Guðjón Valur Sigurðsson
Guðjón Valur Sigurðsson
Ívar Benediktsson í Novi Sad iben@mbl.is „Sem atvinnumaður í handknattleik vil ég vinna alla leiki sem ég fer í hvort sem það er með félagsliði mínu eða landsliðinu.

Ívar Benediktsson í Novi Sad

iben@mbl.is

„Sem atvinnumaður í handknattleik vil ég vinna alla leiki sem ég fer í hvort sem það er með félagsliði mínu eða landsliðinu. Það tekst því miður ekki alltaf en velta má því fyrir sér hvort við höfum nokkuð slagkraft til að ná miklu lengra um þessar mundir,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, við Morgunblaðið eftir leikinn við Frakka á EM í handknattleik í gær.

„Það er með ólíkindum hvað Spánverjar og Frakkar hafa til dæmis mikið úrval af stórum og sterkum leikmönnum sem þeir finna einhvers staðar. Samt tekst okkur að spila góða leiki gegn þeim að undanskildu fyrsta korterinu gegn Spánverjunum. Við getum borið höfuðið hátt. Ég er stoltur af strákunum, hvernig hugarfar þeirra hefur verið og hvernig þeir búa sig undir leikina. Samstaðan hefur verið góð og það skiptir mestu máli þegar við horfum fram á strangt keppnistímabil með vonandi fjórum mótum næsta árið að HM meðtöldu.

Það er gaman að sjá unga stráka koma inn í hópinn. Ég er viss um að þetta mót á eftir gagnast okkur vel þegar til lengri tíma er litið. Með okkur eru strákar sem hafa sýnt að þeir geta vel komið inn á leikvöllinn og spilað fimm, tíu eða fimmtán mínútur í hvorum hálfleik og skilað flottum leik. Þannig er lífið í þessum bolta, hann er tröppugangur. Það kemur enginn alskapaður inn í landsliðið á stórmóti. Ég man vel eftir því þegar ég var í þeirra sporum á mínu fyrsta móti og var eins og ferðamaður og aðallega í að passa upp á boltana og fékk síðan fáeinar mínútur í leik. Nú hafa strákarnir stigið fyrsta skrefið upp tröppurnar en þeir verða að vinna vel í sjálfum sér í framhaldinu til að stíga næsta skref, hlutirnir koma ekki af sjálfu sér. Stiginn er langur ef menn ætla sér að klífa hann allan,“ segir Guðjón Valur og viðurkennir að mótið hafi alls ekki verið auðvelt. „En mér finnst við sleppa stórslysalaust frá mótinu þótt við hefðum allir viljað meira.“

Góður stuðningur og ráð

„Mér fannst mjög gaman að fá tækifæri til að spila þennan stóra leik. Mér leið bara vel enda höfðu félagar mínir stutt vel við bakið á mér og gefið mér góð ráð,“ sagði Aron Rafn Eðvarðsson sem stóð í marki Íslands síðasta stundarfjórðunginn í gær gegn Frökkum og varði fimm skot. Þetta var hans fyrsti leikur á stórmóti með A-landsliðinu. „Það var engin pressa á mér þegar ég kom inn á og því leið mér bara vel. Vonandi er þessi leikur bara byrjunin á einhverju meiru hjá mér,“ sagði Aron. Svo skemmtilega vill til að síðast þegar hann lék með A-landsliðinu voru Frakkar líka mótherjar en hann tók þátt í vináttulandsleikjum vorið 2010 í Laugardalshöllinni.

Hef lært mikið af mótinu

„Það hefur verið virkilega gaman að vera með í þessu móti og margt jákvætt sem við getum tekið með okkur. Við stóðum okkur vel þótt við værum án tveggja mjög sterkra leikmanna,“ sagði Rúnar Kárason.

„Í heild er þetta í lagi hjá okkur. Ég hef lært mikið af þessu móti sjálfur og kem reynslunni ríkari til leiks næst,“ sagði Rúnar.