Hressir Þeir njóta þess að tefla í Skákskólanum þessir strákar. Frá vinstri: Felix Steinþórsson, Hilmir Hrafnsson, Heimir Páll Ragnarsson, Hilmir Freyr Heimisson og Gauti Páll Jónsson.
Hressir Þeir njóta þess að tefla í Skákskólanum þessir strákar. Frá vinstri: Felix Steinþórsson, Hilmir Hrafnsson, Heimir Páll Ragnarsson, Hilmir Freyr Heimisson og Gauti Páll Jónsson. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í dag er Skákdagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn og af því tilefni verða ótal skákviðburðir víða um land. Teflt verður í fjölmörgum grunnskólum, haldin skákhátíð á Akureyri og teflt í Trékyllisvík, svo fátt eitt sé nefnt.

Í dag er Skákdagurinn haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn og af því tilefni verða ótal skákviðburðir víða um land. Teflt verður í fjölmörgum grunnskólum, haldin skákhátíð á Akureyri og teflt í Trékyllisvík, svo fátt eitt sé nefnt. Skákhreyfingin hvetur landsmenn til að draga fram taflið og taka þátt í hátíðinni.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Það verður teflt um allt land í dag. Skólar, skákfélög og fyrirtæki munu halda hina ólíkustu skákviðburði. Dagurinn hefst hér í Reykjavík á fjöltefli ofan í Laugardalslaug sem Björn Þorfinnsson landsliðsmaður verður með. Keppendur verða komnir ofan í laugina upp úr klukkan sjö og um að gera að skella sér í sund og fylgjast með,“ segir Stefán Bergsson, framkvæmdastjóri Skákakademíunnar, en hann er einn af þeim sem standa á bak við Skákdaginn sem í dag er haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn.

„Að öðrum viðburðum dagsins ólöstuðum held ég að þeir sem standa upp úr séu fjöltefli Friðriks Ólafssonar við starfsmenn RÚV, hraðskákeinvígi landsliðsmannanna Stefáns Kristjánssonar og Braga Þorfinnssonar í Kringlunni, kappskák Hjörvars Steins Grétarssonar við þjóðina í gegnum netið og fyrrnefnt fjöltefli í Laugardalslaug. Á landsbyggðinni verða líka vígðar nokkrar skáksundlaugar í dag, austur á Egilsstöðum, norður á Akureyri og vestur í Borgarnesi,“ segir Stefán og bætir við að hugmyndin að því að tefla ofan í sundlaug hafi komið upp í sumar.

„Við ákváðum að láta vaða og segja má að það hafi verið teflt stöðugt í Laugardalslauginni frá því vígslan var þar. Þetta hefur mælst vel fyrir og sýnir að það er hægt að tefla nánast hvar sem er.“

Færa skákina til fólksins

Stefán segir tvær ástæður liggja að baki því að Skákdagurinn sé haldinn hátíðlegur í dag. „Þetta er afmælisdagur Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga, sem verður 77 ára í dag. Við erum að heiðra hann. Og hann ætlar að taka virkan þátt í hátíðahöldunum. Hann ruddi brautina fyrir skáklífið á Íslandi og framlag hans til samfélagsins er ómetanlegt. Skákin væri ekki í slíkum blóma hér í dag ef hann hefði ekki brotist fram á sjötta áratugnum. En Skákdagurinn er líka hluti af almennri útbreiðslustarfsemi, sem felst í því að færa skákina til almennings, hvort sem það er gert í gegnum sundlaugarnar, skákmót á kaffihúsum eða með öðrum hætti.“

Gríðarlegur vöxtur í skák

Skákakademían, sem Stefán er framkvæmdastjóri hjá, stendur fyrir kennslu í grunnskólum í Reykjavík og breiðir þannig út skákina meðal þúsunda barna. „Það hefur gengið alveg sérstaklega vel og skólunum er alltaf að fjölga sem við kennum í. Núna er skákin víðast hvar á stundatöflu í þriðja bekk í þeim þrjátíu skólum þar sem Skákakademían stendur fyrir skákkennslu. Markmiðið er auðvitað að vera í öllum 47 grunnskólum Reykjavíkur,“ segir Stefán og bætir við að það sé gríðarlegur vöxtur í skákinni, ekki aðeins hjá krökkunum heldur líka hjá almenningi.

„Hvort sem það er skáknámskeið hjá Skákskóla Íslands eða skákmót, þá er alltaf metþátttaka eða mesta þátttaka undanfarin 10-15 ár. Til dæmis er mjög góð þátttaka á Skákþingi Reykjavíkur sem stendur yfir núna, rúmlega sjötíu manns tefla þar.“

Friðrik teflir við Nansý

Þegar Stefán er spurður um kynjaskiptinguna hjá krökkum sem taka þátt í skákinni segir hann mikla sókn í stelpuskákinni. „Íslandsmót barna í skák var haldið í átjánda sinn núna í janúar og þá vann stúlka mótið í fyrsta sinn. Hún heitir Nansý Davíðsdóttir og er tíu ára. Hún er mjög efnileg og er meðlimur í ungmennalandsliði Íslands í skák sem mun taka þátt í Norðurlandamótinu í Finnlandi í febrúar.

Þau sem eru í þessu liði eru öll boðin til Bessastaða í dag í móttöku forsetans Ólafs Ragnars Grímssonar í tilefni Skákdagsins. Þar mun Friðrik tefla við Nansý, nýkrýndan Íslandsmeistara barna.“

Stefán segir að krakkarnir sem fara fremst í flokki í skákinni slái ekki slöku við, heldur æfi sig grimmt.

„Nansý mætir tvisvar í viku í tíma hjá Skákskólanum sem sér um að þjálfa afrekskrakka. Hún mætir líka á æfingu hjá sínu taflfélagi, sem er Fjölnir, og auk þess teflir hún á mótum einu sinni til þrisvar í viku. Þetta eru því sjaldan færri en fimm skipti í viku.“

FJÖLBREYTT DAGSKRÁ Á SKÁKDAGINN

Skák er skemmtileg

Kjörorð Skákdagsins er:

Upp með taflið! Hægt er að nálgast dagskrána og fylgjast með fréttum og viðburðum á:

skakdagurinn.blog.is.

Meðal annars verður skákhátíð í Grímsey sem mun standa allan daginn, Unnsteinn Sigurjónsson mun tefla fjöltefli við nemendur í grunnskóla Bolungarvíkur, kaffihúsaskákmenn miðborgarinnar mæta á Cafe Haíti sem er sívaxandi skákmiðstöð, Skákgleði verður á leikskólanum Marbakka í Kópavogi þar sem stórmeistari kvenna, Lenka Ptácníková stjórnar, og svo mætti lengi telja. Íslendingar víða um heim hafa einnig boðað þátttöku í Skákdeginum 2012.