Leit stendur enn yfir að þeim þúsundum starfa sem ríkisstjórnin hefur með óbilandi vinnusemi sinni skapað á síðustu misserum, ef marka má orð forystumanna hennar. Allir leggjast á eitt í leitinni, jafnt opinberir aðilar sem aðrir, en þó hefur ekkert starf fundist enn sem komið er.
Samkvæmt Hagstofunni heldur fólksflóttinn frá landinu áfram, einkum á meðal yngra fólks á vinnumarkaði. Í tíð núverandi ríkisstjórnar hafa yfir 8.000 manns flutt af landi brott umfram aðflutta, þar af 1.400 á síðasta ári.
Þessi fólksflótti er ekki til marks um gríðarlega atvinnusköpun ríkisstjórnarinnar þó að forystumenn hennar virðist telja að svo sé. Staðreyndin er sú að störfum á vinnumarkaði fjölgaði ekkert á liðnu ári frá árinu 2010, samkvæmt tölum frá SA. Og það sem meira er, störfin voru færri árið 2011 en 2009.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar telja fækkun atvinnulausra samkvæmt Vinnumálastofnun vera til marks um atvinnusköpun, en það er fjarstæða.
Að vísu hefur fækkað um 1.000 á atvinnuleysisskrá og hlutfall atvinnulausra er ögn lægra en var fyrir ári, en það þarf ekki að koma á óvart þegar 1.400 flúðu land.
Þegar allt er skoðað er niðurstaðan því miður sú að störf sem forystumenn ríkisstjórnarinnar hreykja sér af finnast ekki vegna þess að þau eru ekki til.