„Maður þroskast með árunum og sér æ betur að börnin og nánast fjölskylda eru það sem mestu skiptir í lífinu.

„Maður þroskast með árunum og sér æ betur að börnin og nánast fjölskylda eru það sem mestu skiptir í lífinu. Fyrir tíu árum hefði maður ekki endilega velt slíku fyrir sér en sé þetta vel í dag,“ segir Gísli Þorsteinsson, markaðsstjóri Nýherja, sem verður 41 árs nk. föstudag, 27. janúar. Hann er fjögurra barna faðir, kvæntur Völu Dröfn Jóhannsdóttur og reiknar með að fjölskyldan geri sér þann dagamun á afmælisdeginum að fara út að borða á Hamborgarafabrikkunni.

„Ég hef aldrei blásið til mikillar hátíðar á afmælisdeginum. Er einfaldlega ekki þeirrar gerðar. Vil frekar vera með fólkinu mínu á svona dögum. En svona almennt talað þá finnur maður kominn nokkuð á fimmtugsaldurinn að maður er ekkert unglamb lengur og hefur á nokkurri lífsreynslu að byggja – þó að maður sé heldur ekki farinn að horfa í baksýnisspegilinn. Rúmlega fertugur er maður á hátindi lífsins og margt spennandi er framundan.“ sbs@mbl.is