Fréttaskýring
Egill Ólafsson
egol@mbl.is
Verðmæti innfluttra kjötvara var tvöfalt meira á síðasta ári en árið á undan. Innflutningurinn dróst saman eftir hrun en hefur aukist mikið síðan og raunar aldrei verið meiri. Margt bendir til að innflutningurinn eigi enn eftir að aukast, en á næstu dögum verður lagt fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér að lagðir verða á magntollar á innfluttar búvörur í stað verðtolla sem komu til sögunnar þegar Jón Bjarnason, fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, varð ráðherra.
Miklar takmarkanir eru á innflutningi á búvörum, bæði vegna tolla sem lagðir eru á og vegna heilbrigðisreglna. Ísland er aðili að GATT og hefur skuldbundið sig til að heimila innflutning á tilteknu magni af landbúnaðarvörum á lágmarkstollum. Þar að auki hefur Ísland gert tvíhliða samning við Evrópusambandið um að flytja tollfrjálst inn landbúnaðarvörur gegn því að við getum flutt út tollfrjálst landbúnaðarvörur til sambandsins.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur viðhaft þá reglu undanfarin ár að auglýsa tollkvóta vegna innflutnings á búvörum á haustin. Síðan senda innflytjendur inn tilboð og á grundvelli þeirra er tollkvótum úthlutað til þeirra sem hæst bjóða. Í lok desember var tilkynnt hverjir hefðu fengið úthlutað vegna ESB-samningsins. Niðurstaða tilboðanna er að innflytjendur eru tilbúnir að greiða liðlega 200 milljónir til að fá að flytja inn samkvæmt samningnum.
Athygli vekur að Mjólkursamsalan fékk um 40% af ostakvótanum. Mjólkursamsalan hefur yfirleitt skilað inn tilboðum, en hefur stundum ekkert fengið úthlutað. MS ætlar að flytja inn osta í ár.
Á árum áður voru dæmi um að innflytjendur fengju úthlutaða tollkvóta sem þeir nýttu svo aldrei. Ásakanir komu þá fram um að keppinautar hér á landi væru að reyna að hindra innflutning með því að sækja um tollkvóta sem þeir ætluðu sér aldrei að nýta. Reglunum var hins vegar breytt fyrir nokkrum árum og nú verða innflytjendur að leggja fram bankatryggingu og greiða innan sjö daga fyrir tollkvótana.
Aðferð Jóns við innflutning breytt
Eftir að Ísland skuldbatt sig í gegnum GATT-samninga til að heimila innflutning á landbúnaðarvörum á lágmarkstollum var þessi innflutningur heimilaður á grundvelli svokallaðra magntolla. Heimild var þó einnig fyrir hendi að leggja á svokallaða verðtolla. Eftir að Jón Bjarnason varð ráðherra breytti hann reglugerð og ákvað að innflutningurinn færi fram með verðtollum. Það þýddi að sá tollur sem greiða þurfti af vörum sem fluttar voru inn á þessum grundvelli var hærri en vara sem var flutt inn samkvæmt almennum tollareglum. Innflutningnum var því sjálfhætt, enda var ekkert flutt inn á grundvelli lágmarkstolla meðan Jón var ráðherra. Á hinn bóginn var hægt að flytja inn samkvæmt samningi við ESB eða greiða tolla af vörunum.Umboðsmaður Alþingis komist aftur á móti að þeirri niðurstöðu í fyrra að ráðherrann hefði ekki farið að lögum þegar hann ákvað að leggja á verðtoll. Nú hefur verið unnið frumvarp í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu sem kveður á um að framvegis verði lagður á magntollur við innflutning á búvörum á lágmarkstollum samkvæmt GATT-samningi. Frumvarpið verður lagt fram á þingi á næstu dögum. Þetta mun væntanlega gera innflutning á landbúnaðarvörum á þessum grundvelli mögulegan á ný.
Innflutningurinn nam 1.152 milljónum
Innflutningurinn á kjötvörum frá janúar til nóvember á síðasta ári nam 1.152 milljónum, en var 612 milljónir árið 2010. Útflutningur á kjötvörum nam hins vegar 3.342 milljónum á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs, aðallega lambakjöt.Það sem aðallega er flutt inn er nautakjöt, svínakjöt og kjúklingar, en auk þess er flutt inn talsvert af villibráð og ýmsum unnum kjötvörum.