Baldur Ingólfsson fæddist á Víðirhóli á Hólsfjöllum í Norður-Þingeyjarsýslu 6. maí 1920. Hann andaðist á hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum 5. janúar 2012.

Útför Baldurs var gerð frá Neskirkju 16. janúar 2012.

Mig langar að minnast ömmubróður míns Baldurs með nokkrum orðum. Það er svo margt sem hægt var að læra af Baldri og taka sér til fyrirmyndar. Baldur var menntamaður í jákvæðustu merkingu þess orðs. Ekki einungis var hann vel lesinn, farsæll kennari og tungumálasnillingur heldur lét hann sig mikið varða bæði umhverfi sitt og þær ótalmörgu manneskjur sem hann mætti á lífsleiðinni. Baldur var hógvær maður og hreykti sér ekki. Hann sýndi samferðafólki sínu mikla virðingu og var alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd og miðla af sinni reynslu. Ég var ein af þeim fjölda stúdenta sem Baldur aðstoðaði við að leita sér menntunar í útlöndum og ég á honum mikið að þakka.

Baldur var alinn upp á Hólsfjöllum og fékk ungur bæði að kynnast fegurð íslenskrar náttúru og erfiðri lífsbaráttu í afskekktri sveit í stórum systkinahópi. Baldur gekk menntaveginn og ferðaðist víða um heiminn en líklega tók hann Hólsfjöllin með sér í sína lífsferð og íslensk náttúra var honum alltaf hugleikin. Baldur fékk líka að kynnast sorginni og lærði að lifa með henni á sinn einstaka hátt. Synir Baldurs sem misstu móður sína ungir bera uppeldi föður síns og væntumþykju fagurt vitni.

Ég minnist þess kærleiksríka sambands sem ríkti á milli ömmu Hrefnu og Baldurs. Baldur gaf henni hlutdeild í sínu lífi og færði henni heiminn inn í hennar litlu stofu með þéttskrifuðum póstkortum og fallegum bréfum. Ég minnist einnig skemmtilegra heimsókna Baldurs til ömmu þar sem hann gaf öllum athygli, jafnt börnum sem fullorðnum, spurði, hlustaði og sagði frá.

Baldur var mikill bókamaður og umgekkst bækur af mikilli virðingu. Hann átti lifandi bókasafn þar sem bækurnar stóðu ekki óhreyfðar og ólesnar í hillum heldur tók hann sömu bækurnar fram aftur og aftur, las og páraði og sá þær í nýju ljósi. Fram á síðustu stundu var Baldur að mennta sig og um leið að mennta þá sem í kringum hann voru, hvort sem það var fjölskyldan, nemendur, vinir út um allan heim, börn sem urðu á vegi hans eða starfsfólk sem annaðist hann síðustu árin.

Ég kveð Baldur með miklum söknuði en um leið miklu þakklæti fyrir að hafa kynnst jafn ríkum manni af kærleik, æðruleysi og hógværð. Ég færi sonum Baldurs og fjölskyldum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Rut.

Kveðja frá Menntaskólanum í Reykjavík

Baldur Ingólfsson hóf kennslu í Menntaskólanum í Reykjavík árið 1956. Fyrstu árin var hann stundakennari í þýsku. Hann var settur kennari í þýsku haustið 1961 og var fastráðinn starfsmaður skólans til vors 1987. Því varð starfsferillinn í skólanum alllangur. Baldur var um skeið deildarstjóri í þýsku.

Baldur er höfundur kennslubókanna Þýska, Þýsk málfræði og Þýskir leskaflar og æfingar en kennslubækur hans voru vinsælar á menntaskólastigi. Baldur var brautryðjandi á mörgum sviðum í kennslu, t.d. vann hann í samstarfi við Ríkisútvarpið að gerð kennsluþátta í þýsku sem voru sýndir í sjónvarpi. Baldur sinnti margvíslegum félagsmálum og var formaður Félags þýskukennara í allmörg ár og var sæmdur æðstu heiðursorðu þýska ríkisins fyrir störf í þágu samskipta Íslands og Þýskalands. Baldur var mikill málamaður og auk þýsku kenndi hann einnig frönsku og ítölsku. Í þýskukennslu lagði hann mikla áherslu á að kynna nemendum menningu Þýskalands samhliða tungumálanáminu. Hann lagði mikla vinnu í yfirferð verkefna nemenda, og þetta var allt unnið af sérstakri alúð og vandvirkni.

Baldur naut virðingar í hópi kennara, og hann var traustur, metnaðarfullur og samviskusamur starfsmaður. Hans skal hér minnst með þakklæti og virðingu. Börnum hans og öðrum vandamönnum eru færðar innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Baldurs Ingólfssonar.

Yngvi Pétursson.