Sigursteinn Davíð Gíslason fæddist á Akranesi 25. júní 1968. Hann lést á krabbameinslækningadeild Landspítalans 16. janúar 2012. Móðir hans er Margrét Teitsdóttir, f. 31.8. 1937, hún er gift Guðlaugi Eiríkssyni, f. 25.5. 1927. Systkini Sigursteins sammæðra eru Halldóra Lilja Gunnarsdóttir, f. 17.4. 1956, d. 6.8. 2006, eftirlifandi maður hennar er Gísli Arason og eiga þau einn son. Örn Arnar Gunnarsson, f. 28.6. 1959. Rúnar Gunnarsson, f. 16.5. 1960, giftur Hrefnu Ingólfsdóttur, eiga þau tvö börn. Teitur Gunnarsson, f. 14.2. 1964, giftur Önnu Björgu Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Faðir hans er Gísli Víglundsson, f. 25.8. 1935. Systkini samfeðra eru Júlíana Gísladóttir sem lést árið 2000, skildi hún eftir sig fjögur börn og Sveinn Gíslason.

Eftirlifandi eiginkona Sigursteins er Anna Elín Daníelsdóttir, f. 9.1. 1972, gengu þau í hjónaband 27.11. 1994. Börn þeirra eru Sóley, f. 12. ágúst 1997, en hún lést sama dag, 12. ágúst 1997, Magnús Sveinn, f. 30.7. 1999, Unnur Elín, f. 7.11. 2004 og Teitur Leó, f. 24.4. 2006. Móðir Önnu Elínar er Elínbjörg Magnúsdóttir, f. 24.3. 1949. Anna Elín ólst upp að jöfnu leyti á heimili móður sinnar og móðurforeldra sinna í Belgsholti í Melasveit, hjónanna Magnúsar Ólafssonar, en hann er látinn, og Önnu Ingibjargar Þorvarðardóttur.

Sigursteinn og Anna Elín hófu búskap árið 1989 og voru búsett á Akranesi til ársins 1999 en síðan þá hafa þau búið í Reykjavík. Sigursteinn var starfsmaður Akraneskaupstaðar í 11 ár áður en þau fluttu til Reykjavíkur. Frá árinu 2000 var hann fyrst starfsmaður TVG-Zimsen og síðar Eimskips þar sem hann starfaði til dánardags. Sigursteinn var mikill afreksmaður í knattspyrnu og síðar knattspyrnuþjálfari.

Útför Sigursteins fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 26. janúar 2012, kl. 15.

mbl.is/minningar

Nokkrum sinnum á lífsleiðinni verður maður þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast fólki sem hreyfir við manni fyrir lífstíð. Fólki sem geislar af hlýju, umhyggju, kímnigáfu og gleði. Þannig manneskjur eru sérstakar, feta aðra stíga og eru öllum ógleymanlegar sem verða á vegi þeirra. Sigursteinn Gíslason fellur ekki bara í þann flokk, hann er fyrirliði þessa hóps og fyrirmynd.

Það er auðvelt að dásama þann mann sem Steini hafði að bera. Hann var yndislegur í alla staði. Hann var öllum traustur og tryggur vinur, einlægur og heiðarlegur. Steini var þannig að hann reyndist öllum vel, tók á móti þér með bros á vör og faðminn opinn. Um það geta allir vottað, þar á meðal ég.

Í litlu samfélagi eins og á Akranesi þekkja allir alla og því get ég með sanni sagt að Steina hafi ég þekkt alla mína ævi. Fyrir ríflega tuttugu árum, um það leyti sem hann hóf búskap með Önnu sinni, var undirritaður ásamt mínum elskulegu vinum, Heimi Jónassyni og Alberti heitnum Gunnarssyni, tíður gestir á heimili þeirra hjóna. Hvernig í ósköpunum þau nenntu að hafa okkur óstýrilátu unglingana inni á gafli hjá sér nánast öll kvöld vekur hjá mér furðu núna. En þannig voru þau sómahjón. Opnar dyr öllum þeim sem til þeirra leituðu.

Það er ofar mannlegum mætti að sættast á að tími Steina hafi verið kominn. Þó afrek hans og sigrar á alltof stuttri ævi séu sjálfsagt fleiri og stærri en venjulegri manneskju tækist á tveimur æviskeiðum, var svo margt sem enn var ógert. Sárast er auðvitað að hann fær ekki tækifæri til að fylgja börnunum sínum þremur og ástkærri eiginkonu um ókomin ár.

Með þessum fátæklegu orðum og nístandi sorg í hjarta kveð ég í dag vin minn og frænda, Sigurstein Davíð Gíslason. En ég kveð hann jafnframt með óendanlegu þakklæti fyrir að hafa þekkt hann, kynnst honum og að hafa notið þeirra forréttinda að geta kallað hann vin minn.

Elsku Anna, Magnús, Unnur og Teitur, mínar dýpstu samúðarkveðjur sendi ég ykkur. Megi allar góðar vættir styrkja ykkur í sorginni. Steini, þú ert og verður alltaf hetjan mín. Vonandi hittumst við aftur þar sem þú heilsar mér á þann hátt sem þú gerðir alltaf: Sæll, kæri frændi. Þangað til, góða ferð.

Hjörtur Júlíus Hjartarson.

Kveðja frá Lúdóvinum

Lúdóvinafélagið var stofnað vorið 1988 í framhaldi af upplyftingarferð Knattspyrnufélags ÍA í Munaðarnes. Sigursteinn Gíslason var að sjálfsögðu einn af stofnendum félagsins enda ávallt tilbúinn til að koma þar að sem grínið og gleðin ríkti. Fyrst í stað var spilað lúdó nokkrum sinnum á ári en undanfarin u.þ.b. 15 ár höfum við komið saman einu sinni á ári, vökvað lífsblómið, horft á leik í enska boltanum, spilað okkar sérsmíðaða lúdó og umfram allt borðað frábæran veislukost. Veislukost sem ekki féll alltaf að smekk Steina Gísla enda frægur gikkur í mat.

Það var á þessum stundum sem Steini naut sín hvað best. Kímni hans og stríðni þekkjum við allir og nutum hvors tveggja enda alltaf í gamni gert. Óþolandi spilaheppni hans kom líka aftur og aftur fram þegar hann hirti titilinn Lúdómeistari ársins oftar en við hinir.

Það eru hins vegar mannkostir Steina sem standa upp úr þegar við kveðjum þennan kæra vin og félaga okkar. Hann var alltaf til í að aðstoða aðra og leggja eitthvað gott til málanna. Það verður því ómetanleg og dýrmæt minning að hafa haldið síðasta lúdókvöld Steina Gísla heima hjá honum að Nesvegi í byrjun nóvember á síðasta ári. Það er minning sem verður okkur svo hjartfólgin af því að síðasti leikurinn hans var flautaður af allt of snemma.

Við lúdófélagar Steina Gísla færum Önnu Elínu, börnum þeirra og öðrum ástvinum okkar innilegstu samúðarkveðjur. Hvíl í friði, kæri vinur.

Ef leiðir skilja, lífs á veg,

þá líða um vanga tárin treg,

öll þín minning yndisleg

er öðrum veganesti.

Á himin skýin hrannast dökk,

hér við eftir stöndum klökk,

af einlægni skalt eiga þökk,

elsku vinur besti.

(P.Ott.)

Alexander, Guðbjörn,

Hafliði, Pétur, Sigurður Bjarni, Þorgeir og Örn.

Langt um aldur fram sjáum við á bak góðum vini, félaga Sigursteini Gíslasyni. Afreksmanni sem á fáa sína líka. Á vordögum á síðasta ári mátti ljóst vera þegar fréttist af veikindum Sigursteins að framundan væri hörð barátta. Viðhorf Sigursteins gaf tóninn um að ekkert yrði gefið eftir og með jákvæðu hugarfari og einstöku keppnisskapi glímdi hann við veikindi sín af hugdirfsku þess fullviss að hann hefði betur eins og í flestum viðureignum hans á knattspyrnuvellinum. Hugdjörf barátta dugði ekki til og nú er þessi sigursæli vinur allur.

Sigursteinn Gíslason er óumdeilanlega sigursælasti leikmaður íslenskrar knattspyrnu. Hann lék 335 leiki fyrir ÍA og skoraði í þeim leikjum 41 mark áður en hann gekk til liðs við KR og hann lék 22 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari með Skagaliðinu og tvisvar bikarmeistari en að auki vann hann fjóra Íslandsmeistaratitla með KR og einn bikarmeistaratitil. Sigursteinn var árið 1994 kosinn besti leikmaður Íslandsmótsins og á haustdögum 2011 var hann sæmdur gullmerki KSÍ og er þá fátt eitt talið af viðurkenningum í hans garð og afrekum. Að knattspyrnuferlinum loknum tóku við þjálfarastörf og þar sannaði Sigursteinn enn á ný þekkingu sína á knattspyrnu, útsjónarsemi og góða hæfileika. Sigurviljinn var í eðli hans og nutu allir þeir sem með fylgdust – samherjar jafnt sem andstæðingar.

Umfram allt var Sigursteinn leiðtogi innan vallar sem utan, hvers manns hugljúfi, góður drengur og heill. Það sýndi hann ætíð á vettvangi knattspyrnunnar ekki síður en gagnvart sínum nánustu, eiginkonu sinni og börnum.

Lífsviðhorf Sigursteins í mótlæti er öðrum til eftirbreytni. Í júnímánuði á síðasta ári stóðu vinir hans og velunnarar, Skagamenn og KR-ingar, fyrir knattspyrnuleik til stuðnings Sigursteini og fjölskyldu hans. Yfir 5.000 manns sýndu þessum góða dreng stuðning sinn í anda og verki með því að mæta á leikinn – og státa fáir leikir á Akranesi af fleiri áhorfendum. Þar brosti Sigursteinn sínu breiðasta og gaf tóninn um að hverri raun yrði best mætt með óbilandi hugrekki, krafti og sigurvilja. Í þeim anda mætti hann þeim mánuðum sem á eftir fylgdu.

Nú standa eftir hlýjar og góðar minningar um þennan brosmilda keppnismann og vin okkar.

Við kveðjum hann með sorg í hjarta og sendum eiginkonu hans, Önnu Elínu Daníelsdóttur, börnum þeirra, Magnúsi Sveini, Unni Elínu og Teiti Leó, og fjölskyldunni allri dýpstu samúðarkveðjur og biðum þeim huggunar á erfiðri stundu.

Sigursteins Gíslasonar verður ætíð minnst sem sigurvegara innan vallar sem utan og eins af bestu drengjum Akraness. Megi sú minning og sá andblær sem fylgdi honum ætíð lifa í hjörtum leikmanna og stuðningsfólks Skagamanna.

Gísli Gíslason, formaður Knattspyrnufélags ÍA,

Gunnar Sigurðsson,

fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA,

Jón Gunnlaugsson,

fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA.

Kveðja frá KR

Dimmur mánudagur, sorgarfréttir, vinur okkar Sigursteinn Gíslason látinn langt um aldur fram. Minningarnar ótalmargar og ljúfar enda vandfundinn annar eins snillingur. Sigurvegarinn sem heillaði alla, jafnt samherja sem andstæðinga á vellinum veiktist síðastliðið sumar. Steini talaði mannamál, baráttan yrði erfið. Æðruleysið ótrúlegt gegn erfiðasta andstæðingnum til þessa. Leik er nú lokið alltof snemma þrátt fyrir allan baráttuviljann og mann setur hljóðan, söknuðurinn mikill. Ótrúlegur karakter og meistari fallinn frá í blóma lífsins.

Steini kom ungur til KR í 2. flokk og hreif strax KR-inga með sinni nærveru. Sjálfur fékk ég stundum „skutl“ heim hjá meistaranum eftir mínar æfingar ef maður missti af strætó. „Á ég að skutla þér Strumpur“? og svo hló hann dátt. Steini fékk síðan smjörþefinn af meistaraflokki félagsins en snéri í heimahagana og var magnaður í 10 ár á Skaganum í frábæru liði. Eftir glæstan feril með ÍA og landsliðinu kom Steini til KR haustið 1998 og afrek hans tala sínu máli, tvöfaldur meistari á fyrsta tímabilinu og í kjölfarið bættust þrír titlar til viðbótar. Vissulega var liðið okkar gott og líklegast nokkrir betri en hann í fótbolta en hann var sigurvegari og leikgleðin, baráttuandinn sem og einstakur karakter lyfti Steina á hæsta stall, og um leið einnig KR. Þúsund þakkir, Steini, fyrir að hafa ekki farið út í atvinnumennsku þegar þér bauðst það. Steini fór þó í stuttan tíma á lánssamningi til Stoke. Sjálfur fór ég á leik en Steini var meiddur en lagði þó hart að mér að koma í heimsókn í a.m.k. einn kaldan. Pabbi minn heitinn var með í för og reyndist heimsóknin á heimili þeirra Steina, Önnu og Magnúsar vera toppurinn sem gleymist ekki.

Steini þjálfaði hjá KR 2. flokkinn, var aðstoðarmaður í meistaraflokki og tók síðan tímabundið við liðinu og sigldi skútunni í örugga höfn eitt sumarið. Okkur var ljóst að hann stefndi hátt sem þjálfari og það kom sá dagur að Steini söðlaði um. Við glöddumst mjög yfir mögnuðum árangri hans með Leikni og öllum var ljóst að fagmennskan og ástríðan var engu minni við hliðarlínuna en inni á vellinum sjálfum. Tengslin, vináttan og nærvera Steina var þó alltaf til staðar. Hann var Skagamaður og KR-ingur, sagði það margoft sjálfur og er lýsandi dæmi um þá gagnkvæmu virðingu sem á milli liðanna ríkir. Ágóðaleikurinn síðastliðið sumar bar þess glögg merki er vinir Steina og Önnu tóku til sinna ráða og fylltu Akranesvöllinn. Það verður skrýtið að sjá hann ekki á sínum stað á KR-vellinum við hlið Önnu næsta sumar en ég hef staðfesta trú á því að lýsingar Bjarna Fel í KR-útvarpinu nái til himna og veit þar af leiðandi að Steini mun verða vel upplýstur um gang mála.

Elsku Anna Elín, Magnús, Unnur og Teitur, við KR-ingar biðjum fyrir ykkur og ætlum Guði að veita ykkur og aðstandendum allan þann styrk sem um getur. Minningin um einstakan fjölskyldumann, vin okkar allra og meistarann Sigurstein Gíslason mun klárlega lifa um ókomna tíð.

Kristinn Kjærnested,

formaður knattspyrnu-

deildar KR.

Kveðja frá Knattspyrnusambandi Íslands

Knattspyrnuhreyfingin hefur misst góðan félaga, Sigurstein Gíslason, sem var kallaður af leikvelli lífsins aðeins 43 ára.

Sigursteini kynntist ég þegar hann var leikmaður í 2. aldursflokki. Áhugi hans á knattspyrnu var mikill og hæfileikaríkur var hann. Keppnisskapið var einstakt sem og sigurviljinn. Hann var maður liðsheildarinnar og kunni að gefa af sér enda var hann strax í 2 . aldursflokki fenginn til að þjálfa yngstu iðkendurna. En þjálfun varð að bíða því að við tók glæsilegur ferill Sigursteins innan vallar í meistaraflokki og sigrarnir urðu margir. Sigursteinn varð oftar Íslandsmeistari í knattspyrnu en nokkur annar leikmaður af hans kynslóð eða níu sinnum með Akranesi og KR.

Hann var stoltur að leika fyrir Íslands hönd og alls lék hann 22 landsleiki á tímabilinu 1993-1999. Þá lék Sigursteinn um skamma hríð erlendis með Stoke City veturinn 1999-2000.

Sigursteinn hafði að loknum leikmannsferli sínum fetað sín fyrstu spor í þjálfun í meistaraflokki og ljóst var að hann og knattspyrnan yrðu ekki viðskila. Glæsilegur árangur hans með Leikni R. vakti verðskuldaða athygli en hann þjálfaði einnig hjá KR og Víkingi R.

Sigursteinn var sæmdur gullmerki KSÍ fyrir afrek sín 2. desember sl. þegar honum og Gunnari Guðmannssyni voru afhent fyrstu eintökin af síðara bindi 100 ára sögu Íslandsmótsins. Þeir áttu það sameiginlegt að hafa orðið Íslandsmeistarar níu sinnum hvor, en á ólíkum tímabilum. Ég fann vel að Sigursteinn var stoltur af þessum heiðri en við ræddum um baráttu hans fyrir lífinu, hann var augljóslega þjakaður en vonin og sigurviljinn var til staðar.

Á kveðjustundu minnumst við góðs knattspyrnufélaga, en umfram allt góðs drengs sem naut virðingar og hylli.

Knattspyrnuhreyfingin sendir ættingjum Sigursteins, eiginkonu og börnum innilega samúðarkveðju.

Geir Þorsteinsson,

formaður KSÍ.

Haustið 2008 mætti Steini Gísla galvaskur í Leiknisgáminn og ritaði undir samning um þjálfun Leiknis. Steini sagði frá því að nokkrum árum fyrr dreymdi hann draum um að hann væri að starfa í Leikni og þarna rættist það sem hann hafði dreymt. Hann náði strax einstaklega vel til allra innan félagsins og mynduðust tengsl sem margur Leiknismaðurinn mun geyma í minningunni.

Steini varð strax við komuna til Leiknis okkar drengjum mikil fyrirmynd, bæði í afrekum sínum innan vallar en ekki síður í því hvernig hann lifði lífinu utan vallar, enda vart hægt að finna traustari mann en Steina. Hann varð drengjunum stoð og stytta og skilur eftir sig skarð sem aldrei verður fyllt í lífi þeirra.

Vandfundinn er þægilegri maður en Steini Gísla til samstarfs og fyrir lítið íþróttafélag með stórt hjarta er það Guðsgjöf að fá Steina Gísla í lið með sér. Maður sem sýndi metnað en um leið sanngirni, sigurhugarfar en um leið auðmýkt, hörku en um leið kærleik. Hann var knattspyrnumaður sem hafði upplifað þetta allt en um leið saklaus sveitamaður sem raulaði á göngum Leiknishússins lag með Villa Vill sem létti öllum lund.

Eftir standa mýmargar góðar stundir með Steina Gísla sem við Leiknismenn geymum með okkur um öll ókomin ár. Sætir sigrar á knattspyrnuvellinum, kjúklingasúpan hennar Önnu sigtuð af grænmeti fyrir Steina, keppnisskap á æfingum sem átti engan sinn líkan, partí fyrir leikmennina, Tony Pulis-útlitið og margar aðrar kostulegar stundir sem aldrei líða úr minni.

Það hafa verið okkur Leiknismönnum sérstök forréttindi að kynnast Steina Gísla, sem með einkar ljúfu yfirbragði en samt grjóthörðu hugarfari heillaði Leiknisfólk allt með drífandi dugnaði og hreinskilni sem öðrum er til eftirbreytni. Hugur allra Leiknismanna og hjarta er hjá fjölskyldu Steina, Önnu Elínu konu hans og börnunum þremur.

Steini á sér stað í sögu Leiknis og mun sigurhugarfar, andi og áræðni hans um ókomna tíð vera öðrum Leiknismönnum hvatning og innblástur.

Vertu blessaður, kæri Steini okkar.

F.h. Íþróttafélagsins Leiknis,

Arnar Einarsson formaður.

Kæri vinur, nú er komið að leiðarlokum miklu miklu fyrr heldur en eðlilegt má teljast. Ég man fyrst eftir þér sem smápjakk í kringum Merkurtúnið og neðri Skagann. Árin æddu áfram og það var ekki fyrr en samstarf okkar hófst haustið 1990 að tengslin styrktust þegar ég tók við þjálfun ÍA og þú þar sem leikmaður. Þú sýndir strax af þér djörfung og dug, ósérhlífni en það sem skein strax í gegn var jákvæðni og vilji til að gera vel. Það fylgdi þér allt þitt líf. Mesta breytingin á fjölskyldutengslum okkar varð þegar að þú og Anna fluttuð inn á heimilið mitt haustið 1992 til að passa Tjörva og Atla á fjórðu viku vegna dvalar minnar erlendis það haust. Eftir það tókust mjög sterk fjölskyldu og vinatengsl. Heimilið ykkar Önnu var strákunum mínum alltaf opið, ekki bara Atla og Tjörva heldur einnig Bjarna, Jóa Kalla og fóstursyni mínum Leó. Þið hjónin sýnduð strákunum mínum ótrúlega velvild og vináttu alla tíð sem þeir búa að enn þann dag í dag. Stundum undraðist maður umburðarlyndi og velvild ykkar í garð strákanna, það lýsir best þínu hugarfari og þinni alúð.

Ég kynntist þér eins og fyrr segir sem þjálfari þinn, það var alveg sama hvað ég bað þig að gera þú reyndir alltaf að gera þitt besta, þú spurðir oft hvers vegna og af hverju en þú varst alltaf tilbúinn að gera þitt besta og það sem einkenndi þig var sú mikla jákvæðni sem þú bjóst yfir. Þú hafðir þínar skoðanir þú lést alltaf heildina ganga fyrir og liðsandinn skipti þig meira máli heldur en margan. Það var ekkert það verk svo erfitt og krefjandi að þú sæir ekki eitthvað jákvætt við það.

Þú varst fljótur að koma auga á spaugilegu hliðarnar og gera grín á góðlátlegan hátt. Þetta smitaðist inn í hópinn sem var sterkur og samheldinn. Það er hægt að lýsa þér á einfaldan hátt, vinnusemi og velvild bjuggu til magnaðan sigurvegara. Það urðu kaflaskil þegar sjúkdómur þinn greindist. Við áttum gott spjall saman um það leyti þar sem þú sagðir mér að þú ætlaðir að takast á við þetta af æðruleysi og karlmennsku. Þú gerðir það svo sannarlega. Það var gaman að geta átt þær stundir sem við Inga nutum saman með þér, Önnu og börnunum á Flórída í haust. Þær minningar verða vel varðveittar.

Elsku Steini, það er sárt að kveðja þig en því miður skilur leiðir að sinni. Þú sýndir mikið æðruleysi og karlmennsku allt til loka. Þín verður sárt saknað en missir Önnu og barnanna er eitthvað sem enginn getur ímyndað sér. Steini, þú skilur eftir skarð sem verður aldrei fyllt. Ágæta fjölskylda, ef það hefði ekki verið gleði þá væri ekki þessi sorg.

Elsku Anna, Magnús, Unnur Elín og Teitur, megi góður guð gefa ykkur styrk á þessum erfiðum tímum. Minning Steina mun lifa. Vinarkveðja

Guðjón Þórðarson.

Elsku Steini. Engin orð geta lýst því hversu sárt það er að sjá á bak jafn frábærum manni og þér. Þó að þú hafir nú kvatt okkur, vinur, lifir minningin um meistarann Steina Gísla.

Þú sagðir sjálfur að þínir stærstu sigrar væru utan vallar. Að hafa fundið sálufélaga þinn í Önnu Elínu og stofnað með henni fjölskyldu þar sem þrír yndislegir englar eru staðfesting á ást ykkar, það var þinn stærsti sigur. Það var sá sigur sem þú varst stoltastur af. Enda var það eini sigurinn sem þú montaðir þig af. Í þeim sigri skein meistarahæfni þín hvað sterkust í gegn því betri eiginmann og föður er ekki hægt að hugsa sér.

Það sama má segja um okkur sem vorum svo heppin að mega kalla þig vin, því traustari vin er ekki hægt að hugsa sér.

Það er oft að sagt að fólk sýni sitt rétta eðli þegar á móti blæs. Það var á vordögum síðastliðins árs að þú mættir stærsta og erfiðasta andstæðingi sem hægt er að hugsa sér. Engu að síður var engan bilbug á þér að finna og blést þú til sóknar. Í þeirri baráttu áttir þú þér sannarlega öfluga liðsfélaga en engan þó sterkari en hana Önnu Elínu, sem þú kallaðir Klettinn þinn. Sókn þín gekk vel en rétt fyrir jól sneri svo þessi andstyggilegi andstæðingur vörn í sókn og réðist að þér með öllu sínu afli og lét þig svo sannarlega finna til tevatnsins. Þú barðist hetjulega og fórst fremstur í flokki liðs þíns með eldmóðinn að vopni, þar sem Anna Elín stóð þér sterk við hlið. Þó að þú værir orðinn helsærður var ekkert til hjá þér sem hét uppgjöf, heldur hélstu áfram að blása eldmóði í liðsfélaga þína. Þegar ljóst var orðið að andstæðingurinn færi með sigur að hólmi notaðir þú síðustu krafta þína til að hvetja liðsfélagana til dáða svo að þeir gætu tekist á við það sem á eftir kæmi þegar meistarans nyti ei lengur við. Þannig varstu, vinur, það var alltaf fjölskyldan fyrst, vinirnir fyrst, liðið fyrst og síðan þú.

Ég varð þess heiðurs aðnjótandi að fá að berjast með þér í þessari lokabaráttu en þetta var alveg eins og áður er við börðumst á vellinum saman, alltaf var jafn gaman og gefandi að vera nálægt þér, allt var það eldmóður þinn sem dró mann áfram. Alltaf var stutt í húmorinn þinn, þó svo að alvara barátturnar hafi verið okkur öllum kunn. Ég er ánægður og stoltur af því að hafa mátt berjast með þér í lokabaráttunni og að hafa mátt styðja þig eins og ég gat, en það var bara oft spurning hver var að styðja hvern?

Þessar síðustu stundir ræddum við um alla heima og geima. Eins og þér einum var lagið fékkstu mig til að lofa þér nokkrum hlutum. Það fyrsta hef ég nú þegar uppfyllt. Annað er komið í fulla vinnslu og veistu að hún brosti allan hringinn, afmælisgjöfin hitti beint í mark. Það þriðja mun ég leitast við að uppfylla svo lengi sem ég lifi. En það síðasta get ég ekki uppfyllt nema að hluta til, því ég græt sorgartárum nú um stund og syrgi þig, vinur, en er fram líða stundir munu sorgartár breytast í gleðitár eins og þú baðst um.

Elsku Anna Elín, Magnús Sveinn, Unnur Elín og Teitur Leó, megi Guð og englarnir vaka yfir ykkur.

Þórður G.

Sigursteinn Gíslason bar nafn með rentu. Hann var sigurvegari af Guðs náð og kletturinn í hafi liðsfélaga, vina og fjölskyldunnar. Hann var traustsins verður og lét verkin tala, möglunarlaust. Það hlýtur að hafa verið eftirsóknarvert að vera liðsfélagi Sigursteins því hann var leiðtogi, lagði sig allan fram og skipti engu hvort um æfingaleiki eða úrslitaleiki var að ræða. Sá leikmaður sem skartar níu Íslandsmeistaratitlum er einstakur, ekki eingöngu vegna knattspyrnuhæfileika heldur líka sökum persónuleika. Hann skiptir mestu máli á lífsins leið, innan vallar sem utan.

Sigursteinn var aldrei andstæðingur á leikvelli heldur þátttakandi þar sem heiðarleiki, sigurvilji og dugnaður var hafður að leiðarljósi. Slíkir menn eru ekki andstæðingar, heldur leiðtogar, fyrirmyndir sem setja mark sitt á þá sem á vegi þeirra verða.

Ég kynntist Sigursteini upp á nýtt í Portúgal vorið 2011 þegar hann þjálfaði Leikni og ég var fararstjóri ferðaskrifstofunnar sem annaðist liðið. Sem þjálfari og yfirmaður Leiknis var hann fagmaður fram í fingurgóma. Aðeins örfáir þjálfarar og liðsmenn eru sjálfbærir í æfingaferðum, ef svo má að orði komast: ekkert vesen, engin vandamál og ekki yfir neinu að kvarta. Ef taka þurfti til hendinni eða græja hluti gerði hann það sjálfur.

Það er sárt fyrir fjölskylduna að sjá á eftir elskulegum eiginmanni, föður og vini. En því má heldur ekki gleyma að missir Sigursteins er ekki síðri, að fá ekki að leiða börnin sín í gegnum krákustíga lífsins, leiðbeina þeim af hjartans einlægni og kenna þeim áfram að koma heiðarlega fram, líta á alla sem jafningja, eins og einkenndi hann alla tíð. Ég veit að Sigursteinn Gíslason var hetja og sigurvegari fram að hinstu stund. Þannig kom hann í heiminn, þannig vildi hann kveðja og þannig minnumst við hans.

Ég votta elskulegri eiginkonu, börnum, stórfjölskyldu og vinum dýpstu samúð.

Þótt ég sé látinn, harmið mig ekki með tárum, hugsið ekki um dauðann með harmi eða ótta. Ég er svo nærri, að hvert eitt tár ykkar snertir mig og kvelur, þótt látinn mig haldið. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug, lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég, þótt látinn sé, tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu.

(Kahlil Gibran.)

F.h. Knattspyrnufélagsins Vals,

Þorgrímur Þráinsson.

Steini Gísla – „eins og hrísla“ bættir þú gjarnan sjálfur við og glettnin, húmorinn og hlýjan streymdi frá þér. Þannig rifjast upp okkar fyrstu kynni þegar þú komst inn í mfl. KR 1987 og það sumar unnum við einnig saman hjá Ágæti. Fljótlega reyndi ég að þar fór sannur sigurvegari. Þú fórst vel með ómælt keppnisskapið í framkomu og athöfnum og alltaf tilbúinn að gefa af þér, keppni og gleði, þetta fínstillta jafnvægi sem gerði þig að óskoruðum leiðtoga. Keppnisdrifið hugarfar sigurvegarans virtist þér í blóð borið og þér var einkar lagið að búa til keppni í öllu t.d. í hinum ýmsu tækniþrautum og þar stóðst þér nákvæmlega enginn snúninginn. Það ískraði í þér af kátínu þegar þú varst enn að „drilla“ boltanum á ristinni þegar það sauð á undirrituðum, „urrandi“, aftur! Og svo þegar þú „dippaðir“ boltanum á hausnum hefði sennilega einungis einhver af höfrungaættinni getað keppt við þig. Það var mikil eftirsjá að þér þegar þú gekkst til liðs við Skagamenn. Í upphafi 10. áratugarins varst þú svo lykilmaður þar í sannkölluðu sigurliði sem hampaði 5 Íslandsmeistaratitlum. Við endurheimtum þig svo í Vesturbæinn og má alveg færa fyrir því rök að með þér hafi lóðið komið sem vantaði á þær vogarskálar í eftirminnilegum Íslandsmeistaratitli 1999.

Ég átti því láni að fagna að vinna með þér sem þjálfari þegar Íslandsmeistaratitlarnir 2002 og 2003 komu í hús. Vonin að loknum jafnteflisleik við Fylki í Árbænum var veik og þurfti að treysta á aðra í þeim efnum. Á leið inn í klefa bærðust vangaveltur um möguleika okkar. Fyrsti maður sem mætti mér í klefanum var geislandi kátur Steini Gísla. Ég horfði í brosandi andlitið á Steina og hugsaði hvaðan kemur þessi léttleiki? Þessum áhrifamætti sigurvegarans er erfitt að lýsa, en speglast að einhverju leyti í þessari fleygu setningu sem fylgdi, sem ég geymi og aldrei gleymi: „Það er ekki séns að Óli frændi tapi fyrir Alla frænda og það á Skaganum.“ Það gekk eftir og Steini Gísla hampaði enn einum titlinum. Þínir eiginleikar og leiðtogahæfileikar nýttust þér svo sannarlega í þjálfun og það finn ég sem eftirmaður þinn að það var gæfuspor fyrir Leikni að fá þig til sín sem þjálfara. Ég er stoltur af því að fá tækifæri til að vinna á þínum grunni og Steini Gísla á risastórt pláss í hjörtum Leiknismanna.

Eins og í íþróttunum hugsaðir þú ávallt vel um þína og aðdáunarvert fannst mér alltaf hve samrýmd þið hjón, þú og Anna voruð í keppni, starfi og leik íþróttanna í gegnum leikmanna- og þjálfaraferilinn og svo þátttöku barnanna. Áleitnar spurningar vakna og fátt er um svör og vanmáttakendinn leitar á. Megi algóður Guð styrkja þína nánustu og hugur minn er hjá Önnu Elínu, Magnúsi, Unni og Teiti.

Blessuð sé minning þín kæri vinur og foringi.

Willum Þór Þórsson.

Mig langar til að minnast Steina með nokkrum orðum. Ég kynnist Steina fyrst þegar hann er ráðinn þjálfari hjá Leikni í sept. 2008. Hann kom í gáminn og skrifaði undir samning við okkur. Á þessum tímapunkti hvarflaði ekki að mér það sem í vændum var og hvað við áttum eftir að ná vel saman. Sumarið 2010 3. sæti í 1. deild og við fórum að hugsa til baka leik fyrir leik og hversu nálægt því við voru að ná því markmiði sem stefnt var að, ræddum það fram og til baka og alltaf sagði Steini: „Bjarni, þetta er bara fótbolti“. Ég verð að segja að ég átti erfitt með að sætta mig við það, en í dag þegar þetta er skrifað þá hugsa ég um þessi orð hans og já „þetta er bara fótbolti“. Það er svo margt annað í lífinu sem við þurfum að takast á við annað en þessi bolti. Það átti svo sannarlega eftir að koma í ljós á vormánuðum 2011, undirbúningstímabilið var á fullu við vorum búnir að fara í æfingaferð með strákana til Portúgals og svo skall á okkur eitthvað sem enginn átti von á, Steini fór að finna fyrir einhverjum óþægindum. Ég man það eins og það hafi gerst í gær, hann var með „endurheimt“ á laugardegi og var eitthvað að finna fyrir einhverju í síðunni, var eitthvað slappur, svo fór hann á spítalann á sunnudegi og þá kom í ljós að hann var orðinn veikur. Mikið áfall og við tók mjög erfiður tími, en Steini ákvað að taka því með æðruleysi og takast á við þetta verkefni eins og svo mörg önnur á lífsleiðinni. Steini fór í veikindaleyfi hjá Leikni og síðar var tekin ákvörðun um að skipta um þjálfara. Þrátt fyrir þetta mætti fjölskyldan á völlinn upp í Breiðholt, leik eftir leik og stóð á hólnum og hvatti drengina áfram út sumarið því hann átti svo mikið í þessum strákum. En við héldum áfram að fara á völlinn hvort sem var í 1. deild eða úrvalsdeild og það lá við að ég fengi excel-skjal frá honum á sunnudegi með dagskrá vikunnar. Og einhvern tímann var það þannig að við gátum farið á 3 leiki sama daginn. Og það var svo gaman að fara með Steina á völlinn, þá sá maður hversu vinmargur hann var og hversu mikil virðing var borin fyrir honum og það skipti ekki máli á hvaða velli við fórum. Þegar sumrinu lauk myndaðist tómarúm hjá okkur félögum og við biðum spenntir eftir því að æfingaleikir haustsins byrjuðu, og um leið og þeir fóru af stað fórum við á þá leiki sem í boði voru, þó oftast á Leiknisleiki. En svo kom að því að Steini þurfti að fara á spítalann og mikið þótti manni lífið vera ósanngjarnt; að horfa á hann og geta ekkert gert til að hjálpa honum, maður var bara eitthvað svo máttvana gagnvart því sem var að gerast, en þær stundir sem við áttum saman voru svo góðar. Þó svo að ég hafi ekki þekkt Seina lengi áttum við góða vináttu og ég á seint eftir að gleyma þessum góða manni sem talaði aldrei illa um nokkurn mann og var góðmennskan ein frá toppi til táar.

Elsku Anna, Magnús, Unnur og Teitur, megi góður guð vera með ykkur í þessari miklu sorg. Minning um góðan eiginmann og föður mun lifa um ókomna tíð.

Blessuð sé minning hans.

Bjarni Björnsson.

mbl.is/minningar

Öðlingsdrenginn með gullhjartað kveðjum við með söknuði. Leiðir okkar lágu saman hjá TVG-Zimsen snemma eftir aldamót. Hann varð á stuttum tíma afar góður vinur okkar stelpnanna. Við tókum daglega á móti honum syngjandi þegar hann gekk inn um dyrnar; „Steini Gísla“ og hann söng til baka „eins og hrísla“ sem var toppað með eins og einu dansspori. Hann hafði einstaka færni í mannlegum samskiptum og var réttsýnn og sanngjarn. Hann tókst á við lífið og tilveruna með björtum augum, brosmildi, jákvæðni og báða fætur á jörðinni. Hann var einstaklega skemmtilegur, með flugbeittan húmor, sagði skemmtilega frá og náði athygli manns á núll einni með því að horfa beint í augun á manni og kom þannig skemmtilegum frásögnum og fyndnum atvikum frá sér á mjög persónulegan hátt. Enda var hann hrókur alls fagnaðar. Hann var líka gæddur þeim hæfileika að hlusta, og gerði það vel ásamt því að gefa manni góð ráð og jafnvel gefa manni réttari sýn á aðstæður, hvort sem það var vinnutengt eða í persónulegum málum. Honum var alls ekki sama um vini sína og var fyrstu manna til að athuga hvernig maður hefði það ef eitthvað bjátaði á. Við hlökkuðum alltaf til að mæta í vinnuna því við vissum að hver einasti dagur yrði góður dagur. Vandamál voru leyst á jákvæðan og skjótan máta og skapaði Steini einstaklega gott andrúmsloft á skrifstofunni enda ekki lengi að hrósa manni fyrir vel unnin störf. Á milli vinnutarna sátum við með rjúkandi kaffisopa á fremsta bekk í sögustund með Steina Gísla sem hélt á kóki í dós og reytti af sér ævintýrin. Oftar en ekki var það hápunktur dagsins.

Hann sagði okkur sögur úr fótboltanum, eða fallegar sögur af konunni sinni sem hann talaði um af mikilli aðdáun, sögur af börnunum sínum sem voru hans ljósgeislar í lífinu eða sögur af einhverjum stórkostlegum óhöppum, eða öðru. Örstutt atvik urðu stundum að 15 mínútna ævintýralegri frásögn. Stundum vorum við stelpurnar gáttaðar á því hvaðan Steini fengi alla þessa orku þar til við kynntumst Önnu Elínu sem Steini kallaði alltaf betri helminginn eða klettinn í lífi sínu. Með smitandi hlátri sínum og einstakri nærveru fyllti hún skrifstofuna af orku og lífi. Þar með lögðum við saman tvo og tvo og fengum út að Steini ætti þarna frábærasta meðspilara í lífinu sem gerði honum kleift að áorka öllu því sem hann tók sér fyrir hendur. Þvílík forréttindi það voru að fá að kynnast þeim.

Saman voru þau hjónin einstök heild sem svo sannarlega lífgaði upp á daglega tilveru okkar, framkallaði ófá brosin, hlátrasköll og gleðitár. Öðlingurinn skilur eftir sig djúp spor í hjarta okkar, kenndi okkur margt um lífið og tilveruna og má með sanni segja að við urðum betri manneskjur á hverjum degi í návist hans.

Elsku Steini, takk fyrir að gæða líf okkar gleði og birtu – við kveðjum þig með miklum söknuði og munum varðveita um ókomna framtíð allar þær gleðistundir sem við vorum svo heppnar að fá að njóta með þér og ykkur hjónum í gegnum tíðina.

Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar og nánustu aðstandenda.

Unnur Eir Magnadóttir og Lovísa Kristín Einarsdóttir.

Meistari, góður félagi, vinur og einstakt ljúfmenni er fallinn frá eftir stutta en hetjulega baráttu við hinn illvíga sjúkdóm sem krabbameinið er. Við feðgarnir áttum því láni að fagna að kynnast Steina Gísla eins og hann var jafnan kallaður og þá bæði í vinnu og svo auðvitað í tengslum við knattspyrnuna sem átti hug hans allan. Þvílíkt óréttlæti kom einna fyrst upp í hugann þegar Steini greindist með þannan illvíga sjúkdóm á síðasta ári. Við feðgarnir vorum þó alltaf sannfærðir um að ef einhver gæti sigrast á þessum sjúkdómi að þá væri það Steini Gísla. Það er svo óraunverulegt að sitja hér við borðið og skrifa þessa minningargrein, það er erfitt að sætta sig við þá staðreynd að hinn mikli meistari sé fallinn frá aðeins 43 ára að aldri.

Það var alltaf gaman að hitta Steina og spjalla, en hann var alltaf svo líflegur og einlægur í öllum samræðum. Hann minntist oft á ferðirnar til Orlando sem fjölskyldan hafði farið á undanförnum árum og talaði um að þar hefði fjölskyldunni liðið vel og börnin notið sín vel í hitanum og því fjölbreytta umhverfi sem þar er að finna.

Steini var einstakur samstarfsmaður hjá Eimskip og var einkar duglegur að koma með ábendingar um hvað betur mætti fara á vinnustaðnum, honum varð vel til vina, var vel liðinn og hugsaði stöðugt um vinnuumhverfið með velferð starfsfólksins í huga. Sigursteinn var sannur Eimskipsmaður og félagið getur verið stolt af framgöngu hans og ómældum áhuga á starfsemi félagsins. Skarð hans verður vandfyllt.

Knattspyrnan var alltaf ofarlega í huga hjá Steina eins og allir vita sem þekktu kappann. Steini var einn af sigursælustu knattspyrnumönnum landsins og of langt mál væri að telja upp alla þá titla og þann frækilega árangur sem hann náði á sínum ferli bæði sem leikmaður og þjálfari.

Við lítum á það sem mikinn heiður að hafa fengið að kynnast Steina, þessum mikla sigurvegara og toppmanni í hverju því sem hann tók sér fyrir hendur. Steini fær nýtt hlutverk á nýjum stað, það er alveg klárt mál.

Hvíldu í friði, kæri vinur, þín er sárt saknað.

Ljósið flæðir enn um ásýnd þína:

yfir þínum luktu hvörmum skína

sólir þær er sálu þinni frá

sínum geislum stráðu veginn á.

Myrkur dauðans megnar ekki að hylja

mannlund þína, tryggð og fórnarvilja

– eftir því sem hryggðin harðar slær

hjarta þitt er brjóstum okkar nær.

Innstu sveiflur óskastunda þinna

ennþá má í húsi þínu finna –

þangað mun hann sækja sálarró

sá er lengst af fegurð þeirra bjó.

Börnin sem þú blessun vafðir þinni

búa þér nú stað í vitund sinni:

alla sína ævi geyma þar

auðlegðina sem þeim gefin var.

Þú ert áfram líf af okkar lífi:

líkt og morgunblær um hugann svífi

ilmi og svölun andar minning hver

– athvarfið var stórt og bjart hjá þér.

Allir sem þér unnu þakkir gjalda.

Ástúð þinni handan blárra tjalda

opið standi ódauðleikans svið.

Andinn mikli gefi þér sinn frið.

(Jóhannes úr Kötlum.)

Við sendum fjölskyldu Sigursteins og vinum innilegar samúðarkveðjur.

Haukur Örn Jóhannesson.

Óskar Örn Hauksson.

Það var fyrir 21 ári að við óharðnaðir unglingar ákváðum að flytja á Akranes og byrja að búa, spila fótbolta og fara í skóla. Á móti okkur tóku Anna og Steini sem bjuggu í næsta stigagangi og varð samgangur og vinskapur strax mikill og hefur haldist allar götur síðan. Í gegnum Önnu og Steina kynntumst við mörgu góðu fólki af Skaganum og enn í dag leitar hugurinn oft til gamalla og skemmtilegra tíma þar. Við gerðum mikið af því að spila hin ýmsu spil og var það oftast Steini sem vann okkur en eins og við grínuðumst oft með þá leyfði ég honum að vinna því keppnisskapið var mikið en það var ekki alveg rétt því Steini var ljúflingur í alla staði. Minningar mínar með Önnu og Steina eru svo margar og góðar að það myndi líklega fylla heila bók ef ég ætti að rifja þær allar upp. Mér verður illt í hjartanu þegar ég hugsa til þess að ekki verða fleiri minningar skapaðar með Steina í fararbroddi, en lengi munum við lifa með þær góðu minningar sem við eigum, um stórkostlegan vin og félaga. BÓ var í miklu uppáhaldi hjá okkur Önnu og Steina og alltaf þegar við gerðum okkur glaðan dag þá var hækkað í tækjunum og við sungum hástöfum með, helst uppi á borðum, þeim sem náðu að halda þunga okkar.

Með miklum trega og sorg í hjarta kveð ég kæran vin og frábæran mann með texta úr laginu Vetrarsól:

Hvers virði er allt heimsins prjál

ef það er enginn hér

sem stendur kyrr

er aðrir hverfa á braut.

Sem vill þér jafnan vel

og deilir með þér gleði og sorg

þá áttu minna en ekki neitt

ef þú átt engan vin.

Hvers virði er að eignast allt

í heimi hér

en skorta þetta eitt

sem enginn getur keypt.

Hversu ríkur sem þú telst

og hversu fullar hendur fjár

þá áttu minna en ekki neitt

ef þú átt engan vin.

Það er komin vetrartíð

með veður köld og stríð.

Ég stend við gluggann

myrkrið streymir inn í huga minn.

Þá finn ég hlýja hönd

sál mín lifnar við,

eins og jurt sem stóð í skugga

en hefur aftur litið ljós.

Mín vetrarsól.

(Ólafur Haukur Símonarson.)

Elsku Anna, Magnús, Unnur og Teitur, megi von, trú, fjölskyldan, góðir vinir og frábærar minningar styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum. Ég verð til staðar til að hjálpa ykkur að halda í minninguna um kæran eiginmann og yndislegan pabba. Kærleikskveðja til ykkar frá Maju.

María Jónatansdóttir.

Elsku Steini, það er ótrúlegt og ég varla trúi því að ég sé að skrifa minningargrein um þig. Það er erfitt að sætta sig við að þú sért ekki lengur á meðal okkar og ég spyr hver sé tilgangurinn með að maður eins og þú í blóma lífsins, er tekinn frá fjölskyldu sinni á besta aldri og er fátt um svör.

Ég man eins og gerst hafi í gær eftir símtali sem ég fékk frá þjálfara KR Atla Eðvaldssyni að það væri líklegt að Steini Gísla væri að koma til okkar og spila með okkur árið 1999. Ég var þá aðstoðarþjálfari liðsins. Mín fyrstu viðbrögð voru að þetta væri maðurinn sem KR þarf og kom það á daginn. KR hafði ekki unnið þann stóra í meira en 30 ár en oft verið nálægt því.

Þegar Steini kom á fyrstu æfinguna hjá KR var eins og allt breytist, það var komin sigurvegari á æfingu. Það var kominn sigurvegari í KR og hann fékk alla með sér. Um haustið 1999 var sá stóri kominn í hús og KR varð einnig bikarmeistari.

Við vorum síðan saman í þjálfaraliði KR sem varð Bikarmeistari árið 2009 undir stjórn Loga þá var Steini aðstoðarþjálfari.

Steini var svo ráðinn til starfa hjá Leikni og þar gerði hann frábæra hluti á stuttum tíma og sýndi að þar var á ferð einn af bestu þjálfurum landsins og var það heiður fyrir mig að fá að aðstoða hann þar við þjálfun markmanna.

Það var frábært að vinna með þér og þú hafðir jafnan skoðanir á hlutunum og síðasta orðið.

Þú sýndir það í verki hvaða mann þú hafðir að geyma þegar þú lést af störfum sem þjálfari Leiknis að þú hélst áfram að koma á völlinn. Þú studdir strákana og gafst nýjum þjálfara upplýsingar um leikmenn og andstæðinga. Þú gafst strákunum þínum styrk með nærveru þinni. Allt þetta hjálpaði Leikni að halda sæti sínu í 1. deild.

Eins verður skrítið að mæta á KR völlinn og sjá þig ekki á svæðinu með Leiknisregnhlífina.

Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þér og þekkja þig og vera vinur þinn.

Með söknuði kveð ég þig, elsku Steini, og bið góðan guð að styrkja hana Önnu þína og börnin ykkar en það er huggum harmi gegn að við vitum að núna er þjáningum lokið og þú vakir yfir þeim fjársjóði sem fjölskyldan þín er.

Takk fyrir allt og allt.

Guðmundur Hreiðarsson.

Í dag kveðjum við Sigurstein Gíslason, góðan vin okkar. Við kynntumst Steina árið 1986 þegar hann kom til KR og lék með okkur knattspyrnu í 2. flokki. Strákur af Skaganum sem við könnuðumst við. Ekki vissum við mikið um piltinn en það breyttist mjög fljótt. Steini kom sterkur inn á æfingar frá fyrsta degi og talaði mikið og stjórnaði mönnum í kringum sig. Hann var ekki feiminn, lét vita af sér, hafði gríðarlegt keppnisskap og vildi alltaf vinna. Það kom snemma í ljós að þarna var á ferðinni mikill sigurvegari. Sigrar hans á knattspyrnuvellinum, bæði með KR og Skagamönnum, eru sönnun þess. Það kom líka berlega í ljós, þegar við ásamt mörgum góðum félögum Steina héldum honum og fjölskyldu hans styrktarleik á Akranesi síðastliðið sumar. Yfir 4.000 manns komu þar saman til að sýna stuðning sinn í verki. Engan hafði órað fyrir því að unnt væri að fá svo marga áhorfendur á þennan leik. Sá fjöldi fólks sem safnaðist þarna saman er vottur þess hve mikinn og góðan orðstír hann hafði skapað sér.

Steina verður sárt saknað í okkar félagsskap. Undanfarin ár höfum við umgengist mikið í leik og starfi. Við hittumst reglulega í KR-heimilinu. Börnin okkar voru saman í íþróttum og skóla. Við strákarnir í Mánudagsboltanum og öðrum félagsstörfum innan KR.

Steini skilur eftir sig stórt skarð sem aldrei verður fyllt, en minning um góðan vin mun lifa í hjarta okkar um ókomna tíð.

Hvíldu í friði, elsku vinur, og vertu meðvitaður um að þegar við verðum allir komnir til þín þá verða sömu lið.

Við vottum aðstandendum Sigursteins okkar dýpstu samúð.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum.)

Rúnar Kristinsson, Guðni Grétarsson og fjölskyldur.

HINSTA KVEÐJA
Far þú í friði kæri vinur eftir lífsbaráttu síðustu mánaða. Hjartans þakkir fyrir allt sem þú færðir drengnum mínum. Það mun hann varðveita alla tíð. Við gerum okkar einlægasta til þess að færa Önnu þinni, Magnúsi, Unni og Teiti, styrk í sorginni. Þessi veröld verður ekki söm án þín en nú fá þeir sem á öðrum stað dvelja að njóta hlýju þinnar, skopskyns og örlætis. Þú skilar kveðju.
Ragnheiður.