Hress Spyrlar Útsvarsins.
Hress Spyrlar Útsvarsins.
Spurninga- og spéþátturinn Útsvar hefur alveg farið framhjá mér – þar til í haust. Þá tók Reykjavíkurborg nefnilega þá djörfu ákvörðun að tefla Berki Gunnarssyni, félaga mínum hér á Morgunblaðinu, fram í liði sínu.

Spurninga- og spéþátturinn Útsvar hefur alveg farið framhjá mér – þar til í haust. Þá tók Reykjavíkurborg nefnilega þá djörfu ákvörðun að tefla Berki Gunnarssyni, félaga mínum hér á Morgunblaðinu, fram í liði sínu. Upp frá því hef ég haft annað augað á þættinum, Börkur Gunnarsson er mjög gott sjónvarpsefni.

Þátturinn er um margt ágætur. Á honum eru eigi að síður augljósir gallar. Ég trúi því til að mynda ekki fyrr en ég tek á því að lið Reykjavíkur mæti til leiks annað kvöld – fyrir þær augljósu sakir að það laut í borð í síðustu umferð. Það er alveg sama hvernig á málið er litið, það samræmist ekki sýn minni á tilveruna að lið sem tapar í útsláttarkeppni haldi áfram eins og ekkert hafi ískorist.

Nú láti Reykvíkingar samt sjá sig er mér vandi á höndum enda er andstæðingurinn enginn annar en minn gamli heimabær, Akureyri. Stríðmönnuð sveit. Með hvoru liðinu á ég eiginlega að halda? Hvort ætli séu fleiri Þórsarar eða KA-menn í liði Akureyringa?

Það er annað sem ekki gengur upp í Útsvari, þessi grímulausa auglýsing á bókmenntum, tónlist og hannyrðum í lok þáttarins. Keppendur geta skipst á gjöfum í steypibaðinu eftir leik.

Orri Páll Ormarsson

Höf.: Orri Páll Ormarsson