Tölvutækninni fleygir ört fram og ekkert lát er á framþróuninni.
Tölvutækninni fleygir ört fram og ekkert lát er á framþróuninni. Með hverju misserinu verða tölvurnar fjölhæfari, öflugri og minni, og nú er svo komið að annað hvert mannsbarn gengur með tölvu í vasanum sem er í senn sími, tónlistarspilari, myndavél, fartölva og er þá fátt eitt nefnt af öllum möguleikunum sem búa í hefðbundinni tónhlöðu eða snjallsíma. Slíkt hefði þótt saga til næsta bæjar árið 1978, en þá var meðfylgjandi mynd tekin. Þá þekkti almenningur ekki hugtök á borð við „fartölva“, „snjallsími“ og „snertiskjár“ og tölvur voru nánast veggfestir hlunkar með svörtum skjá. Eins er ólíklegt að orðið „flatskjár“ hafi þekkst á þessum árum. Tölustafir og bókstafir birtust í grænu eða appelsínugulu letri, að ógleymdri umgjörðinni sem var öll hin fyrirferðarmesta. Gripurinn á myndinni hefur eflaust þótt með nýstárlegasta móti og lögunin á skjánum geysismart. Reyndar er ekki loku fyrir það skotið að mörgum kunni að þykja skjárinn reffilegur enda skemmtilega gamaldags lag á honum.