General Motors hefur gengið í endurnýjun lífdaga eftir nokkurra ára erfiðleika af völdum fjármálakreppunnar og er nú aftur orðinn stærsti bílaframleiðandi heims. Er þetta merkilegt í ljósi þess, að GM rambaði á barmi gjaldþrots fyrir tveimur árum.
Fyrirtækið neyddist til að fara fram á greiðslustöðvun og fékk fjárhagsaðstoð frá ríkinu til að vinna á vandanum. Hefur stjórnendum þess í framhaldinu tekist að sigla GM út úr hafróti erfiðleikanna, upp úr öldudalnum og aftur inn á lognsævi. Og til marks um viðsnúninginn varð 7,1 milljarða hagnaður af rekstrinum fyrstu níu mánuði nýliðins árs. Greinendur búast við enn hærri tölu þegar uppgjör rekstrarársins í heild liggur fyrir í febrúar.
Metsala á einu ári
Er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2008 sem General Motors er aftur á toppnum en þangað kleif bílasmiðurinn með því að selja rúmlega 9,03 milljónir bíla í fyrra, 2011. Er þar um að ræða 7,9% aukningu frá árinu áður, 2010. Þar af seldust 4,76 milljónir Chevroletbíla, sem er metsala á því merki á einu ári í sögu GM.General Motors hafði verið söluhæsti bílaframleiðandi heims í sjö áratugi í röð er japanski bílsmiðurinn Toyota velti fyrirtækinu bandaríska úr toppsætinu fyrir fjórum árum. Nú er Toyota þónokkuð að baki, í fjórða sæti með 7,9 milljónir seldra bifreiða.
Náttúruhamfarir í Japan snemma árs í fyrra og í Taílandi síðla hausts eru sagðar helstu ástæður þess að sala Toyota dróst saman. Báðar komu niður á eigin framleiðsluafköstum og framleiðendum íhluta sem brúkaðir eru í bílum japanska risans. Og þar sem Toyota er að brjótast út úr erfiðleikum af völdum náttúruhamfaranna má búast við því að það verði GM ekki léttur leikur að halda toppsætinu. Stefnir fyrirtækið á sölu a.m.k. 8,5 milljóna bíla í ár.
Gríðarlegur viðsnúningur
Í öðru sæti í fyrra varð Volkswagen með 8,16 milljónir seldra bíla, sem er 14% aukning frá árinu áður. Og í þriðja sæti varð fransk-japanska samsteypan Renault og Nissan sem seldi 8,03 milljónir nýsmíðaðra bíla. Sérfræðingar um bílaframleiðslu spá því að keppnin um toppsætin í ár verði hörð milli framangreindra fjögurra bílasmiða.Fyrr í mánuðinum hafði því verið haldið fram, að VW hefði verið stærsti bílsmiður heims árið 2011. Ástæðan var sú að í sölutölum GM er að finna bíla sem samstarfsfyrirtækið Wuling í Kína seldi. Ýmsir sérfræðingar vilja ekki telja þá með þar sem GM fer ekki með ráðandi hlut í því fyrirtæki. Án Wuling-bíla í sölutölum GM hefði Volkswagen hreppt toppsætið. Burtséð frá því sýnir árangur GM og sannar hversu gríðarlegur viðsnúningur hefur orðið hjá fyrirtækinu frá því það komst í þrot 2009.