Einar Helgi Sigurðsson fæddist á Akureyri 8. nóvember 1947. Hann lést 15. janúar 2012.
Einar Helgi var sonur hjónanna Sigurðar Odds Sigurðssonar, f. 1922, d. 1989, og Herdísar Sigurjónsdóttur, f. 1922. Systkini Einars eru Íris, f. 1948, Sólveig, f. 1950, og Guðráður Óttar, f. 1961.
Einar kvæntist Guðrúnu Hólm Snorradóttur, f. 1949, árið 1968. Þau skildu. Börn Einars og Guðrúnar eru: 1) Valur Þór, f. 1969, kvæntur Helgu Pálsdóttur, f. 1970. Börn Vals og Helgu eru Darri Már, f. 1997, Breki, f. 1999, Malín, f. 2001, og Rökkvi, f. 2005. Börn Vals frá fyrri samböndum eru Perla, f. 1990, og Máni Þór, f. 1995. 2) Sigurður Oddur, f. 1972, kvæntur Álfheiði Mjöll Sívertssen, f. 1973. Börn þeirra eru Theodór Tristan, f. 2002, Sindri Valur, f. 2007, og Rebekka Lilja, f. 2008. 3) Eva Nína, f. 1980, í sambúð með Tómasi Höskuldssyni, f. 1979. Börn þeirra eru Tristan Máni, f. 2005, og Birta, f. 2007.
Einar Helgi nam kjötiðn og vann lengst af við þá iðn ásamt ýmsum öðrum störfum.
Einar Helgi verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 26. janúar 2012, kl. 15.
Elsku pabbi minn, ég vona að þú vitir það að þú varst einstakur pabbi og allra besti afi í heiminum. Ég fæ aldrei þakkað þér nóg fyrir allar þær yndislegu og dýrmætu stundir sem þú gafst börnunum mínum og þá sérstaklega litla drengnum mínum, litla fílnum okkar sem að man allt eins og það hafi gerst í gær. Litli afastrákurinn sem sá ekki sólina fyrir þér og grobbaði sig svo oft af því að hann ætti heimsins besta afa sem hann elskaði svo mikið.
Ég er svo þakklát fyrir allar heimsóknirnar þínar til Danmerkur og góðu tímana okkar saman. Þú gafst mér aukakrafta við námið og hresstir upp á tilveruna. Þú varst mín stoð og stytta í svo mörgu. Þú kenndir mér að gleði, jákvæðni og þakklæti kemur okkur langt.
Þú kunnir listina að njóta lífsins, ekki þurfti mikið til hjá þér, eina veiðiferð, göngutúr í náttúrunni, sprengja almennilega bombu eða bara að leika með öllum afabörnunum þínum. Þú fannst gleði í hlutum sem aðrir hugsa ekki einu sinni um.
Við sprengjum víst ekki saman fleiri ár í burtu en ég lofa því að sprengja þau upp með stæl til heiðurs þér. Ekkert var jafn skemmtilegt og áramót með sprengjuóða þér. Þú hafðir svo ótrúlega gaman af að sprengja allt sem hægt var.
Já, pabbi minn, hér sit ég með lítið brostið hjarta fullt af sorg og vanmætti og óska þess að þú værir ennþá hjá mér. Eftir þessa þungu og erfiðu tíma skil ég þig svo vel og jafn sárt og það er að þurfa að kveðja þá veit ég að þú ert á betri stað. Ég veit að Bússi afi hefur tekið á móti þér með opnum örmum og að þú ert umvafinn ást og hlýju með afa og öllum englunum.
Guð blessi og verndi fallegu sálina þína, elsku pabbi minn, og mundu að ég elska þig af öllu hjarta.
Hvíl í friði, elsku gullið mitt.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
Drottinn minn faðir lífsins ljós
lát náð þína skína svo blíða.
Minn styrkur þú ert mín lífsins rós
tak burt minn myrka kvíða.
Þú vekur hann með sól að morgni.
Faðir minn láttu lífsins sól
lýsa upp sorgmætt hjarta.
Hjá þér ég finn frið og skjól.
Láttu svo ljósið þitt bjarta
vekja hann með sól að morgni.
Drottinn minn réttu sorgmæddri sál
svala líknarhönd
og slökk þú hjartans harmabál
slít sundur dauðans bönd.
Svo vaknar hann með sól að morgni.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Þín dóttir,
Eva.
Þá hefur þú kvatt þetta líf.
Og það er erfitt að hugsa til þess að við sjáum þig ekki aftur hérna megin. Núna þegar þorrinn er nýbyrjaður finnst mér skrítið að fá ekki að borða með þér þorramat oftar. Ég man að þér þótti fátt betra og komst alltaf með vel útilátið trog til mömmu á meðan hún hélt heimili. Þú varst svo skemmtilegur, hress og kátur.
En svona er lífið, og þetta þurfum við sem eftir lifum að læra að sætta okkur við.
Þú varst nú oft ansi uppátektarsamur þegar við vorum að alast upp í Bústaðahverfinu og tókst gjarnan þátt í strákapörum þar. Enda krakkaskarinn stór og mikið frelsi á þeim árum.
Þú fórst snemma til sjós og sigldir á Fossunum eins og sagt var og ég man enn þá eftir svarta leðurjakkanum sem þú keyptir handa mér. Mikið sem hann var flottur.
Það er margs að minnast og margt ber að þakka t.d. hvað þú varst mínum börnum og barnabarni ávallt góður. Eins hvað þú hugsaðir vel um mömmu og barst hag hennar fyrir brjósti.
En mig brestur orð á þessari stundu og þegar minningarnar rifjast upp fyllist hjartað af sorg. Þess vegna mun ég ekki hafa þetta lengra hér. En mun halda áfram að minnast þín og smám saman verður vonandi auðveldara að brosa og hlæja að skemmtilegum minningum um góðan bróður.
Farðu í friði, elsku Einar minn.
Þín systir
Íris.
Þar sem englarnir syngja sefur þú
sefur í djúpinu væra.
Við hin sem lifum, lifum í trú
að ljósið bjarta skæra
veki þig með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Elsku frændi minn. Ég á eftir að sakna þín. Þú varst svo hjartahlýr og góður frændi.
Þegar ég hugsa um þig núna rifjast upp fyrir mér þegar ég lenti í smábílslysi einu sinni á aðfangadag, á leiðinni heim til ömmu Dísu. Ég gleymi því aldrei hvernig þú tókst á móti mér í dyrunum hjá ömmu. Þú tókst utan um mig með tárin í augunum og sagðir: „Skítt með bílinn, Dísa mín, guði sé lof að þú ert ómeidd.“
Þá fékk ég tár í augun vegna þess að ég fann og sá hvað þér þótti vænt um mig.
Við vorum svolítið lík að þessu leyti, gátum tárast auðveldlega hvort sem var af gleði eða sorg.
Við tvö áttum líka annað sameiginlegt. Svolítið sem við ræddum ekki mikið en núna þegar ég lít til baka velti ég því fyrir mér hvort þér hafi stundum fundist allur heimurinn yndislegur, skemmtilegur og fallegur. Kannski leið þér stundum svo vel að það var eins og hjartað þitt væri fullt af ást og svo mikil hamingja að það var líkast því að vera í fallegum draumi.
Þangað til að allt í einu kom svo rosalega stór sorg í hjartað, svo djúp sorg og mikil vanlíðan að lífið virtist óbærilegt. Og þá er erfitt að vera til.
Þú ert ekki sá fyrsti sem gefst upp fyrir þessum sjúkdómi. Ég sá það sjálf hvað þér leið rosalega illa í lokin. En ég ætla ekki að muna eftir þér eins og þú varst þá. Vegna þess að þú varst ekki sá maður. Þú varst skemmtilegur, góður frændi, pabbi og afi sem varst stoltur af hverju einasta barnabarni og fannst gaman að segja frá þeim.
Ég veit að börnin þín, tengdabörnin og barnabörnin eiga margar góðar minningar um þig á góðum stundum. Og minning þín lifir áfram í okkur sem gleymum þér aldrei. Ég hlakka til að sjá þig aftur, elsku frændi minn, á betri stað þar sem engum líður illa.
Farðu í friði vinur minn kær
faðirinn mun þig geyma.
Um aldur og ævi þú verður mér nær
aldrei ég skal þér gleyma.
Svo vöknum við með sól að morgni.
(Bubbi Morthens.)
Dísa B. Bjarnadóttir.
Það er ekki einfalt að mynda traust vináttusamband við stopul kynni. En Einari mági mínum kynntist ég mætavel, svo og konu hans og börnum. Hann var broshýr og viðræðugóður, léttur í lund á þessum tíma, var að fullgera hús í Mosfellssveitinni. Ég naut þess að heimsækja hann og eiga með honum stund yfir mat og drykk.
Einar var vel að sér í sinni iðngrein, kjötiðnaðinum, fínn fagmaður. Í samræðum og allri viðkynningu var hann hreinskiptinn, hjartahreinn og stundum barnslega einlægur, sem mér fannst svo ágætt við hann. Oft var glettnissvipur í augunum og hlátur hans dillandi og smitandi. Því var mér brugðið þegar ég hitti hann síðast. Þá hafði dofnað mikið yfir þessum glaðværa manni; hann var hokinn af óyndi og depurð.
Sorglegt er til þess að hugsa að geðheilsu hans skuli hafa hrakað svo hin síðari ár, að nú er lífi hans lokið. Ég áfellist hann ekki fyrir að hafa ákveðið einn og sjálfur að setjast núna upp í gullvagninn sem segir frá í laginu sem Björgvin syngur:
„Já herra, sendu nú gullvagninn að sækja mig.
Gættu mín, geymdu mig, gefðu mér friðinn.
Langt hef ég farið og mig langar heim.“
(Jónas Friðrik.)
Ég verð hnugginn þegar ég hugsa til þess að ekki tókst að finna honum samastað við hæfi og góða meðferð við sjúkleikanum sem hann glímdi við. En ég hugga mig þá við lestur texta úr Davíðssálmum:
„Jafnvel þótt ég fari um dimman dal, óttast ég ekkert illt, því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig.“ „Já, gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína, og í húsi Drottins bý ég langa ævi.“ (23. Davíðssálmur.)
Guð blessi Einar Helga Sigurðsson og líkni aðstandendum hans, börnum og systkinum og aldraðri móður. Minningin um góða daga hans mun lifa.
Bjarni Dagur Jónsson.
Ég fer
yfir heiði
gegnum svartamyrkur og vængjaðir
minkar svífa kringum
mig
Ég fer
yfir haf
gegnum svartamyrkur og náttfuglar
setjast í bátinn
minn
Ég er
aldrei
alveg
einn.
(Gyrðir Elíasson.)
Guð geymi þig, elsku bróðir minn.
Þín elskandi systir,
Sólveig.