Ísafoldarkvintettinn „Þótt fiðlurnar léku víðast hvar sem í samstilltum draumi, þá sat samt mest eftir unaðsómur dýpstu hljóðfæranna (hvað er dúnþýðara en dempuð víóla á neðra sviði?) ...“ segir rýnir meðal annars.
Ísafoldarkvintettinn „Þótt fiðlurnar léku víðast hvar sem í samstilltum draumi, þá sat samt mest eftir unaðsómur dýpstu hljóðfæranna (hvað er dúnþýðara en dempuð víóla á neðra sviði?) ...“ segir rýnir meðal annars. — Morgunblaðið/Ernir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Strengjakvartettar í g og F eftir Debussy (1893) og Ravel (1903). Ísafoldarkvartettinn: Elfa Rún Kristinsdóttir & Helga Þóra Björgvinsdóttir fiðla; Þórarinn Már Baldursson víóla og Margrét Árnadóttir selló. Sunnudaginn 22. janúar kl. 20.

Göfugasta grein kammertónlistar að margra mati en jafnframt sú kröfuharðasta, strengjakvartettinn, á sem kunnugt ekki auðvelt uppdráttar í fámennu samfélagi. Er því kraftaverki líkast hvað við höfum engu að síður getað notið merkilega góðs flutnings á seinni áratugum frá ýmist nafngreindum eða ónafngreindum fereykjum þótt þau hafi ýmist enzt skammt eða komið sjaldan fram, nema hvorttveggja sé. Kraftaverki sem maður hefur áður freistazt til að líkja við humalflugu, er tæknilega séð á ekki að geta flogið en gerir það samt.

Hinn ungi Ísafoldarkvartett, er skv. fámálum kvitti Gróu á Neti virðist fyrst hafa leitt saman hesta sína um 2010, er nýjasta dæmi þessa. Ekki hafði undirritaður áður heyrt hópinn spila og átti það trúlega við flesta gesti Kammermúsíkklúbsins á sunnudag, enda þótt hvergi væri tekið fram (það staðfestist raunar af söguflipa á heimasíðu KMK) að nú þreytti kvartettinn frumraun sína innan þessara höfuðvébanda íslenzkrar kammerlistar. Að vísu mun engin nýlunda að dult sé farið með „debút“ hérlendis, enda e.t.v. skiljanlegt af fyrrgreindum óvissuaðstæðum þegar fæst orð bera minnsta ábyrgð. Hvað þá þegar sumir meðlimir eru búsettir erlendis og allir á kafi í öðrum verkefnum eins og hér átti við.

Á dagskrá kvöldsins voru tvö framsækin verk frá fagurskeiði Frakka kringum 1900 er kalla má systur í anda, enda oft höfð á sömu hljómplötu og það keimlík að sumir eiga til að rugla þeim saman. Hið yngra, eftir Maurice Ravel, var fyrst og naut þess vafasama heiðurs að vera hafnað til Rómarverðlauna af Parísarkonservatóríunni, enda þótt tíminn hafi síðan snúið skömminni við. Hlutfallslega kraftmeiri smíð og rytmískt djarfari, en á sér líka safaríkt dulræna hljómabeitingu í t.d. III þætti er tengir samstígar fimmundir við sterkkryddaða aukaraddfærslu. Túlkunin var framan af ívið of fáguð að mínum smekk, þótt sækti síðan í sig veðrið í stormsópandi lokaþættinum.

G-moll kvartett Debussys er almennt aðgengilegri, heilsteyptari og ljúfari áheyrnar, og átti Ísafoldarhópurinn þar mörg bráðfalleg augnablik. Jafnvægi milli radda var hér sem fyrr til fyrirmyndar, og nærri öldungsinnsæ hendingamótun og vökur hrynskerpa sömuleiðis. En þótt fiðlurnar léku víðast hvar sem í samstilltum draumi, þá sat samt mest eftir unaðsómur dýpstu hljóðfæranna (hvað er dúnþýðara en dempuð víóla á neðra sviði?) – og ekki sízt óviðjafnanleg bjórtunnumýkt sellósins. Ef knéfiðla Margrétar Árnadóttur er ekki rakin meistarasmíð, þá kom spilamennskan alltjent að sama gagni.

Ríkarður Ö. Pálsson

Höf.: Ríkarður Ö. Pálsson