Baldur Arnarson
Skúli Hansen
Lýst var yfir hættuástandi vegna snjóflóðahættu á iðnaðarsvæðinu Grænagarði á Ísafirði og við sorpbrennsluna Funa í Engidal í gær. Þá var hættuástandi lýst yfir á bænum Hrauni í Hnífsdal. Voru nokkrir bæir til viðbótar á skoðunarlista. Engar tilkynningar bárust um eignatjón á Vestfjörðum vegna óveðursins, að sögn lögreglunnar á Ísafirði þegar um það var spurt seint í gærkvöldi.
Þá var hættuástandi lýst yfir í tveimur íbúðarhúsum vestarlega á Seljalandsvegi og voru húsin, sem eru í nágrenni Grænagarðs, rýmd um tíuleytið í gærkvöldi.
Spáð var norðanhvassviðri, 18 til 23 metrum á sekúndu, og mikilli snjókomu á norðanverðum Vestfjörðum í nótt og átti að draga úr vindi og ofankomu í morgun.
„Þekkt snjóflóðaveður“
Mesta snjófljóðahættan á norðanverðum Vestfjörðum tengist aftakaveðrum af norðri þegar lægðir ganga norður fyrir land úr suðri eða austri. „Þetta er þekkt snjóflóðaveður fyrir Vestfirði,“ sagði Auður Kjartansdóttir, vaktmaður Snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands.Á Vestfjörðum brast víða á stórhríð og var mikið annríki hjá vegagerðarmönnum. Á Vesturlandi og á Snæfellsnesi fer veður og færð versnandi, líkt og víðar um landið. Spáði Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur því að ef spár gengju eftir yrði mikil ófærð á landinu, þ.m.t. í þéttbýlinu á suðvesturhorninu.
Tvö viðbúnaðarstig eru vegna snjóflóðahættu, óvissuástand og hættuástand, og var óvissuástandi lýst fyrir norðanverða Vestfirði, að sögn Rúnars Óla Karlssonar, vaktstjóra snjóflóðavaktar Veðurstofu Íslands. Sagði hann óvissuástandi lýst fyrir allt svæðið, jafnvel þótt það gæti aðeins átt við eitt bæjarfélag.
Komast ekki landleiðina
Ófærðin á Vestfjörðum setti mark sitt á atvinnulíf í landshlutanum.Óðinn Gestsson, framkvæmdastjóri fiskvinnslunnar Íslandssögu á Suðureyri, sagði ófærðina hafa valdið því að ekki tókst að koma unnum afla landleiðina suður til Reykjavíkur, þaðan sem flytja átti hann með flugi til Bretlands og sjóleiðina á markaði. Óttaðist Óðinn að frysta þyrfti aflann, um fimm tonn, en við það lækkar hann í verði. Var jafnframt óvíst hvort 8-9 tonna óunninn afli kæmist til vinnslunnar í dag. Átti starfsfólk erfitt með að komast milli Tálknafjarðar, Bíldudals og Patreksfjarðar vegna ófærðar. Sverrir Haraldsson, útgerðarstjóri hjá Odda á Patreksfirði, sagði mokstur á Kleifaheiði og ferðir ferjunnar Baldurs hafa tryggt landflutninga.
Dísilrafstöð sett í gang á Þórshöfn
Rafmagn fór tvisvar af í Bolungarvík og sagði Helgi Bjarnason að nægt eldsneyti væri til að knýja varaaflstöð þar til í næstu viku en hann var þar á bakvakt.Rafmagn fór af Þórshöfn, Kópaskeri, Raufarhöfn og sveitum þar í kring um áttaleytið í gærkvöldi. Samkvæmt upplýsingum frá Rarik var bilun á línunni frá Laxá til Kópaskers.
Að sögn fréttaritara Morgunblaðsins þurfti að kalla til mann frá Raufarhöfn til að setja í gang díselrafstöð í Þórshöfn.
LOKUÐU VEGUM
Ók bílnum inn í snjóflóð
Björgunarsveitin á Dalvík liðsinnti ökumanni og farþegum hans eftir að bifreið sem þau voru í festist í snjóflóði við Sauðanes á veginum milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar um níuleytið í gærkvöldi. Engin slys urðu á fólki í óhappinu. Var veginum í kjölfarið lokað vegna snjóflóðahættu.Þá var Siglufjarðarvegi lokað af sömu ástæðu.