Erna Jóna Eyjólfsdóttir fæddist í Reykjavík 16. september 1965. Hún lést í faðmi fjölskyldunar á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 18. janúar 2012. Foreldrar hennar eru Eyjólfur Guðmundsson, f. 21. október 1944, og Eygló Úlfhildur Ebenezersdóttir, f. 7. október 1945. Systkini Ernu eru Guðbjörg, f. 2. nóvember 1961, Guðmundur, f. 21. janúar 1971, og Andri Þór, f. 28. júní 1980.

Eftirlifandi eiginmaður Ernu Jónu er Geir Sigurðsson, f. 14. apríl 1962. Synir þeirra eru Sigurður, f. 27. október 1986 og Erlingur, f. 3. nóvember 1993.

Erna lauk verslunarskólaprófi frá Verslunarskóla Íslands, prófi til löggildingar í verðbréfamiðlun og prófi í gerð eignaskiptasamninga. Erna starfaði sem aðalgjaldkeri hjá Tryggingu hf., skrifstofu- og við gjaldkerastörf hjá Hömlum hf. og síðar sem sérfræðingur hjá lögfræðiinnheimtu Landsbanka Íslands.

Útför Ernu fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 26. janúar 2012, kl. 13.

Til okkar ástkæru dóttur.

Ég hugsa til þín, elsku vina, og hlýt því engan blund.

Þá heyri ég myrkrið anda um kalda vetrarstund

og höfði mínu þreyttu ég halla á svæf ilinn

og hníga sorgartárin um grátna og föla kinn.

Þá einmana ég vaki og allt er kyrrt og hljótt

og ímyndunin reikar um hljóða vetr arnótt.

Mér finnst því sem ég heyri fótatakið þitt

og finni hjartasláttinn við særða brjóst ið mitt.

(Höf. ók.)

Með þakklæti fyrir allt, elsku vina.

Mamma og pabbi.

Ástkær systir mín er látin langt fyrir aldur fram, eftir hetjulega baráttu. Hún beið lægri hlut fyrir því meini sem hún greindist með fyrir 5 árum. Hún tókst á við veikindi sín af miklum krafti dugnaði og æðruleysi staðráðin í að sigra og aldrei heyrði ég hana kvarta, þrátt fyrir sársauka og vanlíðan. Nú er þrautunum lokið.

Systir mín var heimskona, naut þess að ferðast um heiminn og voru hún og Geir búin að fara víða. París var hennar uppáhaldsborg og hennar síðasta ferð var til Parísar í haust. Hún hafði mikinn áhuga á öllu því sem tengdist mat og matarmenningu og allt sem hún gerði var gert af ástríðu og vandvirkni að það var eins og maður væri á fínasta veitingahúsi. Hún var mikill dýravinur og mátti ekkert aumt sjá og fyrir 11 árum fengu þau sér hundinn Depil sem á eftir að sakna hennar sárt. Fyrir nokkrum árum fóru hún og Geir að byggja sér sumarbústað við Þingvallavatn og þar var þeirra sælureitur. Þar undi hún sér vel og nostraði við alla hluti eins og henni var einni lagið. En hug hennar allan áttu strákarnir hennar. Hún var svo stolt af þeim, vel gerðir, blíðir og góðir. Sorg þeirra er mikil og erfitt verður fyrir þá að takast á við móðurmissinn og Geir sem hefur staðið við hlið hennar eins og hetja og verið henni svo góður og umhyggjausamur. Guð gefi okkur öllum styrk í sorginni.

Stórt skarð er nú höggvið í systkinahópinn og fjölskylduna. Við systkinin erum samrýmd og getum við þakkað foreldrum okkar það, þau hafa alltaf lagt mikið upp úr því að halda hópinn og núna eru allar þessar stundir svo mikils virði. Ég læt hugann reika og brosi gegnum tárin þegar allar minningarnar birtast mér um stundirnar okkar saman allt frá barnæsku til fullorðinsáranna, þær eru allar ljúfar og góðar og aldrei hefur skugga borið á. Ég hef verið lánsöm að eiga systur, svo lánsöm að þessi systir varst þú, alltaf til staðar, alltaf þú.

Hvað geri ég núna, mín kæra, við hvern á ég að tala um börnin okkar, gleði þeirra og sorgir. Í hvern á ég að hringja þegar ég kem heim úr vinnu. Við hvern á ég að tala um uppskriftir og eldamennsku. Við hvern á ég að tala bara um allt og ekkert eða bara heyra röddina þína. Hvar er réttlætið í tilverunni? Af hverju varstu hrifin á brott frá okkur í blóma lífsins? Þín hlýtur að bíða göfugt hlutverk.

Mín ástkæra systir, það er komið að kveðjustund, hafðu þakkir fyrir allt sem þú varst mér og minni fjölskyldu. Þín minning lifir, þangað til við hittumst aftur.

Takk fyrir allt, takk fyrir að vera systir mín, takk fyrir að vera þú.

Ef þungur róður þjakar okkar sálir

og þokan slævir lífsins fögru mynd

þá bíð ég hljóður helgi þinnar kyrrðar

uns sest hjá mér við lífsins tæru lind.

Þú gafst mér afl svo fjöllin fái sigrað

þú gafst mér afl í fylgd um stormsins mar

Mitt afl er mest við styrkar stoðir þínar

þú meira gafst af krafi en ætlað var.

Allt okkar líf er leiksins gleði háð

lifandi von í hjartans undra þrá

því uppskeran er eins og til var sáð,

eilíf sól með blik af daggarbrá.

(Árni Johnsen.)

Þín

Guðbjörg.

Það er okkur sárt að þurfa að kveðja okkar kæru mág- og svilkonu hana Ernu sem fallin er frá, langt fyrir aldur fram eftir að hafa barist við illvígan sjúkdóm. Erna sýndi mikinn viljastyrk, hugrekki og yfirvegun í veikindum sínum. Fjölskyldan var henni allt og var hún einstök móðir sem naut þess að fá að hugsa um strákana sína og hlúði hún vel að þeim allt til enda. Það var alltaf gott að vera í kringum Ernu. Hún hafði hlýja og góða nærveru og aldrei var langt í glettnina og húmorinn hjá henni.

Erna og Geir höfðu sterkar rætur í Lyngvík sem er sumarbústaður í landi Kaldárhöfða. Fyrir nokkrum árum reistu þau sinn eigin bústað á landinu. Við munum ávallt minnast þess hversu vel þau hjónin tóku börnum okkar þegar þau trítluðu yfir í bústaðinn til Ernu og Geirs úr kofanum okkar, þar sem Erna hafði alltaf eitthvað gott að bjóða þeim úr eldhúsinu.

Erna var gædd miklum hæfileikum í eldhúsinu og hafði hún mikla ástríðu af því að elda og baka. Hún naut þess að halda boð og veislur og alltaf voru kræsingarnar þvílíkt flottar og góðar og náði hún að galdra þær fram svo áreynslulaust og vel. Alltaf var hægt að leita til hennar varðandi uppskriftir og aðferðir í eldhúsinu.

Geir og Erna voru einstaklega samhent og kærleiksrík hjón sem gerðu nánast allt saman. Þau voru dugleg að ferðast til útlanda, bæði ein og með strákunum sínum. Það er sjaldan að nafn Geirs ber á góma án þess að nafn Ernu fylgi á eftir. Það er svo ósanngjarnt og ótrúlegt til þess að hugsa að hún sé nú farin frá okkur öllum.

Elsku Geir, Siggi og Erlingur, sorg ykkar og harmur er mikill og biðjum við góðan Guð að vera með ykkur. Við vottum auk þess foreldrum Ernu, Eygló og Eyjólfi, fjölskyldu og vinum, okkar innilegustu samúð. Minningin um Ernu mun alltaf lifa með okkur.

Sigurður og Hildur.

Ég kynntist Ernu vorið 1985 þegar hún, ung og glæsileg kona, hóf störf í Tryggingu hf. þar sem við unnum saman til ársins 1998. Erna var alltaf kát og hress og féll vel inn í þann valinkunna hóp fólks sem starfaði á þessum árum hjá Tryggingu. Samt sem áður tók það mig nokkuð langan tíma að kynnast henni verulega náið og það var ekki fyrr en fimm árum síðar að við bundumst órjúfanlegum vináttuböndum. Erna sagði mér seinna að hún vildi eiga fáa, en góða vini.

Þegar veikindi Ernu gerðu vart við sig voru sómahjónin Erna og Geiri einmitt að byrja að uppskera eins og til hafði verið sáð. Synirnir, Sigurður og Erlingur, orðnir ungir og efnilegir menn sem uppfylltu vonir og væntingar foreldranna og Erna og Geiri því farin að hafa meiri tíma fyrir sjálf sig og hvort annað. Þau voru líka búin að eignast þá veraldlegu hluti sem teljast nauðsynlegir og gott betur. En það sem kannski mest er um vert fyrir tvo einstaklinga sem ákveða að lifa lífinu saman var að þau voru fyrir löngu farin að ganga lífsins leið í takt.

Erna var ein af þessum konum sem stöðugt hlúa að fólkinu sínu. Hún var listakokkur og hafði unun af því að traktera mann á hinu og þessu sem kitlaði bragðlaukana enda fór hún létt með að hjálpa mér með þær veislur sem ég hef þurft að standa fyrir til þessa. Það kom mér því ekkert verulega á óvart að eitt hennar síðasta verk væri að útbúa möppur fyrir synina sem innihalda „uppáhalds-réttina hennar mömmu“. Síðastliðinn laugardag þegar ég var að skoða þær og dást að því hvað hún var búin að nostra og leggja mikla vinnu í þær, jafn veik og hún var, þá sagði hún glettnislega að hún hefði nú ætlað að gera þetta í rólegheitum næstu mánuðina en líklega þyrfti hún að haska sér ef þetta ætti að klárast í tíma. Ég vissi að hún gerði sér fulla grein fyrir því að hún ætti ekki mikinn tíma eftir. Ég var reyndar búin að finna að hún vissi allan tímann að brugðið gæti til beggja vona um það hvort hún hefði sigur í þeirri hörðu baráttu sem hún var tilneydd að heyja. Baráttu sem hún háði hetjulega og af fádæma óeigingirni og æðruleysi eins og hennar var von og vísa. Hún sló aldrei af kröfunum til sjálfrar sín. Hún skyldi, hvað sem það kostaði, sjá til þess að ekkert færi úr skorðum á heimilinu. Allt gengi sinn vanagang. Allir skyldu halda sínu striki.

Ég er ólýsanlega þakklát fyrir þann tíma sem ég fékk að vera vinur Ernu þótt mér finnist sá tími allt of stuttur. Ennfremur lít ég á það sem forréttindi og mikinn heiður að hún skyldi taka mig í hóp þeirra útvöldu sem hún kallaði vini sína.

Elsku Geiri, Siggi og Erlingur. Ég veit að þið, foreldrar Ernu, systkini og aðrir ástvinir eigið erfiða tíma fyrir höndum. Megi ómetanlegar minningar um yndislega eiginkonu, móður, dóttur, systur, frænku og vinkonu verða okkur öllum huggun harmi gegn. Um leið og ég votta ykkur öllum mínar innilegustu samúð vona ég að þið megið öðlast þann styrk sem Erna sannaði fyrir okkur að manneskjan býr yfir þegar á reynir.

Ykkar vinkona,

Stefanía Helga.