[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frægðarstjarna Ólafs Darra Ólafssonar skín skært þessa dagana.

Frægðarstjarna Ólafs Darra Ólafssonar skín skært þessa dagana. Sýningar eru nýhafnar á Hollywood-stórmyndinni Contraband og hafa milljónir hasarmyndaunnenda um allan heim lagt leið sína í kvikmyndahús til að sjá Ólaf Darra og Mark Wahlberg tuskast við skúrka. Framundan eru svo sýningar á Djúpinu , og með vorinu hefjast æfingar á Karamazof bræðrum í Vesturporti. Finnur sló á þráðinn til Ólafs Darra og komst meðal annars að því að hann á erfitt með að standast sæta hunda.

1. Ég er meðlimur í karlaklúbbnum Húrrandi rasshár.

2. Ég veit hvar Jimmy Hoffa er grafinn.

3. Ég er með bráðaofnæmi fyrir Burberry, köflótta viðbjóðs mynstrinu.

4. Mér finnst skankinn bestur á lambalærinu. Það eru ekki allir sem vita að það er besti bitinn... sem það er ekki, ekki smakka hann, þetta er viðbjóður, haha, meira fyrir mig.

5. Rigning er uppáhaldsveðrið mitt.

6. Og rok. Ég er svolítið heppinn með Ísland sem föðurland.

7. Ég á fáránlega mörg pör af skóm.

8. Eitt það skemmtilegasta sem ég geri er að fara í bókabúð og kaupa fræðibók um eitthvað sem ég veit ekkert um.

9. Ég hef æft vatnspóló. Veit ekki hvernig ég lifði af að drukkna ekki við þær æfingar. Erfiðasta íþrótt í heimi.

10. Ég er svona leiðinlega tapsár, þoli ekki að tapa, bara þoli það ekki.

11. Ég hef séð bíómyndina Top Secret svona 428 sinnum.

12 . Ég er sólginn í góðar hryllingsbókmenntir.

13. Uppáhaldskvikmyndaleikstjórinn minn er Stanley Kubrick. Veit að það er frekar týpískt, hann var bara svo flinkur.

14. Ég fer alltaf í dúllutón þegar ég spjalla við sæta hunda.

15. Ég er búinn að læra það að það borgar sig ekki að pissa upp í vindinn. Nema það sé kviknað í þér, þá gæti það verið sniðugt...

ai@mbl.is