Gunnar G. Bachmann fæddist á Siglufirði 16. mars 1939. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 7. janúar 2012.
Útför Gunnars fór fram frá Háteigskirkju 18. janúar 2012.
Elsku pabbi, ég man fyrst eftir mér í fanginu á þér öll á iði og þú að reyna að fá mig til að sitja kyrr. Bauðst mér krónu ef ég gæti setið kyrr heila mínútu. Mér tókst það aldrei. Þegar snjóaði fórst þú út með okkur systur til að búa til snjókarl, risastóran, nú eða snjóhús með aðstoð skúringafötu og fægiskóflu og svo sátum við í snjóhúsinu með kertaljós. Algert ævintýri. Þegar við stelpurnar þínar urðum eldri kenndir þú okkur ótal hluti sem engir aðrir krakkar kunnu, hvað þá stelpur! – að skipta um kló, að negla nagla og skrúfa skrúfur – að bjarga okkur.
Einhverju sinni átti ég Lödu – hálfgerða druslu – og bremsuborðarnir voru ónýtir. Ég bað þig um að hjálpa mér að skipta um þá. Þú sagðir að sjálfsögðu já. Sendir mig í búðina til að kaupa það sem þurfti og svo þegar að því kom að framkvæma verkið byrjaðir þú á að segja: Jæja, taktu tjakkinn og tjakkaðu bílinn upp að framan. Svo tekur þú dekkið af. Losaðu þessar skrúfur og gerðu svona. Ég semsagt skipti sjálf um bremsuborða eftir þínum leiðbeiningum – ég var afar stolt á eftir.
Þú hvattir okkur til að ganga menntaveginn en alltaf án allrar pressu og ekki skiptir þú þér af því hvað við ákváðum að læra, það var okkar val. Stuðningur þinn og mömmu á háskólaárunum var ómetanlegur. Þegar þú greindist með þennan skelfilega sjúkdóm sem Alzheimer er vissum við öll að fenginni reynslu hvað væri framundan. En þú tókst þessu með aðdáunarverðu æðruleysi. Þú stóðst þig eins og hetja í þeirri baráttu. Það var erfitt að horfa á þig hverfa smám saman og svo kom að því að þessi dásamlegi gáski sem skein úr augunum þínum þegar við komum í heimsókn hvarf, það var erfitt, en samt hafði ég enn um stund tækifæri til að taka utan um þig, strjúka þér um vangann og kyssa þig á kinnina en það hef ég nú gert í hinsta sinn.
Elsku pabbi, ég mun sakna þín, en minningin um pabba minn sem gat gert allt og sannfærði mig um að það gæti ég líka mun lifa með mér alla mína tíð.
Sólveig.