Norðlingaholt Hingað til hefur krafan verið sú að minnst ein íbúð í fjölbýli sé aðgengileg fötluðum, yfirleitt á jarðhæð þar sem kostnaður er minnstur.
Norðlingaholt Hingað til hefur krafan verið sú að minnst ein íbúð í fjölbýli sé aðgengileg fötluðum, yfirleitt á jarðhæð þar sem kostnaður er minnstur. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Una Sighvatsdóttir una@mbl.is „Mönnum finnst það liggja í augum uppi að ef allar íbúðir eiga að vera með aðgengi fyrir fatlaða, með breiðari gangi, stærra baðherbergi og öðru, þá hljóti það að kosta meira.

Fréttaskýring

Una Sighvatsdóttir

una@mbl.is

„Mönnum finnst það liggja í augum uppi að ef allar íbúðir eiga að vera með aðgengi fyrir fatlaða, með breiðari gangi, stærra baðherbergi og öðru, þá hljóti það að kosta meira. Og það er það sem við þurfum síst í dag, að byggingarkostnaður aukist,“ segir Friðrik Á. Ólafsson, formaður Samtaka iðnaðarins.

Félagsmenn SI og Arkitektafélags Íslands hafa af því áhyggjur að ný byggingarreglugerð, sem umhverfisráðherra undirritaði á þriðjudag, verði til þess að dýrara verði en áður að byggja hús.

Auknar kröfur verða nú gerðar til þeirra sem koma að mannvirkjagerð, bæði hönnuða, iðnaðarmanna og byggingastjóra. Þar á meðal eru skilyrði um að flestar nýbyggingar skuli hannaðar með tilliti til þarfa hreyfihamlaðra, skv. hugmyndafræði algildrar hönnunar. Mannvirkjastofnun telur það ekki munu hækka kostnað, en iðnaðarmenn og arkitektar eru ekki sannfærðir. „Okkar félagsmenn hræðast að þetta hafi hugsanlega í för með sér aukinn kostnað,“ segir Friðrik. Hann tekur fram að gera þurfi nákvæma útreikninga áður en hægt sé að fullyrða nokkuð en við fyrstu sýn virðist annað óhjákvæmilegt. „Það þarf klárlega að koma með öðru vísi hugsun í hönnun mannvirkja miðað við þessa algildu hönnun og það hefur ýmislegt í för með sér.“ Eitt af því sem SI gagnrýndi í drögum að reglugerðinni var að skilyrði um pláss fyrir hjólastóla á öllum baðherbergjum í fjölbýlum yrði til þess að stúdíóíbúðir, s.s. þær sem eru ætlaðar stúdentum, þyrftu að stækka og yrðu þar af leiðandi dýrari. Mannvirkjastofnun segir hins vegar að svo verði ekki og að tekið hafi verið tillit til flestra athugasemda sem bárust.

Þorkell Magnússon, formaður laganefndar Arkitektafélags Íslands, segir margt jákvætt í reglugerðinni. „Það er í sjálfu sér göfugt markmið að stuðla að neytendavernd eins og gert er og það veitir aðhald bæði á hönnuði og framleiðendur húsnæðis, en hins vegar er gengið langt í atriðum sem varða aðgengismál og algilda hönnun.“

Hann tekur undir með SI að bygging þar sem allar íbúðir séu hannaðar með þarfir fatlaðra í huga hljóti að verða dýrari. „Það liggur eiginlega í augum uppi, því bæði baðherbergi og eldhús fyrir fatlaða þurfa að vera mun stærri, stærra rými kostar pening og þar erum við að tala um kostnað sem leggst á samfélagið.“

Þá finnst arkitektum að kröfurnar setji þeim ýmsar hömlur og Þorkell gagnrýnir að öll áhersla sé á tæknileg atriði, en lítill sem enginn hvati sé, hvorki í skipulagslögum né byggingarreglugerð, til að stunda góða byggingarlist. „Okkur finnst vanta þetta yfirmarkmið að mannvirki sé í grunninn góður arkitektúr.“

NÝ HUGSUN SEM ÞARF AÐ VENJAST

Fagna algildri hönnun

„Við erum mjög sátt. Þetta tryggir að nú verði ekki farið út í að hanna og byggja hús sem eru ekki aðgengileg, og ekki bara fyrir fatlað fólk heldur fyrir alla,“ segir Hafdís Runólfsdóttir, ferlimálafulltrúi hjá Öryrkjabandalagi Íslands. Hún segir það fagnaðarefni að líkamlegt ásigkomulag muni nú síður setja hömlur á búsetu fólks. „Þetta gerir það að verkum að ef þú eða einhver nákominn þér veikist eða slasast getur þú búið lengur í þínu húsnæði. Og maður veit aldrei hvenær það reynist vel. Það þarf ekki annað en að fótbrotna og þá getur maður ekki lengur komist heim til sín ef maður býr á fjórðu hæð í blokk. Þetta er dálítið ný hugsun og fólk þarf aðeins að venjast henni, en þegar fram í sækir held ég að fólki finnast þetta sjálfsagt og skrýtið að þetta hafi ekki alltaf verið svona.“