Þorbjörn Guðmundsson
Þorbjörn Guðmundsson
Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Að samkomulagi varð milli ASÍ og ríkisstjórnarinnar samhliða framlengingu kjarasamninganna að nú verði ekki látið dragast lengur að hefja átak í baráttunni við félagsleg undirboð í tengslum við útboð á þjónustu og verklegum framkvæmdum og kennitöluflakki. Ríkisstjórnin gaf fyrirheit um þetta í yfirlýsingu við gerð kjarasamninganna í fyrra en það gekk lítið eftir.

Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar, segir að nú séu þessi mál vonandi komin í góðan gang „en þetta fór mjög seint í gang“.

Markmiðið er að tryggja eðlilegt samkeppnisumhverfi þegar um útboð er að ræða og réttindi launafólks í því sambandi og stendur m.a. til að gera mun stífari kröfur til bjóðenda í útboðum á þjónustu og verklegum framkvæmdum.

„Útboðin snúa fyrst og fremst að opinberum aðilum. Við erum að skoða nokkrar greinar í lögunum um opinber útboð. Það liggur ekki alveg ljóst fyrir hver niðurstaðan verður en þetta snýr að því að auka gegnsæið, auka kröfur til bjóðenda og reyna að styrkja stöðu starfsmannanna svo þeir verði ekki gerðir að gerviundirverktökum.

Þessari vinnu er ekki alveg lokið en ef breyta þarf lögum teljum við að gera eigi það á vorþinginu,“ segir hann.

Samhliða þessu er einnig unnið að reglum um að fram fari samræmt mat á bjóðendum í framkvæmdir og þjónustu. Þorbjörn segir að menn séu efnislega sammála um það sem fyrir liggur úr þeirri vinnu.

„Þar er um það að ræða að settar verði ákveðnar skyldur á opinbera verkkaupa um að þegar þeir fá tilboð verða þeir að skoða miklu betur feril þess sem býður, bæði fjárhagslega og faglega. Það á eftir að ná samkomulagi um hvaða stöðu þessar reglur fá en við teljum að það þurfi a.m.k. að setja reglugerð um þær,“ segir hann.

Bæta stöðu þeirra sem spila rétt

„Við viljum að reglurnar séu þannig að þeir sem spila rétt séu ekki í verri stöðu en hinir. Það er verið að reyna að bæta samkeppnisstöðu þeirra fyrirtækja sem vilja standa rétt að málum og að það muni skapa betri og öruggari skilyrði fyrir starfsfólk. Sama hugsun ræður ferðinni varðandi kennitöluflakkið, þ.e. að reynt verði að koma í veg fyrir að þeir sem skipta í sífellu um kennitölu geti undirboðið þá sem standa skil á sínu og gera þetta rétt.“

UNDIRBÚA FLEIRI HEIMSÓKNIR GEGN SVARTRI ATVINNU

Átaksverkefnið endurtekið

Í undirbúningi er að endurtaka næsta sumar átaksverkefnið „Leggur þú þitt af mörkum“ sem ASÍ, Samtök atvinnulífsins og Ríkisskattstjóri unnu saman að gegn svartri atvinnustarfsemi og til að uppræta undanskot, með heimsóknum á fjölda vinnustaða. Átakið á seinasta ári sem stóð yfir í um fjóra mánuði skilaði góðum árangri. Yfir helmingur fyrirtækja sem heimsótt voru fékk athugasemdir vegna síns rekstrar og talið var að samfélagslegt tap vegna svartrar vinnu væri 13,8 milljarðar kr. á ári.

,,Það bendir allt til þess að við höldum þessu áfram,“ segir Þorbjörn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samiðnar. Gefin var út skýrsla með niðurstöðunum sl. haust og segir Þorbjörn að menn séu núna að fara yfir hana og meta að hvaða hópum og svæðum rétt sé að beina sjónum. ,,Við gerum ráð fyrir að fara í svipaðar ferðir í sumarbyrjun og við fórum í fyrra,“ segir hann. Í fyrrasumar fóru eftirlitsteymi um og könnuðu ástandið með heimsóknum á 2.136 starfstöðvar um land allt. Voru skráðir 6.167 starfsmenn í þessum heimsóknum.