Keflavík náði fjögurra stiga forskoti á granna sína í Njarðvík á toppi úrvalsdeildar kvenna í körfubolta í gærkvöld með því að vinna sætan sigur í uppgjöri liðanna í íþróttahúsinu í Njarðvík, 68:62. Þar með hefndu Keflavíkurkonur fyrir ósigurinn gegn erkifjendum sínum í bikarnum á dögunum.
Njarðvík var með undirtökin framan af og náði tólf stiga forystu í fyrri hálfleik en staðan var 38:33 að honum loknum. Keflavík náði fljótlega yfirhöndinni eftir hlé og komst þrettán stigum yfir í fjórða leikhluta en Njarðvík lagaði stöðuna með góðum endaspretti.
Jaleesa Butler var enn og aftur í aðalhlutverki hjá Keflavík en hún skoraði ríflega helming stiganna, 35 talsins, og tók auk þess hvorki fleiri né færri en 18 fráköst. Pálína Gunnlaugsdóttir skoraði 12 stig og Helga Hallgrímsdóttir tók 12 fráköst.
Lele Hardy og Shanae Baker-Brice skoruðu samtals 45 af 62 stigum Njarðvíkinga.
Haukar aftur í þriðja sætið
Haukar komust aftur í þriðja sæti deildarinnar með frábærum fjórða leikhluta gegn Val á Ásvöllum en lokatölur urðu 84:66, eftir að staðan í hálfleik var 41:39, Hafnarfjarðarliðinu í hag.Leikurinn var jafn lengi vel og að loknum þremur leikhlutum var Valsliðið yfir, 57:56. Þá náðu Haukar undirtökunum með nokkrum þriggja stiga körfum, unnu leikhlutann 28:9 og þar með skildu átján stig liðin að í leikslok.
Þær Íris Sverrisdóttir, Jence Ann Rhoads og Margrét Rósa Hálfdánardóttir voru í aðalhlutverkum hjá Haukum og skoruðu samtals 65 af stigum liðsins. Melissa Leichlitner var í sérflokki hjá Val og skoraði 22 stig. vs@mbl.is