Það er orðið töluvert síðan allar stelpur á aldrinum sex til 12 ára vildu vera eins og Birgitta Haukdal. En söngkonan gerði garðinn frægan með sveitaballasveitinni Írafári sem var ein sú vinsælasta á landinu. Straumar er hennar fyrsta sólóplata en á henni nýtur hún liðsinnis Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar sem sér að miklu leyti um hljóðfæraleik ásamt því að stýra upptökum. Lögin eru héðan og þaðan en Birgitta semur sjálf töluvert af textunum.
Eins og annað sem kemur úr þessari smiðju er þetta vandlega meitlað popp sem tikkar í öll boxin sem þarf til að fá spilun í útvarpi. Frábær hljóðfæraleikur, víðáttumikill hljómur og fagmennska fram í fingurgóma. Fyrir vikið vantar þó eitthvað til að gera tónlistina persónulegri sem tapast gjarnan þegar popplög eru útsett til að þóknast markaðnum.
Titillagið sker sig aðeins úr og hljómar aðeins sérstakar en önnur á plötunni og svei mér þá ef hljómurinn minnir ekki bara örlítið á Ragnhildi Gísladóttur. Aðdáendur Birgittu taka plötunni að öllum líkindum opnum örmum enda víkur hún ekki frá þeirri formúlu sem aflaði henni vinsælda áður fyrr.
Hallur Már