
Guðni Einarsson
gudni@mbl.is
„Hvaða vitleysingur er nú þetta,“ hugsaði Halldóra Björk Ragnarsdóttir, blaðberi Morgunblaðsins, þegar Örn Þórisson dreifingarstjóri tilkynnti methafa í blaðburði. Sá bar út meira en 195.000 blöð í fyrra, þar af um 100.000 Morgunblöð. „Svo þegar nafnið mitt kom upp hugsaði ég: Ég er víst hann,“ sagði Halldóra. Hún vissi að hún bar út mörg blöð, en þessi fjöldi kom henni á óvart. Auk þess að bera út öll þessi blöð með sóma náði Halldóra öðrum markmiðum sem sett voru fyrir blaðbera Morgunblaðsins.
Í fyrra unnu samtals 95 blaðberar Morgunblaðsins meira en 250 af 307 útgáfudögum og voru með fjölda kvartana innan gæðamarka sem Árvakur hf. setur. Þessum blaðberum var boðið í Morgunblaðshúsið í Hádegismóum í fyrradag í viðurkenningarskyni. Þeim var sýnt hvernig blaðið verður til og prentsmiðja Landsprents, sem prentar Morgunblaðið, heimsótt. Fimm blaðberar voru verðlaunaðir sérstaklega fyrir afburðaárangur, þau Guðrún Ágústsdóttir, Borghildur Stephensen, Sverrir Júlíusson, Haukur Magnússon og Katharina Fischer, sem unnu alla útgáfudaga í fyrra. Einnig Sigurður Ófeigsson blaðberi en engin kvörtun barst vegna hans starfa.
Vinnur á nóttunni
Halldóra ber Morgunblaðið út í Sundunum, hverfi 104 og 105, þar sem er blönduð byggð fjölbýlis og sérbýlis. Um helmingur blaðanna fer í fjölbýlishús. „Ég keyri á milli hverfanna með blöðin og geng svo í húsin,“ sagði Halldóra.„Ég vakna alltaf um klukkan tvö á nóttinni. Þá er bíllinn venjulega kominn með blöðin. Þá fer ég af stað að bera út og er að alveg til hálfsjö eða sjö þegar er aldreifing á fimmtudögum og föstudögum,“ sagði Halldóra. „Svo fer ég heim í morgunmat, les blöðin og leggst svo undir feld til hálfellefu eða ellefu. Ég fer líka snemma í háttinn á kvöldin, svona um tíuleytið.“ Þegar er aldreifing á finni.is og Fréttatímanum fer Halldóra í Landsprent kvöldið fyrir blaðburð, sækir blöð og dreifir í hluta hverfisins til að létta aðeins á blaðburðinum um nóttina svo hún sé búin klukkan sjö um morguninn.
Halldóra sagðist alltaf hafa átt gott með að vakna og ekki þurfa langan tíma til að hafa sig af stað. Hún sagðist hafa verið í blaðburði í nokkur ár með hléum. Hún bar út 2005-2007, tók þá hlé og byrjaði aftur fyrir um einu og hálfu ári. Auk blaðburðarins hefur Halldóra aðstoðað í Grafarvogskirkju við erfidrykkjur og verið sjálfboðaliði í Kattholti eftir hádegi. En hvernig er að vera á ferli þegar aðrir sofa?
„Auðvitað er notalegra að vera úti í birtunni og góða veðrinu á daginn, en þetta venst. Maður kann orðið að vinna þetta. Lítur í kringum sig og er ekkert að stökkva í eitthvað sem manni líst ekki á. Ef það eru hópar á ferðinni sem manni þykja vafasamir þá fer maður bara annað og kemur aftur seinna,“ sagði Halldóra. Hún sagðist einstaka sinnum hafa hringt í lögreglu og látið vita af innbrotum í bíla og dularfullum mannaferðum.
Ófærðin og veðrið undanfarið hefur tafið blaðburðinn og það getur verið erfitt að troða snjóinn upp að hnjám með blöðin. „Auðvitað vildi maður burtu með þennan snjó en svo hugsar maður að þetta hljóti að fara að ganga niður. En það er yndislegt að bera út þegar er gott veður. Sumarnæturnar þegar er bjart, fuglasöngurinn og allt það í góðu veðri,“ sagði Halldóra.
Hún sagði að blaðburðurinn væri góð heilsurækt. „Ég fer allavega ekki í ræktina þegar ég er búin að þessu. Þetta er alveg ágætis skammtur fyrir daginn af hreyfingu,“ sagði Halldóra.
Hún sagði fremur lítil samskipti vera við áskrifendur eftir að hætt var að bera sunnudagsblaðið út síðdegis á laugardögum. Nú kemur fyrir að einn og einn, einkum fullorðið fólk, bíður eftir blaðinu snemma á morgnana.