Birgir Snæfells Elínbergsson fæddist á Akranesi 28. mars 1951. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 3. janúar 2012.

Útför Birgis Snæfells fór fram frá Akraneskirkju 17. janúar 2012.

Kynni okkar Birgis Elínbergssonar hófust er hann var kosinn gjaldkeri í stjórn Verkstjórafélags Akraness. Sem gjaldkeri áttir þú oft erindi á skrifstofu Verkstjórasambandsins, þitt þægilega viðmót og létta lund varð til þess að þú varðst sérstakur vinur okkar starfsfólksins á skrifstofu VSSÍ. Birgir hafði skemmtilega frásagnagáfu og sagði þannig frá að eftir var tekið, því var oftast létt yfir heimsóknum hans. Þú varst kappsamur um framgang félagsins og tók því fljótlega við formennsku í félaginu. Félagaöflun var þér kappsmál og vildir þú sjá félagið vaxa og dafna. Með fjölgun félaga sást þú möguleika á að auka starfsemina í félagsstarfinu. Birgir ásamt stjórn verkstjórafélagsins horfði til framtíðar, til þess að fjölga félagsmönnum verði að opna það fyrir öðrum stjórnendum. Því stóðst þú fyrir því ásamt félögum þínum í stjórn að fá nafni félagsins breytt í Jaðar-félag stjórnenda á Akranesi. Nafnabreytingin og kaupin á orlofshúsi félagsins átti hug þinn allan og var það sem þú varst hvað stoltastur af.

Líf Birgis var ekki alltaf auðvelt, hann missti konu sína úr illvígum sjúkdómi. Á þeim tíma komst þú oft við hér á skrifstofunni og áttir samtal við þær Jóhönnu og Helgu sem hjálpaði þér að létta á sálinni. Fyrir einu og hálfu ári gerðu veikindi þín fyrst vart við sig. Þeim tókst þú með æðruleysi og kvartaði ekki, það er ekkert að mér, sagði þú ef spurt var um heilsufarið. Í veikindum þínum hélst þú uppteknum hætti og komst til skrafs og ráðagerða til okkar og ævinlega með eitthvað með kaffinu. Það var gaman að fylgjast með þér við kaupin á orlofshúsinu. Sama hvað kom upp á, það var ekkert mál, við leysum þetta var svarið enda var orlofshúsið þér efst í huga alveg til þess síðasta.

Við kveðjum þig, kæri félagi, með söknuði og vottum móður þinni Fjólu Unni Halldórsdóttur og öðrum ættingjum okkar dýpstu samúð.

Kristján Örn Jónsson,

forseti VSSÍ,

Helga Jakobs,

Jóhanna Margrét

Guðjónsdóttir.

Fallinn er frá Birgir Snæfells Elínbergsson, fyrrverandi vallarstjóri á Jaðarsbökkum og traustur stuðningsmaður ÍA. Við vinir hans og stjórn Knattspyrnufélags ÍA þökkum Birgi einstaka fórnfýsi í þágu félagsins og knattspyrnunnar á Akranesi og sendum fjölskyldu hans, vinum og vandamönnum hugheilar samúðarkveðjur nú þegar þessi litríki ÍA-maður er fallinn frá eftir erfið veikindi.

Birgir Elínbergsson var vallarstjóri á Jaðarsbökkum þegar stjörnulið ÍA frá 1991-1996 lék listir sínar á knattspyrnuvellinum, en Birgir tók af lífi og sál þátt í leiknum og lagði sitt til. Engum var meir umhugað um að umgjörð og ástand leikvallarins á Jaðarsbökkum. Allt varð að standast samanburð við það besta og í þeim efnum tókst Birgi betur upp en flestum öðrum. Birgir var einn af liðinu – sagði skoðun sína umbúðalaust og gaf í engu eftir ef ala þurfti knattspyrnumenn upp í einhverjum atriðum. Allir sem umgengust Birgi minnast hans með einstakri hlýju og vináttu. Á sextugsafmæli Birgis í mars á síðasta ári mættu fjölmargar knattspyrnuhetjur og vinir úr fótboltanum og fögnuðu kappanum veglega, en þá var Birgi veitt starfsviðurkenning Knattspyrnufélags ÍA. Óhjákvæmilegt er að nefna að Birgir var nefndur „eigandinn“ þegar rætt var um knattspyrnufélagið og Jaðarsbakka, því umhyggja hans fyrir félaginu og vellinum var slík að ætla mátti að hann ætti bæði félagið og völlinn. Gaman hafði hann af þeirri nafnbót – en í gamni og alvöru segir hún meira en mörg orð.

Á ferðum með ÍA liðinu var líflegt ef Birgir var með í för. Ógleymanlegt er það öllum sem þátt tóku þegar Skagamenn urðu Íslandsmeistarar út í Vestmannaeyjum árið 2001, en þá var Birgir drifkrafturinn í fjörinu fyrir og eftir leik, með sixpensarann, sannfærður um árangur sinna manna og fagnaði vel þegar Íslandsmeistaratitill var í höfn. Svo er tímans gangur stilltur að vinur okkar og félagi er fallinn. Honum fylgja góðar, hlýjar og litríkar minningar. Blessun fylgi Birgi Elínbergssyni og ómældar þakkir fyrir liðnar samverustundir.

Gísli Gíslason, formaður Knattspyrnufélags ÍA.

Gunnar Sigurðsson,

fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA.

Jón Gunnlaugsson,

fyrrverandi formaður Knattspyrnufélags ÍA.