Kristján Jónsson
kjon@mbl.is
Ráðamenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, AGS, reyna nú ákaft að fá evruríki Evrópusambandsins til að leggja fram fé til að lækka skuldir Grikkja og koma þeim niður í um 120% af landsframleiðslu. Christine Lagarde, yfirmaður AGS, sagði í gær að ef einkareknir bankar og fjármálastofnanir samþykktu ekki nægilega miklar afskriftir á skuldum gríska ríkisins yrðu opinberir eigendur grískra skuldabréfa að brúa bilið. Alþjóðabankinn sagðist í gær ætla að lána ríkjum í Austur-Evrópu og Mið-Asíu, sem ættu í vök að verjast vegna evrukreppunnar, lán upp á alls 27 milljarða dollara.
Blaðið Financial Times sagði AGS beita sér fyrir því að seðlabanki ESB léti Grikkjum í té hugsanlegan hagnað upp á um 52 milljarða dollara af grískum skuldabréfum sem bankinn á. En þar með væri bankinn orðinn beinn þátttakandi í að fella niður skuldir Grikkja sem margir segja að geti orðið hættulegt fordæmi þar sem fleiri evruríki eiga í miklum vanda.
Seðlabanki ESB í vörn
Á vef Bloomberg -fréttaveitunnar kom fram að seðlabankinn væri algerlega andvígur öllum tilslökunum varðandi grísk skuldabréf í hans eigu. Munu ráðamenn bankans líta svo á að ef hann taki sjálfur beinan þátt í skuldaniðurfærslunni geti það haft slæm áhrif á orðspor stofnunarinnar, traustið muni dvína.Lagarde sagði að ef Evrópusambandinu tækist að reisa trúverðugan „eldvegg“ utan um stærri hagkerfi á borð við Ítalíu og Spán myndu lönd utan evrusvæðisins verða tilbúin að leggja sitt af mörkum.
„Það sem við gerum kröfu um er að Grikkland verði komið á braut sjálfbærra ríkisfjármála árið 2020,“ sagði Christine Lagarde. Grikkir eiga nú í viðræðum við banka og fjármálastofnanir um afskriftir skulda upp á minnst 100 milljarða evra en ekki hefur enn tekist að semja um vaxtaprósentu á nýjum skuldabréfum. Fullyrt er að samkvæmt síðasta tilboði bankanna myndi andvirði skuldabréfaeignar þeirra í Grikklandi lækka um 69%.
MERKEL TREG Í TAUMI
Boðar áfram þýsku leiðina
Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að það geti verið bjarnargreiði við Grikki að veita þeim fjárhagsaðstoð ef ekki sé um leið tekið á orsökum efnahagsvandans. Ljóst er að Merkel er ekki reiðubúin að samþykkja hugmyndir Christine Lagarde og annarra um að gefin verði út ríkisskuldabréf fyrir evrusvæðið með sameiginlegri ábyrgð allra ríkjanna.Hún er ekki heldur hrifin af því ráði AGS að draga úr aðhaldi á þeirri forsendu að sé gengið of langt muni slíkar aðgerðir kæfa efnahagsbata í fæðingu. Merkel boðar sem fyrr þýsku leiðina: að minnka ríkisútgjöld þar til úr rætist.