Fyrir dómi Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson þegar málið var fyrir Héraðsdómi.
Fyrir dómi Baldur Guðlaugsson og Karl Axelsson þegar málið var fyrir Héraðsdómi. — Morgunblaðið/Jón Pétur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andri Karl andri@mbl.is „Ég geri mér ljóst að málflutningurinn verður fremur langur, en ekki eru litlir hagsmunir undir,“ sagði Karl Axelsson, verjandi Baldurs Guðlaugssonar, fyrir Hæstarétti í gærmorgun.

Baksvið

Andri Karl

andri@mbl.is

„Ég geri mér ljóst að málflutningurinn verður fremur langur, en ekki eru litlir hagsmunir undir,“ sagði Karl Axelsson, verjandi Baldurs Guðlaugssonar, fyrir Hæstarétti í gærmorgun. Baldur var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir innherjasvik í opinberu starfi sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins og gerðar voru upptækar 192.658.716 krónur, söluandvirði hlutabréfa hans í Landsbanka Íslands sem hann seldi 17. og 18. september 2008. Má því fallast á það með Karli að hagsmunirnir séu miklir.

Áður en kom að ræðu Karls flutti mál ákæruvaldsins Sigríður J. Friðjónsdóttir, ríkissaksóknari. Hún fór fram á að refsingin yrði þyngd og sagði að við broti Baldurs lægi allt að níu ára fangelsi. Er það ekki síst athyglisvert fyrir þær sakir að Björn Þorvaldsson saksóknari sem fór með málið fyrir héraðsdómi fór fram á tveggja ára fangelsi, og var orðið við þeirri kröfu.

Baldur hefur ávallt neitað sök í málinu og fyrir héraðsdómi var aðalkrafa Karls að hann yrði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins. Fyrir Hæstarétti var aðalkrafan hins vegar sú að málinu yrði vísað frá dómi, en varakrafa að rétturinn ómerkti málið og þrautavarakrafa að hann yrði sýknaður.

Röksemdir Karls fyrir frávísun eru þær, að rannsókn á málinu hafi þegar farið fram hjá Fjármálaeftirlinu og lauk henni með niðurfellingu málsins. Hann benti á að þó svo FME hefði sett þann fyrirvara við málalokin að taka mætti málið upp aftur ef ný gögn kæmu fram hefði ákæruvaldinu ekki tekist að sýna fram á það, að ný mál hefðu komið fram.

Ekki bent á eitt einasta nýtt gagn

Fjármálaeftirlitið rannsakaði sölu hlutabréfanna seint á árinu 2008 og tilkynnti í maí að fullnægjandi skýringar og gögn hefðu komið fram um að Baldur hefði ekki búið yfir innherjaupplýsingum þegar viðskiptin áttu sér stað. Karl sagði ekkert efnislega hafa breyst frá því niðurstaða FME lá fyrir og málið var tekið upp að nýju. Þá benti hann á að forstjóri FME hefði átt aðkomu að samráðshópnum sem Baldur sat í og allar upplýsingar sem bárust þangað hefði FME haft undir höndum. „Ekki hefur verið bent á eitt einasta gagn sem ekki lá fyrir áður en málið var tekið upp að nýju.“

Karl sagði ríkissaksónara hafa gert tilraun til að sýna fram á ný gögn en það hefði ekki tekist. Því fæli málatilbúnaðurinn í sér endurtekna málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi sem gengi gegn ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, og því bæri að vísa málinu frá.

Dóms er að vænta á næstu vikum.

Upplýsingar Baldurs
» Sakfellt var fyrir það fyrst að Baldur vissi um kröfu breska fjármálaeftirlitsins að innistæður á Icesave-reikningum yrðu fluttar í breskt dótturfélag og að bankinn ætti í erfiðleikum með að verða við því.
» Einnig að hann vissi að breska fjármálaeftirlitið hefði reynt að takmarka markaðssetningu Icesave, og gefið tilmæli um að haga vaxtakjörum þannig að drægi úr vexti innistæðna.
» Og að seðlabanki Hollands hygðist stöðva frekari innlán á Icesave-reikninga.
» Einnig það sem fram kom á fundi með fjármálaráðherra Bretlands, að fast yrði haldið við kröfur breska fjármálaeftirlitsins í viðræðum við íslensk stjórnvöld.
» Upplýsingar sem fram komu á fundi samráðshópsins þar sem rætt var um viðbragðsáætlanir ef stór banki færi í greiðsluþrot.