Tónlistarhátíðin Myrkir músíkdagar hefst í dag klukkan 12.15 með stuttum hádegistónleikum í Þjóðmenningarhúsinu sem kallast „Forleikur að Myrkum músíkdögum“. Þetta eru styrktartónleikar með verkum fyrir gítar en allur ágóði rennur í Minningarsjóð um Kristján Eldjárn gítarleikara sem ætlað er að verðlauna framúrskarandi tónlistarfólk. Fram koma gítarleikararnir Kristinn H. Árnason, Páll Eyjólfsson, Svanur Vilbergsson, Grétar Geir Kristinsson og Kristinn Freyr Kristinsson. Sérstakur gestur verður Marta Guðrún Halldórsdóttir sópransöngkona. Verkin sem leikin verða eru eftir Hróðmar Sigurbjörnsson, Kjartan Ólafsson, Elínu Gunnlaugsdóttur og Mateu Malondra Flaquer.
• Kl. 17.00: Setningarathöfn Myrkra músíkdaga, en það eru tónleikar í beinni útsendingu á Rás 1 frá Útvarpshúsinu í Efstaleiti. Þetta er árviss viðburður á Myrkum músíkdögum, opinn öllum og er aðgangur ókeypis. Fram koma Áshildur Haraldsdóttir flautuleikari, Elísabet Waage hörpuleikari, Guðrún jóhanna Ólafsdóttir messósópran, Francisco Javier Jáuregui gítarleikari og kammerhópurinn Nordic Affect undir stjórn Guðna Franzsonar. Verkin eru eftir Atla Heimi Sveinsson, Ian Clarke, Huga Guðmundsson, Önnu Þorvaldsdóttur, Morales-Caso og Hauk Tómasson.
• Kl. 19.30. Opnunartónleikar hátíðarinnar. Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur undir stjórn Ilan Volkov í Eldborgarsal Hörpu. Á efnisskrá eru verk eftir Atla Ingólfsson, Huga Guðmundsson, Hans Abrahamsen og Iannis Xenakis. Verk Huga og Hans verða frumflutt við þetta tækifæri.
• Kl. 22.00 Kaldalón í Hörpu: Raftónleikar þar sem heyrast mörg ný rafverk í fyrsta sinn. Verkin eru eftir Ríkharð H. Friðriksson, Þuríði Jónsdóttur, Pál Ivan Pálsson, Úlfar Inga Haraldsson, Jesper Pedersen, Kjartan Ólafsson, Þorgrím Einarsson og Camillu Söderberg. Þá leika Sigríður Mjöll Björnsdóttir á víólu og Páll Ivan Pálsson á rafgítar í tveimur verkanna.