Dóra Sigmundsdóttir fæddist í Reykjavík hinn 6. febrúar 1937. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 19. janúar 2012.

Foreldrar hennar voru Sigmundur Halldórsson húsasmiður, f. 12. mars 1903, d. 7. ágúst 1971, og Hanne Sofie Halldórsson húsmóðir, fædd 15. ágúst 1904, d. 6. sept. 1988. Systur Dóru eru Kristín Sigmundsdóttir, f. 1932, d. 2007, Dóra Sigríður Sigmundsdóttir, f. 1933, d. 1937, Jenný Bergljót Sigmundsdóttir, f. 1940, Guðrún Sigmundsdóttir, f. 1943, og samfeðra Benedikta Sigurrós Sigmundsdóttir, f. 28. nóv. 1929. Dóra giftist 9. júní 1962 Gunnari Kristjáni Gunnarssyni, f. 12. ágúst 1939. Foreldrar hans voru Gunnar Pálsson, f. 25. sept. 1914, d. 19. apríl 1971, og Salvör Ebenesersdóttir, f. 30. jan. 1917, d. 21. jan. 2004. Börn Dóru og Gunnars eru: 1) Salvör Gunnarsdóttir, f. 10. jan. 1961, maki Hilmar Ægir Þórarinsson. Börn Salvarar og Ólafs Gíslasonar, þau skildu, eru: Dóra Bergrún, Helga Margrét, Páll Axel og Hanna Sólbjört. 2) Hugrún Gunnarsdóttir, f. 1. des. 1962, maki Þráinn Valur Hreggviðsson. Synir þeirra eru: Guðbjartur, Hrafnkell og Kári. 3) Ólöf Harpa Gunnarsdóttir, f. 18. des. 1964, maki Snorri Guðmundsson. Sonur þeirra er: Gunnar Ísak. 4) Geir Þórarinn Gunnarsson, f. 27. mars 1972, maki Ingibjörg Ágústsdóttir. Dætur þeirra eru: Júlía Björk og Emilía. 5) Ragnheiður Gunnarsdóttir, f. 16. janúar 1975, maki Ólafur Hrafn Sigurþórsson. Sonur Ragnheiðar af fyrra sambandi er: Dagur, sonur Sævars Þórs Ólafssonar. Dætur Ragnheiðar og Ólafs eru: Arndís Dóra og Guðrún Salvör. 6) Stúlka Gunnarsdóttir, f. 1. júní 1979, d. 1. júní 1979. Dóra ólst upp í Reykjavík og stundaði nám í Laugarnesskólanum og lauk gagnfræðaskólaprófi verknáms árið 1954. Hún lærði hjúkrun við Hjúkrunarskóla Íslands og lauk þar námi í október 1959. Hún starfaði á Landspítalanum, St. Jósepsspítala, Vífilsstöðum og Vistheimilinu Vífilsstöðum. Síðustu starfsárin vann Dóra á öldrunardeild Landspítalans á Landakoti. Dóra sinnti starfi sínu af mikilli alúð og umhyggju. Dóra og Gunnar lifðu í farsælu hjónabandi í 50 ár. Þau hófu búskap í Reykjavík árið 1961. Framtíðarheimilið byggðu þau í Garðabæ en þangað fluttu þau árið 1970. Dóra var trúuð kona og tók mikinn þátt í kristilegu starfi. Hún var listræn og hafði unun af því að mála. Eftir hana liggja mörg falleg málverk sem fegra heimili hennar og ástvina. Hana einkenndi glaðværð, umhyggja og hlýja og tók hún vel á móti þeim sem á heimili hennar komu. Börn og barnabörn nutu ástar hennar og umhyggju alla tíð. Minning hennar lifir sem bjart ljós í hjörtum okkar allra.

Útför Dóru fer fram frá Neskirkju í dag, fimmtudaginn 26. janúar 2012, kl. 13.

Krossins mær í Kristi valin,

krónu dyggða vegferð þín.

Lífsins gjöf í ljóðstaf alin,

ljúfust varst þú móðir mín.

Fegurð skarta frostsins tindar,

tilgangur var hjarta þitt.

Litadýrð og ljóssins vindar

vermdu ávallt lífið mitt.

Leikur þinn í léttleik orða,

ljúf og glettin gafst þú byr.

Báru hafsins, barnsins forða,

bros þín hlý við bænadyr.

Blómsturvöllum björtust sólu,

byggðir líf í kaleik þeim.

Kærleiksblómum sterkust ólu

arfleifð þína, okkur heim.

Móðurhjarta, mund þín lifir

með oss öllum, himinblæ.

Ljósa fegurð líf þitt yfir

lof og þökk um vetrar sæ.

(Salvör Gunnarsdóttir)

Salvör.

Elsku yndislega mamma mín. Guð varðveiti þig og blessi. Þú ert svo mikil blessun, elsku mamma. Takk fyrir kærleikann, gleðina, viskuna, hlýjuna og svo margt fleira, ég er þér svo þakklát. Ég er svo þakklát Guði fyrir þig, frú yndisleg eins og ég sagði oft við þig. Mamma þú ert konan sem hélst í höndina á mér fyrstu árin en heldur í hjartað á mér alla ævi.

Þín

Ragnheiður.

Elsku mamma.

Þitt ljós skein skært á lífsins vegi. Við sem nutum birtunnar sem þig umvafði og samvistanna með þér í þessu jarðlífi erum full af þakklæti. Þú varst einstök og gafst okkur svo ríkulega af góðvild þinni. Hlýjan í hjartanu, gleðin og hógværðin voru þínir gimsteinar.

Við börnin ykkar nutum þess að alast upp á ástríku heimili og barnabörnin hafa öll sem eitt notið ríkulegrar ástúðar þinnar og umhyggju. Þú barst ekki tilfinningar þínar á torg og miklaðist ekki yfir afrekum þínum eða afkomendanna en það duldist engum hvað þú varst ánægð með alla þá sem þú áttir og jákveðni þín í garð okkar allra var einstök. Gestristni var þér í blóð borin og alltaf var vel tekið á móti þeim sem komu í heimsókn í Espilundinn. Brosið í augunum og gleðin yfir heimsókninni duldist engum. Enginn fór heldur svangur heim. Þú vildir hvergi annars staðar búa og ekki mátti ræða þau mál frekar. Espilundurinn var þinn griðastaður.

Á hugann leita margar góðar minningar. Of langt yrði að telja upp allar góðu stundirnar en nokkrar myndir standa okkur lifandi fyrir hugskotssjónum eins og sundlaugaferðir með þér í Laugardalinn þar sem við gæðum okkur á appelsínunum eftir ærslin í lauginni, við í heimsókn hjá ömmu Soffíu í Efstasundinu, þú að töfra fram dýrindis kleinur í Espilundinum sem renna síðan ljúflega niður, þú syngur og spilar á orgelið af fingrum fram, veiðiferð með þér í Sogið þar sem ákafinn leynir sér ekki við veiðiskapinn, þú að passa ömmubörnin Hrafnkel og Hönnu sem líður vel hjá ömmu sinni og ekki síst dýrmætar samverustundir með ykkur pabba í Oregon.

Þú lagðir þig fram um að veita þeim styrk sem þjáðir voru og tókst á við hjúkrunarstarfið af gleði, alúð og nærgætni. Við erum sannfærð um að þú hafir hjálpað mörgum, sem afvegaleiddir voru, að feta beinu brautina í lífinu. Þar kom trú þín sterkt inn.

Þegar árin færðust yfir fórstu að læra að mála. Það var gaman að fylgjast með þér þróast í þessu nýja áhugamáli. Nú fékk sköpunargleðin loks útrás. Þú lagðir þig alla fram og hver mynd gat verið í vinnslu í langan tíma. Þú hafðir einstakt auga fyrir litum og litbrigðum eins og kemur skýrt fram í myndunum sem prýða nú heimili ykkar og ástvinanna.

Þið pabbi voruð mjög samrýnd. Á því áttuðum við okkur betur þegar árin færðust yfir. Þið fenguð ykkar skerf af áföllum í lífinu en æðruleysi, glaðlyndi og trú þín voru þinn styrkur og hafa vafalaust átt ríkan þátt í að þið yfirstiguð erfiðleikana sem þið stóðuð frammi fyrir. Þrátt fyrir glaðlyndi þitt gat fokið í þig. Það stóð hins vegar afskaplega stutt yfir og aldrei höfum við heyrt þig hallmæla nokkrum manni. Svo ótal margar ljúfar minningar eigum við um þig og pabba sem munu ylja okkur áfram um hjartaræturnar. Ljós þitt mun lifa áfram með okkur og við geymum minninguna um þig í hjörtum okkar.

Þú varst kletturinn hans pabba. Við munum halda vel utan um hann og styðja hann og styrkja eins og við getum. Þakka þér fyrir allt, elsku mamma.

Hugrún, Þráinn

Valur og synir.

Elsku mamma, þú sem hefur verið mér svo kær og göfgað hefur tilveru mína með nærveru þinni og hlýju. Mér reynist erfitt að kveðja en á sama tíma fyllist ég gleði yfir því að hafa átt þig sem mömmu því minningin um þig er dýrmætari en nokkur orð fá lýst. Þær góðu stundir sem við höfum átt saman tvö og sem fjölskylda eru greypt í minninguna um þig, elsku mamma mín.

Þú kallaðir mig geislann þinn, kannski þar sem ég var eini strákurinn í þeim fagra hópi stúlkna sem systur mínar eru. Lánsöm voruð þið pabbi að eignast svo góðan hóp barna sem raun ber vitni. Sem lítill drengur var ég hræddur við myrkrið er kvölda tók, þú kunnir svo vel að hleypa ljósi inn í litla hjartað þannig að ég fékk styrk og lærði að vera hugrakkur. Mörgum stundum eyddir þú á rúmstokknum hjá litla drengnum þínum og kenndir mér að fara með kvöldbænirnar. Þú sóttir styrk þinn í trúna og fannst frið og visku sem var þér sem leiðarljós í blíðu og stríðu.

Þín persóna var rík af gleði og hlýju svo það geislaði af, elsku mamma. Þú kunnir svo vel að sjá það góða og kalla það fram hjá öllum svo að öllum leið vel í návist þinni. Brosið þitt var stutt undan hvað sem bjátaði á og þú varst einstaklega lagin að hugga þá sem sorgmæddir og leiðir voru. Þú kunnir svo vel að deila með öðrum og varst ávallt höfðingleg heim að sækja. Börnunum í hverfinu þótti gaman að koma í heimsókn, ekki síst þegar blásið var til afmælisveislu í Espó. Þér tókst alltaf að galdra fram krásir og skemmtan sem allir nutu og höfðu gaman af.

Æðruleysi, hlýja og þakklæti var merki þitt. Sem fyrirmynd og viskubrunnur hefur þú kennt mér svo mikið um gildi lífsins. Þín lífsspeki og manngæska hefur verið mér og systrum mínum sem leiðarljós í lífinu. Þú varst svo þakklát fyrir lífið og tilveruna og þá blessun sem þér var veitt að eigna svo mörg börn og barnabörn. Þú leist á það sem ríkidæmi þitt og áttir til að segja: „Gunnar minn, sjáðu hvað við erum rík.“

Allt fram á síðustu stund var stutt í glettnina og tilsvörin sem lágu svo náttúrulega fyrir þér. Þið pabbi hafið átt farsælt hjónaband, þú elskaðir pabba mikið og það var auðvelt að sjá allt fram á hinstu stundu. Ég fyllist lotningu er ég hugsa hvað guð er góður að hafa gefið mér svo góða mömmu. Nú kveður þú okkur öll með æðruleysi og reisn og skilur eftir góðar minningar um yndislega móður, eiginkonu og tengdamóður sem mun lifa með okkur um aldur og ævi. Mikið er ég glaður að dætur okkar Ingu fengu að kynnast þér. Mamma, ég elska þig, takk fyrir að gefa svo mikið af þér.

Geir Þórarinn.

Elsku mamma mín, þú ert blessunin mín. Þegar ég hugsa til þín kemur í hugann gleði, þakklæti og mjúk hlýja fyrir allt sem þú varst og gafst mér með nærveru þinni. Ég á svo góðar minningar, sé þig ljóslifandi fyrir mér, myndin af þér er sterk. Ég tek eftir léttu skapi þínu, glettni og hlýju. Ég tek eftir lífskrafti þínum, jákvæðni og jafnlyndi. Við sitjum saman við eldhúsborðið í Espilundinum og spjöllum. Við syngjum og spilum á gítarinn í stofunni og drögum okkur mannakorn. Ég varðveiti augnablikið og brosi inni í mér, þú ert mér svo dýrmæt.

Ólöf Harpa.

Besta amma sem allir í heiminum gætu fengið, hún var alltaf glöð og brosandi og mér leið alltaf svo vel þegar ég sá hana.

Afi Gunnar er heppnasti eiginmaður í heimi að fá hana Dóru okkar, Guð blessi ömmu Dóru.

Kv.

Dagur Sævarsson, barnabarn Dóru Sigmundsdóttur.

Lífsgöngu yndislegrar systur minnar er lokið. Söknuður og minningar leita á mig.

Dóra var miklum kostum búin og listræn í sér. Hún málaði fallegar myndir og var söngelsk, heiðarleg og kærleiksrík. Hún var einlæg í sinni trú og þráði að systurnar sínar gætu líka fundið og notið þess sem trúin færir. Alltaf svo mild og góð.

Hún var þremur árum eldri en ég og í barnæsku var ég henni stundum erfið, en þolinmæði hennar og gæska náði fljótt að slökkva á óþekktarskapnum og ég varð ljúf sem lamb.

Á æskuheimili okkar systra var oft fundið upp á ýmsu í barnsins leik og þá var einna vinsælast að halda dans- og söngvaleiki fyrir móður okkar sem var einlægur aðdáandi. Dóra var svo einstaklega lagin við að spila á gítarinn sinn og milliradda auk þess sem hún dansaði alltaf svo fallega.

Dóra var lánsöm í sínu einkalífi með eiginmanni sem unni henni hugástum og eignuðust þau saman fimm börn sem öll elskuðu hana og dáðu. Í veikindum hennar var hann henni ómetanlegur styrkur.

Það verður erfitt að fá aldrei að faðma þig framar en ég verð ævinlega þakklát fyrir það að þú varst systir mín.

Jenný B. Sigmundsdóttir.

Í dag er til moldar borin elskuleg móðursystir mín, Dóra Sigmundsdóttir.

Konan með lampann tengist þeirri ímynd sem við þekkjum í Florence Nightingale. Sem frumkvöðull í hjúkrunarfræðum á sínum tíma og byltingarkenndum umbreytingum til hins betra í þágu sjúkra, taldi Nightingale að góður hjúkrunarfræðingur ætti að hafa sömu eiginleika og góð kona. Að hafa köllun til að hjálpa öðrum á við umhyggju góðrar móður ásamt vinnusemi og sterkri siðferðiskennd í einlægri Guðs trú.

Dóra hafði alla þá kosti sem prýða góða konu og fyrirmyndar hjúkrunarfræðing í anda Nightingale. Í mínum huga er hún konan með lampann, hógvær og ljúf sem gekk hljóðlega um og vann sín góðverk. Hún var sterk í sinni trú allt frá barnæsku og leitaði fegurðar í lífinu sem hún sá í blómunum og fuglunum sem sungu, eða dýrð vetrarnæturinnar og leiftrum norðurljósanna. Hún söng eins og engill, spilaði á gítar og málaði myndir og fékk útrás fyrir sköpunargáfu sína með ýmsu móti. Fas hennar einkenndist ávallt af æðruleysi og hlýju brosi sem gladdi og yljaði manni um hjartarætur.

Í einkalífi sínu átti hún láni að fagna og var alla tíð samstiga eiginmanni sínum Gunnari sem reyndist henni sem klettur þegar á reyndi í veikindum hennar. Þau eignuðust fimm góð börn og afkomendur sem búa áfram að þeim kostum sem Dóra gaf af sér.

Ævisól Dóru er slokknuð og sál hennar lyft vængjum til hinna æðri himna sem hún trúði á. Þar er ekki um aðskilnað að ræða því sól Dóru mun lifa áfram með okkur sem fengum að njóta hennar.

Soffía Michiko

Gústafsdóttir.

HINSTA KVEÐJA

Elsku mamma mín, þú ert blessunin mín. Þegar ég hugsa til þín kemur í hugann gleði, þakklæti og mjúk hlýja fyrir allt sem þú varst og gafst mér með nærveru þinni. Ég á svo góðar minningar, sé þig ljóslifandi fyrir mér, myndin af þér er sterk. Ég tek eftir léttu skapi þínu, glettni og hlýju. Ég tek eftir lífskrafti þínum, jákvæðni og jafnlyndi. Við sitjum saman við eldhúsborðið í Espilundinum og spjöllum. Við syngjum og spilum á gítarinn í stofunni og drögum okkur mannakorn. Ég varðveiti augnablikið og brosi inni í mér, þú ert mér svo dýrmæt.
Ólöf Harpa.

Amma mín þú varst besta amma í heimi. Það var svo gaman að koma og heimsækja þig þú tókst svo vel á móti mér. Ég elska þig mjög heitt.
Þinn
Gunnar Ísak.