Bandarískir sérsveitarmenn úr röðum svonefndra Navy SEALS frelsuðu nýlega tvo hjálparstarfsmenn úr höndum mannræningja í Sómalíu. Fólkið var tekið höndum 25. október. „Bandaríkin munu ekki láta það viðgangast að okkar eigið fólk sé numið brott og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öryggi ríkisborgaranna og láta mannræningjana svara til saka,“ sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti í yfirlýsingu í gær.
Obama heimilaði aðgerðina sjálfur sl. mánudag. Markmiðið var að koma þeim Jessicu Buchanan, sem er bandarísk og Dananum Poul Thisted til bjargar en þau starfa fyrir dönsk hjálparsamtök. Þau munu hafa sloppið ómeidd. Buchanan og Thisted voru í haldi mannræningja á afskekktu svæði en þangað fóru sérsveitarmenn í þyrlu. Minnst átta mannræningjar féllu en ekki var gefið upp hvort sérsveitarmenn hefðu látið lífið. kjon@mbl.is