Guðrún Fríður Hansdóttir og Arnaldur Páll sonur hennar. Starfsemin hjá sofnun.is fer að mestu leyti fram á Netinu og þar má finna fjölbreytt úrval vöru sem hentar vel til ýmiskonar fjáröflunarsölu. Að starfsemin sé á Netinu er tímanna tákn en æ fleiri telja Netið sé viðskiptamáti framtíðarinnar.
Guðrún Fríður Hansdóttir og Arnaldur Páll sonur hennar. Starfsemin hjá sofnun.is fer að mestu leyti fram á Netinu og þar má finna fjölbreytt úrval vöru sem hentar vel til ýmiskonar fjáröflunarsölu. Að starfsemin sé á Netinu er tímanna tákn en æ fleiri telja Netið sé viðskiptamáti framtíðarinnar. — Morgunblaðið/Golli
Sem móðir drengs í unglingaflokki íþróttafélags kynntist ég því hve fyrirhafnarsamt fjáröflunarstarf oft getur verið. Varningur til sölu er ekki alltaf auðfundinn.

Sem móðir drengs í unglingaflokki íþróttafélags kynntist ég því hve fyrirhafnarsamt fjáröflunarstarf oft getur verið. Varningur til sölu er ekki alltaf auðfundinn. Stundum var viðkvæðið á foreldrafundum að maðurinn í næstu húsi ætti frænda sem ef til vill gæti útvegað harðfisk til sölu. Ég sá því að nauðsynlegt væri að bjóða heildstæða þjónustu á þessu sviði og ákvað að taka slaginn sjálf,“ segir Guðrún Fríður Hansdóttir sem starfrækir eigið fyrirtæki á vefsetrinu sofnun.is

Gott og auðseljanlegt

Margir hafa nýtt þann slaka sem nú er á vinnumarkaði og haslað sér völl í nýjum verkum. Guðrún Fríður er þeirra á meðal. Hún hafði starfað sem flugfreyja hjá Icelandair í allmörg ár þegar henni var sagt upp störfum árið 2008. Ákvað þá að setja á laggirnar fyrirtæki sem myndi útvega hópum í fjáröflunarstarfi söluvarning – auk þess að gefa fólki góð ráð í þessu sambandi. Hún er reyndar byrjuð aftur í fluginu en segir líka ágætt að hafa annað starf sem aukagetu.

„Í fjáröflunarstarfi gildir að ætla sér ekki um of og vera með góðar og auðseljanlegar vörur sem fólk gefur sannanlega þörf fyrir. Jafnframt þarf álagningin að vera hófleg en samt þannig að einhverjir peningar náist í hús. Til þess er leikurinn jú gerður,“ segir Guðrún Fríður.

Nú í janúar segir Guðrún gefast vel að selja til dæmis harðfisk og flatkökur enda þykir mörgum slíkt ómissandi á þorraboðið. „Ég er í góðu sambandi við flatkökubakara sem sjá mér fyrir kökum og harðfiskurinn kemur að vestan. Já, svo er líka mörgum sem finnst alveg gott að vera með soðningu svona hvunndags í upphafi árs. Frosinn fiskur sem ég fæ suður með sjó selst alltaf vel,“ segir Guðrún Fríður sem bætir við að jafnan sé á vísan að róa með sölu á hreinlætisvörum.

Alveg ágætur peningur

„Sala á klósettpappír er föst stærð í allri fjáröflun. Algjör undirstaða og skilar krökkunum alveg ágætum pening,“ útskýrir Guðrún Fríður sem útvegar vörur til meðal annars íþróttafélaga, kóra, útskriftarhópa og klúbba ýmiskonar.

„Oft enda félög vetrarstarf sitt á því að fara í lengri ferðir og þá þarf að vera til einhver aur á bankabókinni. Sjálf hef ég líka sagt að krökkum sé einfaldlega hollt að kynnast lífsbaráttunni með því að taka þátt í fjáröflunarstarfi. Það er ekki bara hægt að stóla á foreldrana og að þeir borgi fyrir æfinga- og keppnisferðir til útlanda. Raunar þarf ekki utanlandsferðir til. Æfingafatnaður er orðinn alveg fokdýr og stundum þarf sérstaka fjáröflun til að kaupa hann.“

Guðrún Fríður þekkir fjáröflunarstarf íþróttahópa í þaula og veit hvað virkar best. Hún hefur hvatt söluhópa til að starfa eftir ákveðnu munstri. Bjóða upp á harðfisk eða jafnvel súrmeti á fyrstu vikum árs, selja svo kartöflur og gulrætur í mars og sælgæti fyrir páskana – en allt þetta og fleira býður hún á söfnun.is- en starfsemin er að mestu leyti rekin í gegnum Netið sem margir telja viðskiptamáta framtíðarinnar.

sbs@mbl.is