Lífið er engin lognmolla hjá Þóru Karítas Árnadóttur um þessar mundir. Strembnar æfingar á Gulleyjunni standa nú yfir en verkið er leikgerð Karls Ágústs Úlfssonar og Sigurðar Sigurjónssonar á sjóræningjasögunni frægu sem verður frumsýnd hjá Leikfélagi Akureyrar á föstudag, 27. janúar. Finnur náði í skottið á Þóru milli æfingatarna og bað hana að segja frá líflegri viku í leikhúsinu.
Mánudagur: Er svolítið meyr þegar ég ýti á send-takkann í tölvunni og skila af mér viðtali í Fréttatímann við kröftugan hóp karla sem segja hingað og ekki lengra og vilja að karlmenn stígi fram til að mótmæla nauðgunum. Fer í bíó eftir æfingu á Gulleyjunni að horfa á Meryl Streep fara á kostum sem Margaret Thatcher.
Þriðjudagur: Erum að renna Gulleyjunni í nær fyrsta sinn. Lít á einum tímapunkti á Þórunni Clausen samleikkonu mína sem er íklædd náttkjól og við áttum okkur samtímis á að ég fór í vitlausan búning í hraðskiptingu. Hún fær hláturskast meðan ég panikkera – enda á sviðinu í sjóræningjabúningi að ofan og pilsi að neðan.
Miðvikudagur: Býð leiklistarnemendunum að fylgjast með æfingu á Gulleyjunni.Páfagaukurinn mætir líka á svæðið. Ég hrífst af jákvæðum og nægjusömum orðaforða hans: Já, halló og hæ!
Fimmtudagur: Ljósmyndarennsli. Kraftur að færast í leikhópinn og innra líf loks að fæðast og búningaskiptin komin á hreint. Skín í gullið.
Föstudagur: Æfingu á Gulleyjunni lýkur kl. 16.00. Fer til hnykkjara sem hnykkir í hláturtaugina því ég fæ hláturskast á flugvellinum enda í góðum félagsskap.
Laugardagur: Er svolítið lost í Reykjavík. Keyri gegnum bílaþvottastöð og finnst ég stödd í barnaleikriti. Ógurlegir rauðir og grænir þvottaburstar sem strjúka rúðurnar meðan bíllinn mjakast í gegn. Kíki í litríkt afmæli hjá Maríu Ellingsen. Indverskt þema og aðdáunarvert hve margir mæta í búningi.
Sunnudagur: Flýg til Akureyrar. Mjaka mér hægt inn í sjóræningjaævintýrið í tæknirennsli um kvöldið. Sendi út bæn um að allt blessist vel og að tónlistin og leikhúsið megi snerta hjörtu. Skemmtileg vika framundan enda fátt meira spennandi en krassandi sjóræningjasöngleikur.
ai@mbl.is