Um og upp úr 2000 var jaðarkántríið svokallaða í algleymingi. Meðal þeirra sem vöktu mikla athygli á þessum tíma var hin kanadíska Kathleen Edwards en frumburður hennar, Failer, þótti óvenju heilsteypt og þroskað byrjandaverk. Þar er að finna kröftugt, melódískt og haganlega samsett kántrírokk með firnagóðum textum þar sem ekkert er dregið undan í hryssingslegri hreinskilni. Tónlistin flutt af fádæma öryggi og lagasmíðarnar sterkar. Edwards siglir um svipuð mið á þessari fjórðu plötu sinni. Myrkrið og harkan er þó ekki jafnumlykjandi og fyrr en einlægni Edwards í flutningi er jafnstingandi og áður. Veit ekki hvort þessi hljómræna „upp-poppun“ er meðvituð eður ei, kannski er það bara aldurinn og reynslan sem sér um að hefla hvössustu kantana í burtu. Ég er hins vegar á báðum áttum um hvort þessi nýtilfundna mýkt gagnist okkur hlustendum eitthvað.
Arnar Eggert Thoroddsen