Gunnar I. Birgisson
Gunnar I. Birgisson
Eftir Gunnar Inga Birgisson: "Guðríður hafði leynt og ljóst reynt að grafa undan bæjarstjóranum í þeim tilgangi að veikja stöðu hennar til að losa stólinn fyrir sjálfa sig."

Mikið hefur gengið á í bæjarstjórn Kópavogs undanfarna daga. Næstbesti flokkurinn og Listi Kópavogsbúa slitu meirihlutasamstarfi við vinstri flokkana í bæjarstjórn Kópavogs. Helsta ástæðan var fyrirhugaður brottrekstur bæjarstjórans, Guðrúnar Pálsdóttir ásamt öðrum ágreiningi milli þessara flokka.

Tvöfaldur skolli Guðríðar

Í golfi fá keppendur skolla ef þeir ljúka holu í höggi yfir pari. Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi með fulltingi Ólafs Þórs Gunnarssonar, vinstri græns ákvað að reka bæjarstjórann, Guðrúnu Pálsdóttir fyrir engar sakir, nema þær að Guðríður Arnardóttir ætlaði að komast í bæjarstjórastólinn. Vitað er að Guðríður sótti það mjög fast að verða bæjarstjóri þegar meirihluti fjögurra flokka var myndaður í Kópavogi vorið 2010. En henni tókst það ekki og faglegur bæjarstjóri var ráðinn. Guðríður hefur reynt að bera þessar fréttir til baka með því að hagræða sannleikanum eins og henni er einni lagið. Þessi aðgerð endaði því með tvöföldum skolla Guðríðar sem sýndi þarna sitt rétta andlit.

Mannorð bæjarstjórans stórskaðað

Þessi aðför að bæjarstjóranum var mjög ógeðfelld og er öllum fjórum fyrri meirihlutaflokkunum til ævarandi skammar. Guðríður hafði leynt og ljóst reynt að grafa undan bæjarstjóranum frá fyrsta degi í þeim tilgangi að veikja stöðu Guðrúnar og koma henni frá til að losa stólinn fyrir sjálfa sig. Guðrún Pálsdóttir bæjarstjóri hefur starfað hjá Kópavogsbæ í aldarfjórðung við góðan orðstír. Hún hafði ekkert til saka unnið. Þessi aðför að henni hefur stórskaðað mannorð hennar að ósekju bara út af valdabrölti Guðríðar. Meirihluti getur að sjálfsögðu skipt um bæjarstjóra sýnist honum svo en að gera það undir fölsku flaggi og með svo lítilsigldum hætti á sér fá fordæmi enda leiddi það til endaloka meirihlutans.

Sjálfstæðisflokkur, Næstbesti flokkurinn og Listi Kópavogsbúa tóku upp meirihlutaviðræður eftir fall meirihlutans. Þeim lauk fljótt þar sem þessir nýju flokkar vildu ekki taka ábyrgð og voru á móti því að sjálfstæðismenn kæmu aftur til áhrifa í bæjarstjórn Kópavogs. Í skýringum þeirra á ákvörðun sinni kom fram að aðalsökudólgarnir væru undirritaður og Ómar Stefánsson, bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins, sem sæta ákæru vegna svokallaðs lífeyrissjóðsmáls en þessir tvímenningar björguðu ásamt meðstjórnarmönnum fjármunum sjóðsins frá glötun í hruninu 2008 með hagsmuni lífeyrissjóðsins og bæjarsjóðs í huga, án þess að hugsa um eigið skinn.

Hvert er framhaldið?

Núna vilja þessir tveir nýju smáflokkar mynda þjóðstjórn í Kópavogi. Það er skrítin tillaga þar sem þeir vilja ekki vinna með vinstri flokkunum né Framsóknarflokki hvað þá heldur Sjálfstæðisflokki! Spurning hvort þeir vilja vinna hvor með öðrum í þjóðstjórninni? En þeir segjast núna vilja vinna með öllum flokkum! Hvers konar endavitleysa er þetta? Það hefur greinilega farið fram hjá þessum tveimur smáflokkum hvers konar samfélag sjálfstæðis- og framsóknarmenn byggðu upp hér í Kópavogi árin 1990-2010 þar sem þjónusta og innviðir eru nú með því besta sem þekkist hjá sveitarfélögum.

Framhald meirihlutamyndunar í Kópavogi er óljóst. Finna þarf lausn en til þess þarf framsýni og pólitískan kjark, áræði í uppbyggingu og framkvæmdum en ekki endalaus umræðustjórnmál.

Höfundur er bæjarfulltrúi og fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi.

Höf.: Gunnar Inga Birgisson