Fyrsta mót meistaradeildar í hestaíþróttum fer fram í Ölfushöllinni á Ingólfshvoli í kvöld og hefst klukkan 19. Keppt er í fjórgangi.
Meistaradeildin er mótaröð sem að mestu fer fram í Ölfushöllinni og stendur út mars. Einstaklingar keppa og lið.
Sjö fjögurra manna lið eru skráð til leiks en þrír knapar frá hverju liði keppa á hverju móti.
Margir af helstu knöpum landsins taka þátt í meistaradeildinni, þar á meðal eru sjö heimsmeistarar.
Gert er ráð fyrir spennandi keppni í fjórganginum í kvöld. Hinrik Bragason er fyrstur í rásröðinni, á stóðhestinum Katli frá Kvistum. Er þetta fyrsta íþróttakeppni þeirra saman. Sigurbjörn Bárðarson er annar í rásröðinni, á Penna frá Glæsibæ. Síðastur í röðinni í kvöld er Sigurður Sigurðarson á Loka frá Selfossi. Sigurður stjórnar liði sem keppir undir nafni Lýsis sem sigraði í liðakeppni meistaradeildar á síðasta ári og Sigurður sigraði jafnframt í fjórgangi og einstaklingskeppninni.
Síðar verður keppt í gæðingafimi, tölti, slaktaumatölti og flugskeiði, gæðingaskeiði og fimmgangi. Lokamótið verður 30. mars. helgi@mbl.is