Þýski sportbílasmiðurinn Porsche naut einstakrar velgengni á nýliðnu ári þótt krepputímar ríki víðast hvar um lönd. Aldrei hefur fyrirtækið selt fleiri bíla og nam aukningin 22,2% frá árinu 2010. Porsche hafði sett sér sem takmark að selja hundrað þúsund bíla 2011 en gerði gott betur, seldi 118.867 eintök.
„Tæplega 120 þúsund sportbílar seldir 2011, það er metár í sögu Porsche. Áform okkar ganga út á aukningu einnig í ár þegar ný kynslóð af 911-bílnum mun örva markaðinn,“ segir forstjórinn Matthias Müller af þessu tilefni.
Aukning varð hjá Porsche á öllum sölusvæðum heims í fyrra. Flestir bílar seldust í Asíu eða 42.971 eintök, sem er 44% aukning milli ára. Mest varð aukningin í Kína af einstökum löndum, eða 64,6%.
Af einstökum löndum náði Porsche mestum árangri í Bandaríkjunum þar sem 29.023 bílar seldust í fyrra, en það er 14,6% aukning frá árinu áður. Á heimavelli í Þýskalandi seldi sportbílasmiðurinn 14.959 eintök sem er 13,2% aukning. Hvað einstök módel varðar reyndist Porsche Cayenne vinsælastur 2011, en af honum seldust 59.897 eintök um heim allan. Þar af seldust Cayenne S og Cayenne Turbo í 18.126 eintökum.
agas@mbl.is