Egill Ólafsson egol@mbl.is Þó að stjórn Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. hafi ákveðið að fella niður kröfur á stofnfjárhafa í Sparisjóði Svarfdæla ætla a.m.k. 19 stofnfjárhafar að halda áfram málarekstri vegna stofnfjáraukningar sem þeir tóku þátt í.

Egill Ólafsson

egol@mbl.is

Þó að stjórn Eignasafns Seðlabanka Íslands ehf. hafi ákveðið að fella niður kröfur á stofnfjárhafa í Sparisjóði Svarfdæla ætla a.m.k. 19 stofnfjárhafar að halda áfram málarekstri vegna stofnfjáraukningar sem þeir tóku þátt í. Þessir einstaklingar greiddu stofnféð á sínum tíma eða greiddu upp lán sem þeir tóku.

Saga Fjárfestingarbanki veitti í árslok 2007 rúmlega 100 stofnfjáreigendum lán í tengslum við stofnfjáraukningu í Sparisjóði Svarfdæla. Þau voru síðar seld yfir í systurfélag bankans, Hildu hf. sem Eignasafn Seðlabankans yfirtók í fyrra.

112 stofnfjáreigendur höfðuðu dómsmál á hendur Hildu þar sem gerðar eru þær kröfur að lánin verði dæmd ólögmæt með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar í svokölluðum Byr-málum og þess fordæmis sem niðurfelling Landsbankans á stofnfjáreigendalánum hjá Sparisjóði Keflavíkur skapaði.

Þrátt fyrir ákvörðun stjórnar Eignasafns Seðlabankans um að fella niður kröfur standa eftir 19 mál. Þar er um að ræða stofnfjárhafa sem annað hvort greiddu stofnfjáraukninguna á sínum tíma án lántöku eða greiddu lánin upp.

Jóhann Ólafsson, formaður Félags stofnfjáreigenda í Sparisjóði Svarfdæla, segir að það sé ósanngjarnt að þessir menn sitji uppi með tjónið á meðan lánin séu felld niður. Hann segir að þessir stofnfjárhafar muni halda áfram með sín mál. Málin verða þingfest í byrjun febrúar.

Stofnfjárhafafundur Sparisjóðs Svarfdæla samþykkti í fyrrakvöld að rekstur Sparisjóðs Svarfdæla yrði seldur Landsbankanum.

Samkvæmt tilboðinu yfirtekur Landsbankinn skuldbindingar vegna innlána og víkjandi lána, sem samtals nema um 3.200 milljónum króna og greiðir að auki 165 milljónir. Jóhann segir að miðað við þá stöðu sem upp var komin hafi þetta verið besta niðurstaðan. Hins vegar séu fyrrverandi stofnfjárhafar ekki sáttir við rekstur sjóðsins síðustu ár.