirný var þar ríkti söngur og gleði, kunni hún ótal vísur og kvæði sem hún skemmti okkur með. Það tilheyrði að gamla árið var kvatt hjá okkur sundfélögum með tilheyrandi morgunsnakki, komu þá félagarnir með ýmislegt góðgæti og veigar að heiman. Síðasti fagnaður okkar með Eirnýu var sl. gamlársdagsmorgun í Sundlaug Breiðholts og eins og henni einni var lagið skemmti hún okkur með limru.

Blessuð sé minning Eirnýar. Samúðarkveðjur sendum við fjölskyldunni.

Þorbjörg og

Sigtryggur Rósmar.

Kvatt hefur sitt jarðlíf Eirný Sæmundsdóttir, fædd og uppalin í Önundarfirði. Hún fluttist til höfuðborgarinnar og lærði tannsmíði og starfaði við þá iðngrein til margra ára.

Á árum 1948-9 kom hún í Jósepsdal þar sem Skíðadeild Ármanns var til húsa með sína vetraraðstöðu, skíðaiðkun og félagslíf eins og margt ungt fólk hafði áhuga á. Fljótt samlagaðist hún félögum, tók þátt í skálalífi, kvöldvökum, dansi og söng og lagði einnig rækt við skíðaæfingar og tók þátt í skíðamótum fyrir hönd félagsins.

Árið 1950 hófum við sex félagar byggingu skála efst í hlíðum Bláfjalla þar sem áður hafði verið skáli skammt frá og nefndur var Himnaríki. Fljótlega tengdist Eirný okkur, taldi tíma sínum betur varið í fjallaloftinu en á götum bæjarins. Ekki var þetta algengt áhugamál kvenna; að bera þungar birgðir upp brattar hlíðar og sofa úti undir berum himni fyrst í stað eða hlaupa eftir vinnudag niður í Jósepsdal til gistingar og næsta morgun aftur upp tvo til þrjá kílómetra með birgðir á bakinu. Það sem Eirný bar að öllu jöfnu var allur matur fyrir okkur og þrjú klæðningarborð, u.þ.b. þriggja metra löng.

Vinskapur okkar félaga sem enn erum ofar moldu hefur haldist með Eirnýju alla tíð.

Eirný var Ármenningur með sterkar taugar til skíðadeildarinar og fyrri félaga. Minningar fyrri ára úr félagsstarfi bar oft á góma þegar við kunningjarnir hittumst. Ég þakka liðnar samverustundir og votta börnum og barnabörnum hennar samúð mína.

Sigurður R. Guðjónsson.